Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

96/1995

Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Fellahrepps.

1. gr.

Skólinn heitir Tónlistarskóli Fellahrepps. Skólinn er eign Fellahrepps og fer sveitarstjórn Fellahrepps með yfirstjórn hans. Skólinn starfar skv. lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 með síðari breytingum.

2. gr.

Hlutverk skólans er að glæða áhuga á tónlist og tónlistariðkun á starfssvæði sínu, annast kennslu í hljóðfæraleik ásamt öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í námskrám tónlistarskólanna og búa nemendur sína undir áframhaldandi nám í tónlist.

3. gr.

Sveitarstjórn kýs 3 manna skólanefnd og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn að loknu hverjum reglulegum sveitarstjórnarkosningum. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Skólastjóri eða staðgengill hans situr fundi skólanefndar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Formanni er skylt að boða til fundar ef tveir nefndarmenn eða skólastjóri æskja þess.

4. gr.

Sveitarstjórn ræður skólastjóra að fengnum tillögum skólanefndar. Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. Starfsmenn skólans starfa samkvæmt starfslýsingum sem skólanefnd ákveður.

5. gr.

Skólastjóri fer með daglega stjórnun í samráði við kennara. Hann ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við reglugerð þessa og námskrár og reglur sem í gildi eru um tónlistarskóla í landinu á hverjum tíma. Skólastjóri skal framfylgja samþykktum skólanefndar. Hann hefur umsjón með eigum skólans. Skólastjóri skal ganga frá vinnuskýrslum og árita reikninga til greiðslu og annast skráningu nemenda.

6. gr.

Skólastjóri skal fyrir 1. ágúst ár hvert gera áætlun um kennslustundafjölda á næsta skólaári í samráði við skólanefnd. Skal áætlun þessi lögð fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Áætlun um kennsluskipan og námsframboð skal liggja fyrir í upphafi skólaárs.

7. gr.

Skólastjóri setur skólanum starfsreglur sem kveða á um ástundun, árangur og umgengni nemenda. Reglurnar þurfa samþykki skólanefndar.

8. gr.

Rekstur skólans skal kosta með fjárveitingum á fjárhagsáætlun Fellahrepps og skólagjöldum nemenda. Skólastjóri og skólanefnd leggja drög að fjárhagsáætlun í upphafi hvers árs og leggja tillögu fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 15. janúar ár hvert. Skrifstofa Fellahrepps annast greiðslu launa og rekstrarreikninga svo og bókhald Tónlistarskóla Fellahrepps.

9. gr.

Skólagjöld eru ákveðin af sveitarstjórn Fellahrepps að fengnum tillögum skólanefndar Tónlistarskólans. Skólagjöld skulu greidd fyrirfram og annast skrifstofa Fellahrepps innheimtu þeirra.

10. gr.

Starfstími skólans er sá sami og grunnskólans í Fellahreppi og skulu leyfisdagar vera hinir sömu og þar. Um laun, viðverutíma og vinnuskyldu skólastjóra og kennara fer eftir gildandi kjarasamningi milli Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna annars vegar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Stéttarfélag skólastjóra og kennara er Kennarasamband Íslands.

11. gr.

Reglugerð þessi er samþykkt af sveitarstjórn Fellahrepps þann 4. janúar 1995.

Menntamálaráðuneytið, 10. febrúar 1995.

Fh.r. Guðríður Sigurðardóttir.

Stefán Baldursson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.