Fara beint í efnið

DRG - Framleiðslutengd fjármögnun heilbrigðisstofnana

Árið 2021 ákvað heilbrigðisráðuneytið að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera samninga við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri um breytta fjármögnun við rekstur sjúkrahúsanna. Samningar voru undirritaðir haustið 2021 og taka til hluta af klínískri starfsemi sjúkrahúsanna. Greitt hefur verið samkvæmt samningum síðan í upphafi árs 2023.

Með þessu er verið að innleiða breytta fjármögnun sem byggist meðal annars á framleiðslumælingum klínískrar þjónustu með svokölluðu DRG flokkunarkerfi. DRG stendur fyrir Diagnosis Related Groups.

Innleiðingin er í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu til 2030 þar sem skilvirk þjónustukaup eru eitt af sjö lykilviðfangsefnum. Nánar er fjallað um undirbúning innleiðingar og framtíðaráform í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins frá árinu 2020.

Embætti landlæknis fékk það hlutverk á árinu 2021 að annast flokkun framleiddrar þjónustu sjúkrahúsa í DRG flokka og notar til þess gögn úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana. Skráin er ein af heilbrigðisskrám landlæknis og er hún haldin samkvæmt 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Gögn í vistunarskrá berast daglega frá heilbrigðisstofnunum og ná aftur til ársins 1999.

Embætti landlæknis sendir Sjúkratryggingum Íslands niðurstöðu DRG flokkunar einu sinni í mánuði. Sjúkratryggingar sjá um að greiða stofnunum í samræmi við niðurstöður flokkunar.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis