Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

240/2018

Reglugerð um fullnustu refsinga.

1. gr. Hlutverk Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Hlutverk Fangelsismálastofnunar ríkisins er:

  1. Að sjá um fullnustu refsidóma. Fangelsismálastofnun framsendir lögreglustjóra sektardóma til fullnustu og sakarkostnað til innheimtu.
  2. Að annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið og gert að sæta eftirliti, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar.
  3. Að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta svo sem kveðið er á um í lögum og öðrum reglugerðum.
  4. Að annast önnur verkefni í samræmi við ákvæði laga um fullnustu refsinga og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo sem að halda utan um tölulegar upplýsingar á sviði stofnunarinnar og stuðla þar með að rannsóknum á sviði fangelsismála.

2. gr. Deildaskipting fangelsa.

Heimilt er að skipta fangelsum upp í deildir, svo sem gæsluvarðhaldsdeildir, öryggisdeildir og meðferðardeildir.

3. gr. Öryggisdeild fangelsis.

Á öryggisdeild er unnt að vista fanga sem gerst hafa sekir um alvarleg eða ítrekuð agabrot, eru taldir stefna öryggi fangelsisins í hættu eða geta ekki vistast með öðrum föngum vegna hegðunar sinnar.

4. gr. Ákvörðun um vistun á öryggisdeild.

Forstöðumaður viðkomandi fangelsis tekur ákvörðun um að vista skuli fanga á öryggisdeild, sbr. 5. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega og bóka. Vistun á öryggisdeild má ekki ákvarða í lengri tíma en þrjá mánuði í senn.

5. gr. Réttindi og skyldur fanga á öryggisdeild.

Stundi fangi sem vistaður er á öryggisdeild vinnu eða nám skal sú starfsemi að jafnaði fara fram þar. Útivera og tómstundir fanga á öryggisdeild skulu að jafnaði fara fram á öðrum tíma en útivera og tómstundir annarra fanga. Samskipti við fanga utan öryggisdeildar eru ekki heimil nema með sérstöku leyfi forstöðumanns. Skulu þau þá að jafnaði fara fram í gegnum bréfaskipti.

Að öðru leyti fer um réttindi og skyldur fanga sem vistaður er á öryggisdeild eftir lögum um fullnustu refsinga, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra.

6. gr. Eftirlit heilbrigðisstarfsmanns með fanga á öryggisdeild.

Þegar fangi er vistaður á öryggisdeild skal tilkynna lækni um vistunina. Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður, s.s. sálfræðingur eða hjúkrunarfræðingur, hefur reglulegt eftirlit með fanganum.

7. gr. Meðferðaráætlun.

Fangelsismálastofnun skal í samvinnu við fanga gera meðferðaráætlun fyrir fanga sé það talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar.

Í áætluninni skal meðal annars koma fram meðferðarþörf, svo sem þörf fyrir sálfræðilegan, félagslegan og annan stuðning. Vinna skal eftir þessari áætlun með fanga á afplánunartímanum undir stjórn vel menntaðs og þjálfaðs starfsfólks.

Markmið meðferðaráætlunarinnar er að fangi nái að fóta sig í samfélaginu eftir lok afplánunar, hann kunni að leita sér aðstoðar, eigi fastan samastað og hafi góð tengsl við fjölskyldu og/eða vini.

8. gr. Vinna í fangelsi.

Matarhlé telst ekki til vinnutíma.

Þegar fangi getur ekki af trúarástæðum unnið tilgreindan vikudag skal tekið tillit til þess eftir því sem aðstæður leyfa. Í slíku tilviki getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að fangi uppfylli vinnuskyldu með öðrum hætti.

9. gr. Fyrirkomulag heimsókna.

Fanga er heimilt að taka á móti gestum í allt að tvær klst. í senn. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að heimsóknartími sé lengri, bæði almennt og í einstökum tilfellum. Heimsóknir vina í lokuð fangelsi skulu að jafnaði fara fram án líkamlegrar snertingar í fyrstu tvö skiptin, þ.e. í glerheimsóknaraðstöðu fangelsisins sé slík aðstaða til staðar. Sé slík aðstaða ekki til staðar skal heimsóknin að jafnaði fara fram undir eftirliti fangavarða.

10. gr. Eftirlit með heimsóknum.

Í upphafi afplánunar skal fangi skýra starfsmönnum fangelsis frá því hverjir séu nánustu vandamenn hans. Fangi skal óska eftir heimsókn þeirra við starfsmenn fangelsisins.

Óski fangi eftir heimsókn annarra en tilkynnt var um í upphafi skal hann að jafnaði tilkynna það með tveggja vikna fyrirvara. Við komu í fangelsið skal heimsóknargestur framvísa gildum persónuskilríkjum. Varðstjóra er heimilt að veita undanþágu frá því ef slíkt er augljóslega óþarft.

11. gr. Reglubundnar heimsóknir.

Forstöðumaður fangelsis getur leyft reglubundnar heimsóknir tilgreindra einstaklinga til eins eða fleiri fanga án þess að það skerði rétt fanga til almennra heimsókna. Slíkar heimsóknir mega fara fram utan reglubundinna heimsóknartíma.

12. gr. Heimsóknir undir eftirliti.

Þegar heimsókn fer fram undir eftirliti fangavarðar má setja það skilyrði að samtal fari fram á tungumáli sem fangavörðurinn skilur, enda teljist það nauðsynlegt til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsi eða til að fyrirbyggja refsiverðan verknað. Ef aðstæður krefja skal fá túlk til aðstoðar.

13. gr. Nánari reglur um fyrirkomulag heimsókna.

Forstöðumaður fangelsis getur að öðru leyti sett nánari reglur um fyrirkomulag heimsókna, svo sem um heimsóknartíma og hvaða hluti heimsóknargestur má hafa með sér. Upplýsa skal þann sem kemur í heimsókn til fanga um reglur sem gilda um heimsóknir.

14. gr. Haldlagning bréfs.

Nú er hald lagt á bréf og skal þá sendanda tilkynnt um að það hafi verið haldlagt, nema ríkar ástæður séu til annars.

15. gr. Opinberar stofnanir.

Með opinberum stofnunum í 4. mgr. 49. gr. og 2. mgr. 50. gr. laga um fullnustu refsinga er, auk íslenskra opinberra stofnana, átt við:

  1. Mannréttindadómstól Evrópu.
  2. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.
  3. Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT).
  4. Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
  5. Stjórnarerindreka eða ræðismann ef fangi er ríkisborgari viðkomandi ríkis.

16. gr. Aðgangur að fjölmiðlum.

Skrifleg umsókn um viðtal við fanga í fjölmiðli skal send Fangelsismálastofnun. Þar skal koma fram við hvern óskað er viðtals, efni viðtals í meginatriðum og hvort óskað er eftir myndatöku eða hljóðritun. Þegar metið er hvort viðtal verður veitt skal Fangelsismálastofnun einkum líta til hegðunar fanga í refsivist. Viðtal verður ekki veitt ef talið er að það sé andstætt almannahagsmunum eða hagsmunum brotaþola.

Nú er um gæsluvarðhaldsfanga að ræða og ákveður þá sá sem rannsókn stýrir í viðkomandi máli að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun hvort viðtal skuli heimilað, í samræmi við e-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 með síðari breytingum.

Nú er veitt heimild til viðtals og skal þá í leyfinu kveðið á um hvernig því skuli háttað, þar á meðal um eftirlit með viðtalinu og að Fangelsismálastofnun sé heimilað að skoða viðtal eða myndatöku í endanlegri mynd áður en það er birt eða sent út til að sannreyna hvort skilyrði fyrir viðtalinu eða myndatöku hafi verið uppfyllt í því skyni að tryggja að viðtalið teljist hvorki andstætt almannahagsmunum né hagsmunum brotaþola.

Bein útsending viðtals er óheimil. Ekki er heimilt að nafngreina eða fjalla um persónuleg málefni annarra fanga í viðtali en þess sem viðtalið er við. Ekki er heimilt að mynda aðra fanga en viðtalið er við nema með þeirra samþykki. Forstöðumaður fangelsis ákveður hvar myndataka fer fram.

17. gr. Reglubundin dagsleyfi.

Greiða skal fanga þóknun eða dagpeninga, eins og venjulega, fyrir þann tíma sem hann er utan fangelsis vegna leyfis, nema hann hafi rofið skilyrði leyfisins eða að öðru leyti þær reglur sem um það giltu eða misnotað það að öðru leyti.

18. gr. Synjun um leyfi eða afturköllun þess.

Nú er synjað um leyfi til dvalar utan fangelsis vegna þess að hætta er talin á að fangi muni misnota það eða það er afturkallað og skal þá koma fram hvenær ákvörðunin geti fyrst komið til endurskoðunar.

19. gr. Tilkynning til sveitarfélaga um lok afplánunar.

Sé þess þörf tilkynnir Fangelsismálastofnun félagsþjónustu þess sveitarfélags sem fangi á lögheimili í um lok afplánunar hans.

Slíka tilkynningu skal að jafnaði ekki senda síðar en tveimur mánuðum fyrir ætlaðan lokadag afplánunar.

20. gr. Gæsluvarðhaldsfangar.

Rannsóknaraðili skal, ef því verður við komið, tilkynna starfsmönnum viðkomandi fangelsis í tæka tíð um væntanlegan gæsluvarðhaldsfanga.

Þegar fangi kemur í gæsluvarðhald skal afhenda starfsmanni fangelsis staðfest endurrit af gæsluvarðhaldsúrskurði eða yfirlýsingu dómara um úrskurðinn. Jafnframt skal afhenda vistunarseðil, sem sá sem rannsókn stýrir gefur út, þar sem fram kemur nafn, kennitala og heimilisfang fanga, hvar og hvenær úrskurður var kveðinn upp og tímalengd hans, hver stýrir rannsókn og hver sé verjandi fanga og símanúmer verjandans. Á vistunarseðli skal enn fremur tilgreina fyrirkomulag gæsluvarðhalds.

21. gr. Upphaf gæsluvarðhalds.

Þegar starfsmaður fangelsis hefur sannreynt að fangi skuli settur í gæsluvarðhald skal fanginn afhenda persónulega muni og líkamsleit gerð. Áður en gæsluvarðhaldsfangi er færður til klefa síns er heimilt að ákveða að hann fari í bað eða sturtu.

22. gr. Fæði gæsluvarðhaldsfanga.

Gæsluvarðhaldsfanga skal séð fyrir fæði á venjubundnum matmálstímum. Forstöðumaður fangelsis getur takmarkað eða bannað að fangi fái sent fæði ef hætta þykir á að það raski góðri reglu eða öryggi í fangelsinu. Fangelsi greiðir ekki kostnað við fæði sem gæsluvarðhaldsfangi útvegar sér eða fær sérstaklega sent, nema það sé gert að ráði fangelsislæknis.

23. gr. Skammtímaleyfi gæsluvarðhaldsfanga.

Nú er gæsluvarðhaldsfanga veitt skammtímaleyfi skv. V. kafla laga um fullnustu refsinga og skal þá liggja fyrir skriflegt samþykki af hálfu þess sem rannsókn stýrir.

Þegar gæsluvarðhaldsfangi fær skammtímaleyfi skal hann ávallt vera í fylgd lögreglumanna eða fangavarða.

24. gr. Vinnsla persónuupplýsinga.

Forstjóri Fangelsismálastofnunar og forstöðumenn fangelsa bera ábyrgð á öryggi við vinnslu persónuupplýsinga og að meðferð þeirra samrýmist reglum og stöðlum sem Persónuvernd setur um hvernig tryggja skuli öryggi upplýsinga. Jafnframt bera þeir ábyrgð á að varsla gagna sé með traustum hætti. Til að fullnægja þessu skal reglulega framkvæma öryggismat og gera kerfisbundnar öryggisráðstafanir.

Forstjóri Fangelsismálastofnunar og forstöðumenn fangelsa skulu viðhafa og skipuleggja viðvarandi innra eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga. Eftirlitið skal miða að því að tryggja áreiðanleika upplýsinga og koma í veg fyrir aðgang, breytingu eða miðlun upplýsinga án heimildar.

Vinnsla persónuupplýsinga skal takmörkuð við upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna fullnustustarfa og er óheimilt að nýta þær í öðrum tilgangi. Eftir því sem frekast er unnt skal vinnsla persónuupplýsinga bundin við sannreyndar upplýsingar. Upplýsingum skal eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf.

Aðgangur starfsmanna Fangelsismálastofnunar skal ekki vera rýmri en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim verkefnum sem þeir hafa með höndum.

25. gr. Bakgrunnsskoðun.

Áður en aðili er skipaður, settur eða ráðinn til starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins skal hann, að fengnu samþykki hans, undirgangast athugun sem felst í öflun upplýsinga úr skrám og upplýsingakerfum sem getið er í 2. mgr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, sem lið í mati á því hvort óhætt sé að veita viðkomandi aðgang að fangelsum ríkisins, aðgang að upplýsingum um framkvæmd fangelsisstarfa og um fanga. Með bakgrunnsathugun skal m.a. kanna og staðfesta:

  1. Deili á viðkomandi, t.d. með vegabréfi sem er í gildi,
  2. heimili eða dvalarstað viðkomandi fimm ár aftur í tímann,
  3. feril viðkomandi fimm ár aftur í tímann,
  4. hvort möguleg hætta stafi af viðkomandi við störf hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins.

Endurtaka skal athugunina með reglulegu millibili og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016.

Fangelsismálastofnun er, eftir atvikum með aðstoð ríkislögreglustjóra, heimilt að eigin frumkvæði að gera úrtaksathugun á þeim sem staðist hafa bakgrunnsathugun meðan viðkomandi starfar hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsum ríkisins. Jafnframt er Fangelsismálastofnun heimilt að hafa eftirlit með skráningum bakgrunnsathugaðra einstaklinga í málaskrá lögreglu eins lengi og þeir eru við störf og aðgangsheimildir þeirra eru í gildi. Láti einstaklingur af störfum skal eftirliti með honum í málaskrá lögreglu samkvæmt framangreindu ljúka.

Nú eru lögð fram gögn sem ekki teljast nægjanleg til að hægt sé að meta viðkomandi og hann hefur ekki sinnt ítrekaðri beiðni um frekari gögn eða upplýsingar og skal þá Fangelsismálastofnun hafna umsókn.

26. gr. Upplýsinga aflað úr upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar eða annarra erlendra yfirvalda vegna bakgrunnsskoðunar.

Fangelsismálastofnun skal senda beiðni um öflun upplýsinga, skv. c. lið 2. mgr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, til embættis ríkislögreglustjóra til að unnt verði að gera bakgrunnsathugun á einstaklingi í samræmi við ákvæðið.

Hafi viðkomandi verið búsettur erlendis á síðastliðnum fimm árum eða er erlendur ríkisborgari skal afla gagna frá því ríki. Í slíkum tilvikum getur Fangelsismálastofnun krafist þess að viðkomandi skili sakavottorði gefnu út af viðkomandi ríki og skal það dagsett innan þriggja mánaða frá dagsetningu umsóknar.

27. gr. Mat á brotaferli vegna bakgrunnsskoðunar.

Við ákvörðun um hvort skipa skuli, setja eða ráða umsækjanda til starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins skal sérstaklega athuga brotaferil hans. Leggja skal til grundvallar upplýsingar úr skrám og upplýsingakerfum skv. 2. mgr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga.

Hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni eða vopnalögum skal að jafnaði synja honum um starf. Hafi einstaklingi, hérlendis eða erlendis, verið ákvörðuð sekt fyrir brot á framangreindum lögum, og/eða hann sé með ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi er lýtur að brotum á þeim lögum eða hefur gerst brotlegur gegn öðrum lögum er heimilt að synja honum um starf.

Komi í ljós við bakgrunnsathugun að lögregla hefur þurft að hafa endurtekin afskipti af einstaklingi vegna meintra brota hans getur Fangelsismálastofnun ákveðið að synja honum um starf hjá stofnuninni eða í fangelsum ríkisins.

28. gr. Skilyrði rafræns eftirlits.

Telji Fangelsismálastofnun fanga hæfan til að nýta sér úrræði skv. 1. mgr. 31. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 en stofnun eða heimili telur hann ekki hæfan getur Fangelsismálastofnun engu að síður leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis skv. 33. gr. laganna enda uppfylli hann önnur skilyrði.

29. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 98. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961 8. nóvember 2005, með síðari breytingum.

Dómsmálaráðuneytinu, 14. febrúar 2018.

Sigríður Á. Andersen.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.