Fara beint í efnið

Prentað þann 28. apríl 2024

Stofnreglugerð

173/2023

Reglugerð um skipan og hlutverk flugverndarráðs.

1. gr. Tilgangur og markmið.

Flugverndarráð er stjórnvöldum til ráðgjafar um flugverndaraðgerðir sem nauðsynlegar eru til að mæta hættu gegn almenningsflugi og almannahagsmunum.

Meðal verkefna flugverndarráðs eru:

  1. endurskoðun flugverndaráætlunar Íslands og framkvæmd hennar, gerð tillagna til breytinga á áætluninni þegar við á, m.a. vegna þróunar í flugverndartækni eða annarri tækni eða öðrum þáttum, breytinga á vástigsaðgerðum eða öðrum skyldum þáttum;
  2. að tryggja samstarf í flugverndaraðgerðum milli stjórnvalda og annarra aðila sem eru ábyrgir fyrir framkvæmd flugverndaráætlunar Íslands samkvæmt eðli og umfangi áhættunnar;
  3. að meta, í samvinnu við önnur viðeigandi stjórnvöld, þörf á breytingum á stefnu í flugverndarmálum;
  4. að taka til skoðunar tillögur flugverndarnefnda flugvalla og mæla með breytingum til rekstraraðila flugvalla, flugrekenda og annarra aðila auk Samgöngustofu þar sem við á.

2. gr. Skipan.

Ráðherra skipar átta aðalmenn og varamenn fyrir hvern til fjögurra ára í senn. Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna. Ráðið er skipað þannig:

einn fulltrúi ráðuneytis
einn samkvæmt tilnefningu Isavia ohf.
einn samkvæmt tilnefningu lögreglustjórans á Suðurnesjum
einn samkvæmt tilnefningu ríkislögreglustjóra
tveir samkvæmt tilnefningu flugrekenda
tveir samkvæmt tilnefningu Samgöngustofu og skal annar þeirra vera formaður ráðsins.

Aðalmenn og varamenn skulu hafa undirgengist og staðist bakgrunnsathugun ríkislögreglustjóra vegna flugverndar.

Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn.

Auk fastra fulltrúa getur ráðið boðið gestum til þátttöku á fundum ráðsins eftir þörfum, s.s. til að tryggja sérþekkingu og reynslu við umfjöllun mála.

3. gr. Fundir.

Fundi í flugverndarráði skal halda eftir þörfum en eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Formaður boðar fundi. Fundargerðir skulu haldnar og vistaðar hjá Samgöngustofu og ráðuneyti. Fundargerðum skal einungis dreift utan flugverndarráðs að fengnu samþykki formanns.

Flugverndarráði er heimilt að setja á stofn sérstaka vinnuhópa til að skoða tiltekin málefni og leita aðstoðar sérfræðinga og hagaðila í því efni.

4. gr. Trúnaður.

Hverjum ráðsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu í flugverndarráði og leynt skal fara samkvæmt lögum, eðli máls eða á grundvelli sérstakrar ákvörðunar þar um. Þagnarskyldan helst þótt látið hafi verið af störfum í flugverndarráði.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 9. gr. loftferðalaga nr. 80/2022, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Innviðaráðuneytinu, 8. febrúar 2023.

F. h. r.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.