Fara beint í efnið

Orlofsréttindi 2021 eða síðar

Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig er 6 mánuðir, heimilt er að framselja allt að 6 vikur til hins foreldris. Heildarréttur er því 12 mánuðir en þetta á við um fædd börn, frumættleidd eða börn tekin í varanlegt fóstur 2021.

  • Mælt er með að hefja umsóknarferilinn tveimur mánuðum fyrir fæðingu.

Orlofsréttindi 2020

Orlofsréttindi foreldris barns sem er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 og síðar eru:

  • 4 mánaða sjálfstæður réttur hvors foreldris

  • 2 mánaða sameiginlegur réttur sem þau geta ráðstafað sín á milli

Upphaf og skipting orlofstímans

Foreldri getur tekið orlofið á fyrstu 24 mánuðunum í lífi barnsins. Eftir það fellur rétturinn niður. Um skiptingu orlofstímans gilda eftirfarandi reglur:

  • Heimilt er að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag

  • Móðir skal vera í orlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðinguna

  • Foreldri á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi eða skipta því á fleiri tímabil eða í minnkuðu starfshlutfalli með samkomulagi við vinnuveitanda. Samþykki vinnuveitandi ekki tillögu starfsmanns um skiptingu fæðingarorlofs skal hann leggja fram nýja skriflega tillögu innan viku og tilgreina ástæður. Náist ekki samkomulag á starfsmaður alltaf rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem starfsmaður ákveður.

  • Hvert tímabil skal að lágmarki vera 2 vikur

Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur gildir:

  • Miðað er við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið. Nauðsynlegt er að barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir staðfesti ráðstöfunina.

  • Þegar sækja þarf barn til annarra landa getur fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar að því gefnu að viðkomandi yfirvöld eða stofnun hafi staðfest að barn fáist ættleitt.

Orlofstími einhleypra foreldra

Einhleypt foreldri fær allan orlofsréttinn þegar:

  • einhleyp móðir eignast barn eftir tæknifrjóvgun

  • einhleypt foreldri hefur ættleitt barn eða tekið í varanlegt fóstur

  • hitt foreldrið andast á meðgöngu

Lenging orlofstíma vegna fjölburafæðingar

Foreldrar eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir:

  • hvert barn umfram eitt sem fæðist á lífi eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu

  • hvert barn umfram eitt sem er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur á sama tíma

Lenging orlofstíma vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar barns

Foreldrar sem eignast alvarlega veik eða fötluð börn geta átt rétt á framlengdu fæðingarorlofi um allt að 7 mánuði.

Alvarlegur sjúkdómur eða fötlun miðast við að:

  • umönnun sé meiri en eðlilegt er við umönnun ungbarna. Lágmarksdvöl á sjúkrahúsi er 7 dagar. Það á einnig við þegar um er að ræða sjúkrahúsdvöl í beinu framhaldi af fæðingu barns. 

Þrálát veikindi vegna hlaupabólu, eyrnabólgu eða annarra álíka veikinda teljast ekki til alvarlegs sjúkdóms.

Gögn sem þurfa að berast:

Í vottorðinu er mikilvægt að læknir leggi áherslu á að rökstyðja þá sérstöku umönnun sem alvarlegi sjúkleikinn eða alvarlega fötlunin krefst og þá í hversu langan tíma. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Réttindi foreldra sem láta börn frá sér til ættleiðingar, uppeldis eða fósturs

Réttindi falla niður frá þeim degi sem barn er látið í fóstur eða til ættleiðingar. Kynforeldrar eiga þó sameiginlegan rétt á tveggja mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu barns.

Stafræn umsókn um fæðingarorlof

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun