Fara beint í efnið

Ríkisborgarar utan EES/EFTA

Heimildir til brottvísunar eru ólíkar eftir því hvort útlendingurinn sem um ræðir sé með dvalarleyfi hér á landi eða ekki.

Án dvalarleyfis

Útlendingi án dvalarleyfis er meðal annars heimilt að brottvísa í eftirfarandi tilvikum:

  • Dveljist hann ólöglega í landinu.

    • Í slíkum tilvikum er viðkomandi að jafnaði gefinn kostur á að yfirgefa Schengen-svæðið af sjálfsdáðum áður en brottvísunarmál er hafið.

  • Hafi hann brotið alvarlega eða margsinnis gegn ákvæðum útlendingalaga.

  • Hafi hann af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið rangar eða villandi upplýsingar í máli samkvæmt útlendingalögum.

  • Hafi hann komið sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið.

  • Hafi hann á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði.

  • Hafi hann verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði, eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum.

  • Hafi stjórnvald í Schengen-ríki tekið endanlega ákvörðun um frávísun eða brottvísun viðkomandi fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu og dvöl útlendinga.

  • Ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

  • Hafi hann ekki yfirgefið landið af sjálfsdáðum innan frests sem Útlendingastofnun hefur veitt.

  • Hafi honum ekki verið veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum vegna þess að

    • hætta er á að hann muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar,

    • umsókn hans um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hefur verið hafnað þar sem hún þykir bersýnilega tilhæfulaus eða vegna þess að veittar voru rangar eða villandi upplýsingar,

    • hann er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.

Með dvalarleyfi

Útlendingi með dvalarleyfi er meðal annars heimilt að brottvísa í eftirfarandi tilvikum:

  • Hafi hann brotið alvarlega eða margsinnis gegn ákvæðum útlendingalaga.

  • Hafi hann af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt útlendingalögum.

  • Hafi hann á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en eitt ár.

  • Hafi hann verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en eitt ár eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum.

  • Ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

Hafi brotið verið framið áður en útlendingi var veitt dvalarleyfi gilda ákvæði útlendingalaga um brottvísun útlendings án dvalarleyfis.

Með ótímabundið dvalarleyfi

Útlendingi með ótímabundið dvalarleyfi er meðal annars heimilt að brottvísa í eftirfarandi tilvikum:

  • Hafi hann afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og átti sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi.

  • Ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

Hafi brotið verið framið áður en útlendingi var veitt ótímabundið dvalarleyfi gilda ákvæði útlendingalaga um brottvísun útlendings með hefðbundið dvalarleyfi.

EES/EFTA-borgarar og aðstandendur þeirra

Heimilt er að brottvísa EES/EFTA-borgara og aðstandanda hans í eftirfarandi tilvikum:

  • Ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis.

    • Í þeim tilvikum þarf framferði viðkomandi þó að fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins.

    • Brottvísun skal ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnarforsendum. Ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar er brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægja ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

  • Ef það er nauðsynlegt með skírskotun til almannaheilbrigðis.

    • Í þeim tilvikum þarf brottvísun að vera nauðsynleg til verndar almannaheilbrigði og stjórnvöld þurfa að hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara.

  • Ef viðkomandi uppfyllir ekki skilyrði um dvöl samkvæmt 83. til 86. greinar útlendingalaga.

    • Umrædd skilyrði varða tilgang dvalar hér á landi og fjalla meðal annars um atvinnu eða atvinnuleit, nám, framfærslu og að útlendingur verði ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar.

    • Áður en til brottvísunar getur komið í slíkum tilvikum þarf réttur viðkomandi til dvalar hér á landi að hafa verið felldur niður samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar. Í ákvörðun um niðurfellingu á rétti til dvalar er viðkomandi ávallt gefinn kostur á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum inna tiltekins frests.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun