Fara beint í efnið

Greiðslur nema 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds fyrir tiltekið tímabil. Greiðslur geta þó að hámarki orðið 600.000 kr. Finna má upplýsingar um hámarks- og lágmarksgreiðslur hvers árs á vef fæðingarorlofssjóðs.

Hægt er að áætla greiðslur með reiknivél Fæðingarorlofssjóðs.

Fyrsta greiðslan á sér stað við upphaf næsta mánaðar eftir að fæðingarorlof hefst. 

Starfsmenn

Greiðslur nema 80% af meðaltali heildarlauna

Tímabilið sem notað er við útreikning er 12 mánaða tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Dæmi:

Fæðingardagur barns er 1. desember 2022. 
Tímabil sem gildir við útreikning fæðingarorlofsgreiðslna er þá 1. júní 2021 – 31. maí 2022.

Sjálfstætt starfandi

Greiðslur nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. 

Tímabilið sem notað er við útreikninga er tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. 

Dæmi:

Fæðingardagur er 1. desember 2022. 
Tímabilið sem notað er við útreikning fæðingarorlofsgreiðslna er 1. janúar 2021 – 31. desember 2021.


Starfsmenn sem vinna einnig sjálfstætt

Greiðslur nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. 

Sé starfsmaður í 50% eða hærra starfshlutfalli skal miða útreikning við viðmiðunartímabil starfsmanns.

Sé starfsmaður í undir 50% starfshlutfalli skal miða útreikning við viðmiðunartímabil sjálfstætt starfandi.


Áhrif annarra bótagreiðslna á fæðingarorlofsgreiðslur

Eftirfarandi reglur gilda um réttindi verðandi foreldra:

  • Foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða foreldraorlofs samkvæmt lögunum.

  • Foreldri sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eða endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögunum.

  • Foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögunum.

  • Foreldri sem nýtur orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka getur ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögunum á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.

  • Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Með umsókn skulu fylgja gögn sem staðfesta réttindin, greiðslutímabil og upphæðir.

Stafræn umsókn um fæðingarorlof

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun