Viðbótar-húsnæðisstuðningur fyrir íbúa Grindavíkur
Markmið viðbótarhúsnæðisstuðnings er að styðja tímabundið sérstaklega við Grindvíkinga, sem búa í leiguhúsnæði og eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, til að lækka húsnæðiskostnað á meðan leitað er varanlegri lausna á húsnæðisvanda þeirra.
Úrræðið er tímabundið til næstu áramóta. Hægt er að sækja um stuðninginn vegna leigu húsnæðis á tímabilinu 1. apríl 2025 til 30. nóvember 2025.
Í úrræðinu felst m.a. að þjónustuteymi Grindavíkinga veiti viðkomandi einstaklingamiðaða félagslega ráðgjöf með það að markmiði að greina húsnæðisvanda viðkomandi og leita varanlegri lausna þar á. Þjónustuteymið mun því m.a. aðstoða viðkomandi við leit að hagkvæmara húsnæði. Einnig mun teymið veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál og viðeigandi stuðning að öðru leyti. Þjónustuteymið hefur milligöngu um að tengja viðkomandi inn í félagsleg úrræði í sínu búsetusveitarfélagi á tímabili viðbótarhúsnæðisstuðningsins.
Veitt verður heildstæð félagsleg ráðgjöf, m.a. á eftirfarandi sviðum:
fjármálaráðgjöf,
aðstoð við leit að viðeigandi húsnæði eða öðrum varanlegri lausnum á húsnæðisvanda viðkomandi,
atvinnu- og virkniráðgjöf,
sálfélagslegur stuðningur við úrvinnslu áfalla.
Viðbótarhúsnæðisstuðningur er háður því skilyrði að viðkomandi sæki reglulega fundi vegna félagslegrar ráðgjafar hjá þjónustuteyminu og vinni eftir sinni einstaklingsbundnu áætlun á tímabilinu.
Viðbótarhúsnæðisstuðningurinn fellur niður þegar varanlegri lausn hefur fundist á húsnæðisvanda viðkomandi.
Til að eiga rétt á viðbótarhúsnæðisstuðningi þurfa árstekjur heimilisins að vera innan eftirfarandi tekjumarka:
Fjöldi heimilismanna, óháð aldri | Hámark samanlagðra árstekna heimilismanna, 18 ára og eldri |
1 | 11.476.421 kr. |
2 | 15.263.648 kr. |
3 | 17.788.461 kr. |
4 | 19.280.391 kr. |
5 | 20.887.094 kr. |
6 eða fleiri í heimili | 22.493.788 kr. |
Til að eiga rétt á viðbótarhúsnæðisstuðningi mega samanlagðar heildareignir heimilisins almennt ekki vera hærri en 20 millj.kr. Í undantekningartilvikum er hægt að veita viðbótarhúsnæðisstuðning þótt eignir séu meiri, þegar um mjög tekjulág heimili er að ræða.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá þjónustuteymi Grindvíkinga.
Borgartúni 33
Sími: 545-0200
Þjónustuaðili
Fyrir Grindavík