Fara beint í efnið

Endurhæfing - leiðbeiningar fyrir fagfólk

Endurhæfingaráætlun

Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni. Leita skal leiða til að bæta heilsu, efla starfshæfni eða auka atvinnuþátttöku.

Endurhæfingaráætlun þarf að vinna í samstarfi við einstaklinginn.

Til þess þarf að:

  • byggja á heildstæðri nálgun

  • greina vandann sem veldur óvinnufærni

  • ákveða langtíma- og skammtíma markmið

  • greina úrræði sem einstaklingur þarf að sinna

  • leita leiða til að hefja endurhæfingu sem fyrst

  • setja tímaramma fyrir fyrirhugaða endurkomu á vinnumarkað að hluta eða fullu

Óvinnufærni ein og sér og bið eftir endurhæfingarúrræðum veitir ekki rétt til endurhæfingarlífeyris.

Mikilvægt er að aukin starfshæfni sé alltaf höfð að leiðarljósi í endurhæfingu og endurhæfingaráætlun leggi áherslu á endurkomu á vinnumarkað.

Einstaklingur og umsjónaraðili skrifa báðir undir endurhæfingaráætlunina. Í þeim tilvikum sem umsækjandi hefur ekki tök á að undirrita áætlun er heimilt að skila umsókn um endurhæfingarlífeyri í gegnum Mínar síður TR og er þá umsóknin ígildi undirritunar.

Innihald endurhæfingaráætlunar

Endurhæfingaáætlun getur komið fram í læknisvottorði eða á eyðublaði frá TR.

Í endurhæfingaráætlun þurfa að koma fram:

  • upplýsingar um langtíma- og skammtímamarkmið

  • greinargóð lýsing á innihaldi endurhæfingar

  • tímabil endurhæfingar

  • upplýsingar um áætlaða endurkomu á vinnumarkað að hluta eða að fullu

  • fyrri endurhæfing ef við á

Með greinargóðri lýsingu er átt við upplýsingar um:

  • endurhæfingarúrræði og hjá hvaða fagaðilum umsækjandi mun sækja þau á tímabilinu

  • hvernig tekið er á andlegum, líkamlegum og félagslegum þáttum

  • hvernig úrræðum er ætlað að bæta heilsu og auka atvinnuþátttöku

  • hve oft í viku eða mánuði úrræðið er stundað. Það er ekki nóg að skrifa að úrræði verði stunduð „reglulega“ eða stefnt sé að þátttöku.

Ef endurhæfingaráætlun er óskýr getur þurft að kalla eftir frekari upplýsingum frá umsækjanda, umsjónaraðila endurhæfingar eða staðfestingu á úrræðum.

Gert er ráð fyrir stíganda í endurhæfingu.

Vinna og nám sem hluti af endurhæfingu

Nám og hlutastarf geta verið hluti af endurhæfingu en má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að sinna úrræðum sem taka á þeim heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni.

Ef nám eða vinna er hluti af endurhæfingu þarf að fylgja með umsókn:

  • staðfesting á einingafjölda frá skóla

  • staðfesting um starfshlutfall frá vinnuveitanda

Tímabil endurhæfingar

Tímabil í endurhæfingaráætlun ákvarðar oftast greiðslur endurhæfingarlífeyris. Í einhverjum tilvikum er greiðslutímabilið styttra en sótt er um, til dæmis ef:

  • endurhæfingaráætlun er óljós

  • ósamræmi er í upplýsingum um úrræði og tímabil

Almennt er sótt um 6 mánuði í einu og framlengt eftir þörfum.

Ný endurhæfingaráætlun þarf að fylgja hverri framlengingu.

Tryggingastofnun er heimilt að samþykkja endurhæfingaráætlun og lífeyrisgreiðslur í hámark eitt ár í einu.

Hámarkslengd endurhæfingarlífeyris eru 5 ár, eða 60 mánuðir.

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun