Réttur til sorgarleyfis myndast þegar foreldri hefur verið í samfelldu starfi í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Foreldrar í minna en 25% starfshlutfalli geta átt tilkall til sorgarstyrks en ekki sorgarleyfis.
Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði frá þeim degi sem barn andast. Sorgarleyfi er einnig veitt vegna andvana fæðingar eftir 22 vikna meðgöngu í allt að þrjá mánuði og fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu í allt að tvo mánuði. Réttur vegna sorgarleyfis fellur niður 24 mánuðum eftir barnsmissi, andvana fæðingu eða fósturlát.
Foreldri sem nýtir sorgarleyfi þarf að tilkynna það til vinnuveitenda eins fljótt og kostur er. Starfsmaður á rétt á að taka sorgarleyfi í einu lagi. Með samkomulagi við vinnuveitanda er þó heimilt að skipta því niður á fleiri tímabil eða taka það samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þó má aldrei nýta rétt til sorgarleyfis skemur en tvær vikur í senn.
Foreldri getur með samkomulagi við vinnuveitanda hagað sorgarleyfi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil eða það verði nýtt samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
Sorgarleyfi reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem veikindarétti sem og rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkunum, uppsagnarfresti og atvinnuleysisbótum.
Launategundin Sorgarleyfi (123) er notuð í launakerfinu Orra sem merking á samskonar hátt og launategundin fæðingarorlof og heldur hún meðal annars utan um söfnun réttinda eins og orlofs og orlofs- og persónuuppbótar.
Persónu- og orlofsuppbætur eru greiddar í júní og desember. Því þarf stofnun að huga að greiðslu þeirra á tilsettum tíma þó svo aðrar launagreiðslur falli niður vegna sorgarleyfis.
Ávinnsla og greiðslur eru í sama hlutfalli og sorgarleyfi. Dæmi: Sé sex mánaða rétti til sorgarleyfis frá fullu starfi dreift á 12 mánuði ber að haga útreikningum eins og um 50% starf væri að ræða.
Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í sorgarleyfi og skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur til starfs síns að því loknu. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
Samkvæmt 30. gr. laga um sorgarleyfi er óheimilt er að segja foreldri sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis upp störfum á grundvelli þess að það hefur tilkynnt um nýtingu á rétti til sorgarleyfis eða er í sorgarleyfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.
Sorgarleyfi lengist ekki þó að starfsfólk veikist eða slasist á meðan töku þess stendur.
Sorgarleyfi hefur ekki áhrif á lengd tímabundinna samninga. Þeir framlengjast því ekki vegna töku sorgarleyfis.
Launagreiðslur frá vinnuveitenda falla niður í sorgarleyfi og starfsfólk fær greitt frá Vinnumálastofnun. Aðeins er greidd út persónu- og orlofsuppbót frá vinnuveitenda. Því á ekki að greiða yfirvinnu í sorgarleyfi.
Foreldri sem nýtur orlofslauna getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi. Allar launagreiðslur falla niður í sorgarleyfi og starfsfólk fær greitt frá Vinnumálastofnun. Því getur starfsfólk ekki tekið launað sumarorlof né annað launað leyfi á meðan það er í sorgarleyfi.
Foreldri sem nýtur greiðslna vegna starfsloka getur ekki nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi fyrir sama tímabil og þær greiðslur ná yfir.