Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 1988

51/1976

Reglugerð um vöruflutninga með loftförum

1. gr. Almennt.

1.1. Þegar vörur eru fluttar með loftförum skal hlaða þeim og binda þær þannig tryggilega niður, að öruggt sé að þær geti ekki færst til, og á þann hátt valdið breytingu á þyngdarpunkti loftfarsins, skaðað áhöfn eða farþega, eða skemmt mikilvæga hluta loftfarsins.

2. gr. Vöruflutningar í venjulegu vörurými.

2.1. Við hleðslu í vörurými, skal fara eftir gildandi reglum um þann hámarksþunga sem láta má í vörurýmið, og jafnframt á hverja flatareiningu í hlutaðeigandi tegund loftfars. Hleðslufyrirmæli hér að lútandi skulu höfð greinilega uppi við í vörurýminu í augsýn þeirra sem annast hleðsluna.

2.2. Allur bindibúnaður, sem notaður er til þess að binda niður farm f vörurými, svo sem net, krókar, bönd og festingar, skal þola eftirfarandi álag:

a) Þegar vörurými er þannig, að óbundinn flutningur gæti skaðað áhöfn eða farþega þegar kraftar hraðabreytinga verka á loftfarið:

Kraftstefna - Brotþol

Fram - 6 X þungi farmsins

Upp - 2 X þungi farmsins

Aftur og til hliðar - 1,5 X þungi farmsins

eða meira brotþol sem loftfarið er gert fyrir.

b) Þegar vörurými er þannig að ekki er hætta á því sem um getur í lið a):

Kraftstefna - Brotþol

Fram, upp, aftur og til hliðar - 1,5 X þungi farmsins

2.3. Fyrir loftför, sem notuð eru til flugrekstrar í atvinnuskyni, skulu vera til handbærar leiðbeiningar um hleðslu og frágang farms í vörurými sem lýsa hvernig hólfa á í sundur með netum, og hvernig binda á niður farminn og hvað á við í hverju tilviki. Þar skal einnig getið um styrkleika og brotþol fastra sem og lausra hluta í bindibúnaðinum. Þegar vörurými, sem átt er við í 2.2. b) hér að framan, er hólfað sundur með neti, má láta stykkjaflutning í hólfin án þess að binda flutninginn niður.

3. gr. Vöru- og farangursflutningar í farþegarými.

3.1. Flytja má vörur auk farþega í farþegarými loftfara, sem aðallega eru notuð til farþegaflutninga, ef þau eru viðurkennd til slíkra flutninga, og ef vörunum er, með þeim undantekningum sem um getur í gr. 3.1.1, hlaðið framan við farþegana.

3.1.1 Hlaða má farangri í samræmi við það, sem hér hefur verið sagt, við hliðina á farþeganum sem fremst situr. Ef varningi er komið fyrir í sérstökum gámum, sem gerðir eru til þess að spenna þá í farþegasæti, má setja slíka gáma í sæti aftan við farþega í farþegarýminu.

3.2 Eigi má hlaða varningi þannig að lokað sé fyrir gangdyr eða neyðardyr í stjórnklefa eða í farþegarými. Öryggisbúnaður skal vera aðgengilegur. Ekki má varningurinn skyggja á leiðbeiningarskilti í farþegaklefa nema sett séu upp önnur í þeirra stað.

3.3 Umbúðir varnings skal vanda - sjá gr. 3.6. hér að aftan og varning skal binda niður í samræmi við gr. 2.2. a) hér að framan. Um handfarangur gilda ákvæði reglugerðar um mannflutninga í loftförum.

3.4 Þegar varningi er hlaðið í farþegarými skal sérstaklega gæta þess að ekki sé farið fram úr leyfilegri hámarkshleðslu á hverja flatareiningu. Í þessu tilviki skal miða við brotþol, sem er 4.5 X þungi farmsins, eða meira brotþol, ef loftfarið er smíðað eða gert fyrir það. Eigi mega gámar með farangri, sem settir eru í farþegasæti, vera þyngri en 80 kg.

3.5 Í farþegarými má aðeins flytja þess konar farangur, sem ekki getur eðlis síns vegna eða staðsetningar í loftfarinu, haft áhrif á flugöryggið. Í farþegarými má ekki flytja varning, sem felst í skilgreiningu í 4. gr.

3.6 Varningur skal vera í þess konar gámum eða í slíkum umbúðum að eldhætta sé ekki meiri en frá stólaklæðningu og öðrum innréttingum farþegarýmisins. Ella skal breitt yfir hann með óeldfimum dúk. Varningurinn skal einnig vera þannig um búinn að ekki finnist óþefur af honum.

3.7 Þar sem það á við skulu leiðbeiningar þær, sem um getur í gr. 2.3. um hleðslu farms í vörulestum, einnig hafa að geyma reglur um hleðslu varnings í farþegarými.

4. gr. Flutningur varnings sérstaks eðlis.

4.1. Um flutning hergagna gilda sérstakar reglur.

4.2. Um flutning hættulegra efna gilda sérstakar reglur.

4.3. Við flutning lifandi dýra skal höfð hliðsjón af reglum Alþjóðasambands flugfélaga -International Air Transport Association - eins og þær eru á hverjum tíma, IATA Live Animals Manual (IATA LAM). Flugmálastjórn tilkynnir í Handbók flugmanna um gildandi útgáfu IATA LAM og útvegar eintök þeirra eftir þörfum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.