Fara beint í efnið

Geislun á meðgöngu

Fóstur getur óvart orðið fyrir geislun þegar einstaklingur veit ekki af óléttu eða lætur lækni eða starfsmenn myndgreiningadeilda ekki vita. Einnig getur rannsóknin verið þess eðlis að ekki er hægt að koma í veg fyrir að fóstrið verði fyrir geislun.

Þetta getur valdið kvíða og áhyggjum. Í flestum tilfellum er áhættan af geisluninni hverfandi miðað við aðra áhættuþætti.

Almennt

Röntgengeislun er rafsegulgeislun eins og ljós, útfjólublá geislun og örbylgjur en hefur mun meiri orku og smýgur þar af leiðandi auðveldlega í gegnum flest efni. Við það að fara í gegnum lifandi vef getur geislunin valdið skaða á frumum og kjarnsýrum (DNA) þeirra.

Fóstur er viðkvæmara fyrir skaðlegum áhrifum geislunar en fullorðinn einstaklingur meðal annars vegna þess að frumur fóstursins skipta sér örar og vefir þess eru í örum vexti.

Áhrif á heilsu fósturs

Skemmdir á frumum fósturs ráðast af því hve geislunin er mikil og á hvaða stigi meðgöngunnar geislunin á sér stað. Þannig er áhætta meiri á fyrsta þriðjungi meðgöngu þegar líffæramyndun á sér stað, en minni á öðrum og þriðja þriðjungi. Hættan á greindarskerðingu er fyrst og fremst í 16. til 25. viku meðgöngunnar en þá er miðtaugakerfi fóstursins að þroskast.

Skaðleg áhrif geislunar á fóstur geta verið fósturlát, vansköpun, greindarskerðing eða krabbamein síðar á ævinni.

Samkvæmt leiðbeiningum Alþjóða Geislavarnaráðsins ICRP sem gefnar voru út árið 2000 og byggja á bestu vitneskju um lífræðileg áhrif jónandi geislunar þá valda geislaskammtar undir 100 mGy hvorki marktækri aukningu á fósturgöllum né vansköpun fósturs.

Slíkir geislaskammtar valda heldur ekki marktækri skerðingu greindar. Áhættan á krabbameini síðar á ævinni vegna geislunar í móðurkviði er sögð svipuð áhættunni af geislun fyrstu æviárin.

Röntgenrannsóknir

Fóstur í móðurkviði á ekki að verða fyrir geislun þegar teknar eru röntgenmyndir af efri hluta líkama móður, svo sem við lungnarannsókn, tannröntgenmyndir, háls og efri útlimir.

Ef teknar eru röntgenmyndir af neðri hluta búksins, svo sem við kviðarholsrannsókn, mjó- og spaldhrygg, mjaðmagrind og þvagfæri, verður fóstrið fyrir einhverri geislun en yfirleitt er sú geislun mjög lítil og áhætta á fóstrið því hverfandi.

Fóstrið verður fyrir meiri geislun ef notuð er svokölluð skyggning við röntgenrannsóknir af neðri hluta búksins, til dæmis við rannsóknir af meltingarfærum, ristli og við tölvusneiðmyndarannsóknir af kviðarholslíffærum. Sé talið nauðsynlegt að framkvæma rannsóknina þrátt fyrir meðgöngu á framkvæmdin að vera með þeim hætti að geislun á fóstrið verði ekki meira en brýnasta nauðsyn krefur

Umfangsmiklar mælingar á geislun sjúklinga við ýmsar algengar röntgenrannsóknir hafa verið framkvæmdar bæði erlendis sem hérlendis. Á grundvelli þeirra er hægt að meta hve fóstur í móðurkviði verður fyrir mikill geislun við þessar rannsóknir. Geislun sjúklinga er mjög breytilegt á milli staða og eins á milli sjúklinga. Mælieining fyrir geislaskammt er mGy.

Samantekt

Vegna hugsanlegra skaðlegra áhrifa geislunarinnar er það eitt helsta grundvallaratriði geislavarna að geislun á sjúkling sé ekki meiri en nauðsyn krefur. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða barnshafandi einstaklinga.

Geislaskammtar undir 100 mGy valda hvorki marktækri aukningu á fósturláti né vansköpun fósturs. Slíkir geislaskammtar valda heldur ekki marktækri skerðingu greindar. Áhættan á krabbameini síðar á ævinni vegna geislunar í móðurkviði er sögð svipuð áhættunni af geislun fyrstu æviárin.

Í flestum tilfellum er geislunin svo lítil að áhættan af hennar völdum er hverfandi miðað við aðra áhættuþætti.

Þjónustuaðili

Geislavarnir ríkisins

Geislavarnir ríkisins

Hafðu samband

Sími: 440 8200

Netfang: gr@gr.is

Afgreiðslan er opin

Alla virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Heim­il­is­fang

Rauðarárstígur 10

105 Reykjavík

Kennitala: 540286-1169