Fara beint í efnið

Daggæsla í heimahúsum

Þegar fæðingarorlofi lýkur og foreldrar halda út á vinnumarkaðinn eða í nám þurfa þeir að finna barni sínu viðunandi gæslu.

Í flestum þéttbýliskjörnum landsins bjóða dagforeldrar/dagmæður upp á þjónustu og sveitarfélög og einstaklingar í samstarfi við sveitarfélög reka leikskóla.

Með daggæslu er átt við gæslu barna milli kl. 7 og 19 á virkum dögum í íbúðarhúsnæði dagforeldra.

Mismunandi reglur gilda hjá sveitarfélögum um niðurgreiðslu daggæslu í heimahúsum. Flest sveitarfélög niðurgreiða gæslu dvelji barn hjá dagforeldri minnst fjórar upp í níu klukkustundir daglega. Umframtíma þarf foreldri að greiða að fullu. Sótt er um niðurgreiðslur á vefjum sveitarfélaga.

Í nokkrum sveitarfélögum geta foreldrar sótt um greiðslur að loknu fæðingarorlofi, hvort sem barn er hjá dagmóður eða foreldri annast það heima. Yfirleitt er miðað við að greiðslurnar falli niður þegar barnið byrjar á leikskóla en það getur verið misjafnt eftir sveitarfélögum.

Foreldrar eiga að kynna sér aðstæður hjá dagforeldri, m.a. fjölda barna í gæslu, brunavarnir og útivistar- og leiksvæði. Foreldrar eiga einnig upplýsa dagforeldri um daglegar venjur barnsins, heilsu og breytingar á högum.

Ef foreldri er í mun að koma barni sínu að hjá ákveðnu dagforeldri er hægt að sækja um með nokkrum fyrirvara. Allt upp í árs fyrirvari er ekki óalgengur.

Til minnis

  • Listar og upplýsingar um dagforeldra eru á vefjum sveitarfélaga.

  • Kynna sér aðstæður og aðbúnað hjá dagforeldri. Gjaldskrá dagforeldra er frjáls.

  • Kynna sér reglur um niðurgreiðslur á daggjöldum á vefjum sveitarfélaga.

  • Upplýsa dagforeldri um venjur barnsins, heilsu og breytingar á högum.

  • Sækja um leikskóladvöl í því sveitarfélagi þar sem barn er skráð með lögheimili.

  • Kynna sér reglur um leikskóla sem eru misjafnar milli sveitarfélaga, meðal annars um:
    – hvenær má sækja um leikskóladvöl fyrir barn og hvenær búast má við að það fái úthlutað plássi,
    – gjaldskrá leikskóla, niðurgreiðslur og aðra afslætti,
    – hvernig tilkynna skal breytingar á högum barns.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir