Fara beint í efnið

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur er frádráttur sem nota má til lækkunar á tekjuskatti af launum og lífeyri.

Rétt til persónuafsláttar eiga þau sem eru heimilisföst á Íslandi og eru 16 ára eða eldri. Þeim sem verða 16 ára á árinu reiknast fullur persónuafsláttur fyrir allt árið.

Sama gildir um þau sem hafa rétt til að halda hér á landi skattalegu heimili þrátt fyrir dvöl erlendis vegna náms eða veikinda.

Persónuafsláttur er 59.665 kr. á mánuði á árinu 2023

Persónuafsláttur er 64.926 kr. á mánuði á árinu 2024 (Sjá nánar)

Hvernig nýti ég persónuafslátt?

Áður en laun eru greidd þarf að upplýsa launagreiðanda um eftirfarandi um persónuafslátt og skattþrep:

  • Hvort nýta eigi persónuafslátt

  • Frá og með hvaða mánuði

  • Upplýsingar um uppsafnaðan persónuafslátt (ef við á)

  • Hvaða skattþrep skal nota

Upplýsingar um persónuafslátt þinn finnur þú á þjónustuvef Skattsins.

Ábyrgð á réttum upplýsingum

Það er á ábyrgð hvers og eins að upplýsa sinn launagreiðanda um rétt skattþrep og hvernig nýting persónuafsláttar skuli vera háttað svo réttur skattur sé dreginn af launum við útborgun.

Launagreiðendur hafa ekki aðgang að upplýsingum um nýtingu persónuafsláttar fólks hjá öðrum launagreiðendum.

Komi til ofnýtingar persónuafsláttar eða greiðslu í röngu skattþrepi getur það leitt til þess að of lítið er dregið af við útborgun. Myndast þá skuld við álagningu þegar tekjuárið er gert upp. Á endanum er það einstaklingurinn sem þarf að greiða þá skuld.

Uppsafnaður persónuafsláttur

Persónuafsláttur sem ekki er nýttur í einum mánuði safnast upp og má nýta síðar á árinu. Eigi að nýta uppsafnaðan persónuafslátt eða persónuafslátt maka þarf að upplýsa launagreiðanda um það.

Upplýsingar um nýttan persónuafslátt er að finna á þjónustuvef Skattsins. Þangað má sækja yfirlit til að framvísa hjá launagreiðanda.

Ónýttur persónuafsláttur færist ekki á milli ára.

Útreikningur uppsöfnunar reiknast þannig að fjárhæð persónuafsláttar hvers mánaðar er margfölduð með fjölda mánaða sem liðinn er af árinu. Uppsöfnun er þá sú fjárhæð að frádregnum nýttum persónuafslætti.

Sérstakar reglur gilda um uppsöfnun persónuafsláttar fyrir erlendis búsetta einstaklinga.

Flutningur til eða frá landinu

Þeim sem flytjast til eða frá landinu á tekjuárinu eða starfa tímabundið á Íslandi reiknast persónuafsláttur aðeins fyrir þann tíma sem þau voru hér heimilisföst. Við útreikning á persónuafslætti er miðað við dagafjölda á dvalartímanum. 

Þjónustuaðili

Skatt­urinn