Fara beint í efnið

Atvik sjómenn

Atvik sjómenn

Saga kerfisins

ATVIK-sjómenn var þróað árið 2017 af tryggingafélaginu VÍS í samvinnu við Slysavarnaskóla sjómanna, Rannsóknarnefnd sjóslysa og nokkra af stærri útgerðum í viðskiptum hjá VÍS.

Tilgangur atvikaskráningarforritsins var að aðstoða útgerðir við að fá betri yfirsýn á atvikum um borð í fiskiskipum sínum sem sneru að öryggi í vinnuumhverfi og vinnuslysum sjómanna.

Markmiðið með kerfinu var að efla öryggi í vinnuumhverfi sjómanna og fækka slysum um borð í fiskiskipum hjá útgerðum í viðskiptum hjá VÍS.

Árið 2020 nálgaðist Samgöngustofa VÍS um að ATVIK-sjómenn yrði aðgengilegt öllum útgerðum í landinu þar sem það hafði sýnt fram á notagildi sitt hjá útgerðum í tryggingum hjá VÍS.

Á sjómannadaginn árið 2021 ákvað VÍS að gefa Rannsóknarnefnd samgönguslysa ATVIK-sjómenn til eignar og reksturs. Þetta var gjöf frá VÍS til íslenskra sjómanna, samfélaginu til heilla. Afhendingin fór fram um borð í skólaskipinu Sæbjörgu hjá Slysavarnaskóla sjómanna.

Í kjölfarið fór fram mikil undirbúningsvinna að setja ATVIK-sjómenn í nýtt rekstrarumhverfi ásamt þróun á gagnvirku mælaborði sem veitir útgerðum yfirsýn yfir öll skráð atvik og slys, sem eiga að nýtast strax til að greina áherslur í forvarnastarfi sjómanna. Sömuleiðis að hægt yrði að tilkynna slys á sjómönnum rafrænt úr kerfinu til Rannsóknarnefnd Samgönguslysa.

Nýtt ATVIK-sjómenn fór í loftið í október 2022 sem er aðgengilegt öllum útgerðum til notkunar og þeim að kostnaðarlausu. Sömuleiðis geta sjómenn og minni útgerðir tilkynnt slys á sjómönnum rafrænt gegnum forritið á heimasíðu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Til er orðinn einn sameiginlegur gagnagrunnur um atvik og slys til sjós sem mun mynda einstaka tölfræði sem auðveldar alla greiningarvinnu til að stuðla að gagnadrifnu forvarnastarfi í öryggimálum sjómanna til framtíðar.



Atvik sjómenn