Fara beint í efnið

Dvalarleyfi fyrir foreldri barna yngri en 18 ára

Dvalarleyfi fyrir foreldri barna yngri en 18 ára

Skilyrði

Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa 

  • að geta sannað á sér deili með gildu vegabréfi

  • að gefa réttar upplýsingar um tilgang dvalarinnar á Íslandi

  • að uppfylla eftirfarandi grunnskilyrði


Skilyrði sem þarf að uppfylla þegar dvalarleyfið er nauðsynlegt til að viðhalda umgengni foreldris við barn

Útgáfa dvalarleyfis til foreldrisins þarf að vera nauðsynleg til að viðhalda umgengni þess við barnið.

  • Barnið er íslenskur ríkisborgari eða erlendur ríkisborgari með dvalarleyfi hér á landi og búsett hér á landi.

  • Þú ferð með forsjá barnsins, annað hvort ein/einn eða sameiginlega með hinu foreldrinu.

  • Þú ert í lögmætri dvöl hér á landi þegar umsókn er lögð fram.

    • Ef þú ert í ólögmætri dvöl verður dvalarleyfinu synjað.

  • Þú hefur haft dvalarleyfi hér á landi sem ekki er hægt að endurnýja á sama grundvelli.

    • Þetta getur átt við ef þú hefur verið með dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar og ert skilin/skilinn eða sambúð hefur verið slitið.

  • Þú hefur umgengnisrétt við barnið samkvæmt staðfestum samningi og fyrir liggur að umgengni á sér stað samkvæmt samningnum.

    • Ef staðfestur samningur um umgengni liggur ekki fyrir verður dvalarleyfi ekki veitt. Það sama á við ef ljóst er að umgengni fer ekki fram samkvæmt samningi. Í einhverjum tilvikum getur reynst erfitt að afla staðfestingar á að umgengi fari fram samkvæmt samningi, til dæmis ef samkomulag við hitt foreldrið er ekki gott. Í þeim tilvikum er umsækjanda bent á að hafa samband við Útlendingastofnun til að fá frekari leiðbeiningar um þetta skilyrði.

    • Ef umgengni við barn er sannarlega mjög lítil getur verið að dvalarleyfi sé ekki nauðsynlegt til að viðhalda umgengni, til dæmis ef umgengni fer einungis fram nokkrum sinnum á ári. Væri þá hægt að sinna umgengni með heimsóknum á grundvelli vegabréfsáritunar eða áritunarfrelsis.

Skilyrði sem þarf að uppfylla þegar dvalarleyfið er nauðsynlegt til að íslenskt barn geti búið áfram á Íslandi

Dvalarleyfið á fyrst og fremst við í þeim tilvikum þegar erlent foreldri íslenks barns er ekki búsett hér á landi og hefur jafnvel aldrei verið.

  • Barnið er íslenskur ríkisborgari og búsett hér á landi.

    • Dvalarleyfinu er ætlað að tryggja að íslenskt barn þurfi ekki að flytja erlendis þrátt fyrir að íslenskt foreldri þess geti ekki sinnt því, annað hvort tímabundið eða varanlega. Dæmi um slíkt getur verið þegar íslenska foreldrið er alvarlega veikt eða látið.

    • Sé barnið erlendur ríkisborgari verður umsókn synjað.

  • Þú ferð með forsjá barnsins, annað hvort ein/einn eða sameiginlega með hinu foreldrinu.

    • Dvalarleyfið á ekki við þegar dvöl þín er ekki nauðsynleg hérlendis til að barn geti áfram verið búsett á Íslandi. Ef barn er í forsjá íslenska foreldrisins og býr hjá því við eðlilegar aðstæður getur þetta dvalarleyfi ekki komið til skoðunar.

  • Þú ætlar að búa með barninu hér á landi.

    • Það þýðir að þú og barnið þurfið að hafa sama lögheimili eða aðsetur og sannarlega búa saman.

  • Þú ert ekki í hjúskap eða sambúð með hinu foreldri barnsins.

    • Ef svo væri ætti að sækja um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar.

Dvalarleyfi fyrir foreldri barna yngri en 18 ára

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun