Mannauðstorg ríkisins: Vinnutími og viðvera
Fæðingarorlof
Fæðingarorlof er leyfi frá launuðum störfum vegna fæðingar, frumættleiðingar barns yngra en átta ára og töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Hvort foreldri á rétt á 6 mánaða fæðingarorlofi og eru 6 vikur framseljanlegar (börn fædd 2021 og síðar). Réttur til fæðingarorlofs fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.
Í fæðingarorlofi á starfsfólk rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Tilkynna þarf eins fljótt og kostur er um töku fæðingarorlofs og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag þess. Sé óskað eftir breytingum á áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs ber að tilkynna það með þriggja vikna fyrirvara. Á vef Fæðingarorlofssjóðs er að finna allar upplýsingar um breytingu á töku og fyrirkomulagi fæðingarorlofs svo sem við fæðingu fyrir tímann, ættleiðingu og fósturlát.
Stofnun þarf að tilkynna Fjársýslunni um töku fæðingarorlofs á sérstöku eyðublaði útfyllt og undirritað af starfsmanni og viðkomandi yfirmanni.
Starfsfólk á rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi, þó skal móðir vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Þá er heimilt með samkomulagi beggja aðila að lengja orlofið með breyttu starfshlutfalli eða skipta því niður á fleiri tímabil. Sjá nánar 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum svo sem til orlofstöku, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.
Kjarasamningar við ríkið tryggja starfsfólki í fæðingarorlofi eftirfarandi réttindi:
greiðslu/ávinnslu sumarorlofs
greiðslu persónu- og orlofsuppbótar
réttindaávinnslu sjóðfélaga í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og sambærilegra deilda annarra lífeyrissjóða
fyrirframgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði til þeirra er fá fyrirframgreidd laun
Sjá nánar í ákvæðum einstakra kjarasamninga.
Mánaðarleg greiðsla til foreldris er 80% af meðaltali heildarlauna þeirra mánaða sem koma til útreiknings á viðmiðunartímabili. Til launa teljast hvers konar laun, þóknanir og reiknað endurgjald samkvæmt lögum um tryggingagjald auk þeirra tilvika sem talin eru upp í stafliðum a-e undir liðnum hvað annað telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði og greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.
Nánari upplýsingar er að finna á vef Fæðingarorlofssjóðs.
Persónu- og orlofsuppbætur eru greiddar í júní og desember. Því þarf stofnun að huga að greiðslu þeirra á tilsettum tíma þó svo aðrar launagreiðslur falli niður vegna fæðingarorlofs.
Ávinnsla og greiðslur eru í sama hlutfalli og fæðingarorlof. Dæmi: Sé sex mánaða rétti til fæðingarorlofs frá fullu starfi dreift á 12 mánuði ber að haga útreikningum eins og um 50% starf væri að ræða.
Ráðningarsamband helst óbreytt í fæðingarorlofi og skal starfsmaður eiga rétt á að snúa aftur að starfi sínu að því loknu. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Ekki er heimilt að segja starfsfólki í fæðingar- og foreldraorlofi upp störfum nema sérstakar ástæður liggi fyrir og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Það sama á við um þau sem tilkynnt hafa um töku fæðingar- og foreldraorlofs sem og um barnshafandi konur og konur sem nýlega hafa alið barn. Sjá nánar í 50. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Fæðingarorlof lengist ekki þó að starfsfólk veikist eða slasist á meðan á töku þess stendur. Þó er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í slíkum tilvikum þarf að liggja fyrir læknisvottorð og starfsmaður þarf að bera ósk um lengingu undir tryggingayfirlækni.
Ef foreldri er ófært að annast barn sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu barns (áður en barn verður tveggja ára) er því heimilt að framselja þann rétt til fæðingarorlofs sem það hefur ekki nýtt til hins foreldrisins. Læknisvottorð skal staðfest af Fæðingarorlofssjóði. Í slíkum tilfellum hættir viðkomandi foreldri töku fæðingarorlofs og getur því komið til starfa og fer þá væntanlega í veikindaleyfi.
Starfsfólk telst vera á vinnumarkaði þann tíma sem það er í fæðingarorlofi og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Litið er á greiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóði sem launagreiðslur. Þær eru því lagðar til grundvallar við útreikning á greiðslum í næsta fæðingarorlofi ef þær lenda inni á viðmiðunartímanum.
Fæðingarorlof hefur ekki áhrif á lengd tímabundinna samninga, þ.e. þeir framlengjast ekki vegna töku fæðingarorlofs.
Launagreiðslur frá vinnuveitenda falla niður í fæðingarorlofi og starfsfólk fær greitt úr Fæðingarorlofssjóði. Aðeins er greidd út persónu- og orlofsuppbót frá vinnuveitenda. Því á ekki að greiða yfirvinnu í fæðingarorlofi.
Allar launagreiðslur falla niður í fæðingarorlofi og starfsfólk fær greitt úr Fæðingarorlofssjóði. Því getur starfsfólk ekki tekið launað sumarorlof né annað launað leyfi á meðan það er í fæðingarorlofi.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.