Fara beint í efnið

Lausnir á tímabundnum greiðsluvanda

Ef þú átt í tímabundnum greiðsluerfiðleikum, til dæmis vegna veikinda, slyss eða atvinnuleysis og getur ekki gert greiðslusamning, eru nokkrar lausnir í boði.

Hægt er að:

  • Fresta greiðslum

  • Skuldbreyta láni (bæta vanskilum við höfuðstól)

  • Lengja lánstímann

Skilyrði

  • Greiðsluvandinn er vegna óvæntra tímabundinna erfiðleika, t.d. veikinda, slyss, skertra tekna, atvinnuleysis eða annarra ófyrirséðra atvika.

  • Aðrir lánveitendur þínir samþykki líka að aðstoða.

  • Greiðslubyrði þín (samkvæmt greiðslumati) er hærri en greiðslugeta, eða fyrirséð að svo verði.

  • Þú hefur greiðslugetu fyrir greiðslubyrði viðkomandi lausnar.

Umsókn um lausn á greiðsluvanda

Umsókn

Þú sækir um á Mínar síður Ísland.is. Þú getur getur hakað við þá lausn sem þú telur þig þurfa í umsókninni, en ráðgjafi mun að lokum meta hvaða lausn hentar hverju sinni.

Fylgigögn

  • Staðfesting á tímabundnum vanda, til dæmis læknisvottorð eða staðfesting á atvinnuleysi.

  • Greinargerð um af hverju þú þarft á lausninni að halda og hvernig þú heldur að hún muni hjálpa.

Í kjölfar umsóknarinnar þarftu að fara í greiðslumat.

Ráðgjafi HMS metur hvaða lausn hentar þínum aðstæðum. Ákvörðunin fer fyrir lánanefnd HMS sem þarf að staðfesta hana og þegar niðurstaða er fengin færð þú tilkynningu í tölvupósti um að bréf bíði þín í Mín skjöl á Mínar síður HMS.

Umsókn samþykkt

  1. Þú færð tölvupóst þegar lánaskjöl með skilmálabreytingum eru tilbúin.

  2. Ef það er lán á húsnæðinu á aftari veðrétti (frá annarri lánastofnun) þarf sú lánastofnun að árita samþykki sitt á skilmálabreytinguna.

  3. Þú sækir skjölin á afgreiðslutíma til HMS í Borgartúni 21, skrifar undir og ferð með í þinglýsingu.

  4. Þegar lánaskjölum hefur verið þinglýst skilar þú þeim inn aftur til HMS og breytingin er afgreidd.

Kostnaður við skilmálabreytingu leggst ofan á næsta gjalddaga lánsins.

Kostnaður

  • Skilmálabreyting: 3.250 krónur.

  • Þinglýsingarkostnaður hjá sýslumanni: 2.700 krónur.

Umsókn synjað

Ef umsókn um lausn á greiðsluvanda er synjað færðu tölvupóst og bréfpóst með ástæðum synjunar. Ef einhver gögn vantaði getur þú sótt um endurupptöku og veitt nýjar upplýsingar.

Ef þú ert ósammála niðurstöðunni getur þú kært hana til úrskurðarnefndar velferðarmála.