Fara beint í efnið

Færsla réttinda til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna sjúkdóms, afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar

Foreldri sem er ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess vegna sjúkdóms, afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar, er heimilt að framselja ónýttan rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. 

Hið sama gildir um það þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur og er þá miðað við fyrstu 24 mánuðina eftir komu barnsins.

Þetta á við hvort sem foreldrar fara saman með forsjá barnsins eða ekki. 

Þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss, skal Vinnumálastofnun meta hvort skilyrðum um framsal réttindanna sé fullnægt.  

Ástand foreldris sem leiðir til þess að það er ófært um að annast barnið eða veita samþykki um framsal réttinda sinna skal staðfest með læknisvottorði. 

Staðfesting frá Fangelsismálayfirvöldum þarf að liggja fyrir ef foreldrið mun afplána refsivist á tímabilinu.  

Stafræn umsókn um fæðingarorlof

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun