Fara beint í efnið

Eftirlit með lofthæfi loftfara - Úrtaksskoðanir (ACAM)

Á þessari síðu

Flugmálayfirvöld landa innan ESB/EES hafa eftirlit með áframhaldandi lofthæfi loftfara samkvæmt sérstakri áætlun og framkvæma úrtaks lofthæfiskoðanir á loftförum sem eru á loftfaraskrám þeirra. Samgöngustofa framkvæmir úttektir á loftförum og er í samskiptum við eiganda eða leigutaka vegna slíkra úttekta vegna loftfara sem eru á skrá á Íslandi.

ACAM Úrtaksskoðanir

Skammstöfunin ACAM stendur fyrir Aircraft Continuing Airworthiness Monitoring eða eftirfylgni með áframhaldandi lofthæfi loftfara. Enska skammstöfunin (ACAM) er notuð um þessar skoðanir, sem eru venjubundið eftirlit með starfsrækslu og lofthæfi loftfara og eru gerðar með úrtakskönnunum á loftförum.

  • Eigandi loftfars ber ábyrgð í lofthæfi þess.

  • Ef loftfarið er leigt, þá flyst ábyrgð eigandans til leigutakans enda er leigutakinn tilgreindur á skásetningarskjalinu eða það er tekið fram í leigusamningnum.

  • Eftirlitsmenn Samgöngustofu framfylgja eftirlitinu og eru þjálfaðir til að annast skoðanir á loftförum og á viðhaldskrá. Þeir hafa skírteini samkvæmt Part-66 og áralanga reynslu í viðhalds- og viðhaldsstýringu loftfara.

  • Eigandi eða umráðamaður er skyldugur til að veita eftirlitsmönnum Samgöngustofu aðgang að loftfarinu og gögnum þess.

  • Þessar skoðanir eru aðskildar frá lofthæfisstaðfestingarskoðunum sem eru framkvæmdar af viðhaldsstjórnunarfyrirtæki (CAMO) eða flugvirkja með viðeigandi heimild.

Það er í þágu flugs að þessar skoðanir séu gerðar og aðgerðir til úrbóta séu á grundvelli samvinnu og miðlunar upplýsinga um það sem betur má fara.

Tilgangur

Samgöngustofa tryggir eftirfylgni á staðfestingu á lofthæfi, með því að framfylgja áætlun um úrtaksskoðanir, til að sannreyna að viðhaldið, viðhaldsstýring og að eftirlit hafi raunverulega farið fram í samræmi við reglur.

Undirbúningur

Ef tilkynnt er fyrirfram um skoðun þurfa loftfar og viðhaldskrá að vera til staðar á umsömdum tíma. Umráðandi eða tengiliður sem er kunnugur loftfarinu og viðhaldskrám þess skal vera viðstaddur ef mögulegt er, svo að eftirlitsmaður geti með auðveldum hætti fengið skjót svör við spurningum. Æskilegt er að loftfar sé hreint til skoðunar.

Skoðunin getur falið í sér meðal annars að:

  • opna og loka hreyfilhlífum eða öðrum hlífum

  • ræsa kerfi loftfarsins

  • fleiri atriði

Nauðsynlegt getur verið að á staðnum sé viðhaldsvottur (flugvirkja) með réttindi á viðkomandi loftfar til þess, ef við á, að gefa út afhendingarvottorð (viðhaldsvottorð). Það er lagt í hendur eiganda/umráðanda að útvega flugvirkja sem er fær um að lagfæra frávik á loftfarinu ef þau greinast.

Framkvæmd

Skoðanirnar geta farið fram meðan á viðdvöl eða viðhaldi loftfars stendur eða við starfrækslu á flugvöllum. Eftirlitsmaður ræður umfangi ACAM skoðunar hverju sinni.

  • Venjulega er umráðanda tilkynnt fyrirfram um fyrirhugaða skoðun en skoðun getur farið fram á flugvöllum, án fyrirvara.

  • Ef loftfarið er í viðhaldi eða nýkomið úr viðhaldi, er viðkomandi flugvirkja tilkynnt um skoðunina eftir aðstæðum.

  • Skoðuð er viðhaldsskrá loftfarsins, þar sem tekin eru úrtök.

  • Skoðun á sjálfu loftfarinu, á hlaði eða í flugskýli á meðan loftfarið er í rekstri eða á meðan viðhaldi loftfars stendur.

  • Niðurstöður skoðana eru skráðar og metnar.

  • Ef greind er þróun sem gæti haft áhrif á öryggi getur það haft áhrif á fjölda loftfara og áhersluatriði sem skoðuð eru.

  • Ef frávik greinast við skoðun verður umráðandi loftfarsins að gera úrbætur innan tilskilins tíma og aðgerðir til úrbóta verða að vera samþykktar af eftirlitsmanni. Yfirleitt er um einföld atriði að ræða.

Þessar skoðanir eru ekki fullnægjandi lofthæfiskoðanir (AR), þar sem skoðunin beinist aðeins að ýmsum fyrirframgreindum lykiláhættuþáttum varðandi lofthæfi (Key Risk airworthiness Elements (KRE)).

Tímalengd

Misjafnt er hvað skoðun tekur langan tíma. Það fer eftir stærð loftfars og aðgengi að viðhaldsskráakerfi. Reikna má með að fyrir

  • minni loftför geti skoðun tekið um og yfir þrjá klukkutíma

  • stór loftför taki skoðunin einn til tvo daga

Venjulega fer mesti tíminn í að skoða viðhaldsskrá, en loftfarið þarf aðeins að vera til staðar þegar það sjálft er skoðað.

Frávik

Á meðan á skoðuninni stendur er útbúin bráðabirgðaskýrsla sem inniheldur upplýsingar um öll frávik sem greinast. Frávik eru flokkuð af eftirlitsmanninum í samræmi við áhættu þeirra og skráð sem stig (level) 1 eða 2.

Eftirlitsmaðurinn svo skrifar formlega úttektarskýrslu sem send er umráðanda og er umráðandi loftfars ábyrgur fyrir því að aðgerðir til úrbóta séu framkvæmdar innan tilgreindra tímamarka.

Kostnaður

Samgöngustofa innheimtir ekki gjald fyrir ACAM skoðun.

Umráðandi er skyldugur samkvæmt lögum og reglugerðum til að veita aðgang að loftfari og viðhaldsskrám þess og er hugsanlegur kostnaður umráðanda ekki endurgreiddur.

Lög og reglur
  • Reglugerð nr. 926/2015

  • Reglugerð (EB) nr. 216/2008

  • viðauka II (Annex II) við reglugerð (EB) nr. 216/2008

  • Lög um loftferðir nr. 60/1998.

  • Part M section B AMC M.B.102(c)

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa