Fara beint í efnið

Vinnuvélaréttindi

Þú þarft að hafa vinnuvélaréttindi til að stjórna eftirfarandi vinnuvélum á Íslandi:

A - Staðbundnir kranar og byggingarkranar
B - Farandkranar stærri en 18 tonnmetrar
C - Brúkranar
D - Kranar 18 tonnmetrar eða minni
E - Gröfur stærri en 4 tonn
F - Hjólaskóflur
G - Jarðýtur
H - Vegheflar
I - Dráttarvélar og minni jarðvinnuvélar
J - Lyftarar með 10 tonna lyftigetu eða minna
K - Lyftarar með meira en 10 tonna lyftigetu
L - Valtarar
M - Malbikunarvélar
P - Hleðslukranar með 18 tonnmetra lyftigetu eða minna

Ef þú ert með útgefin vinnuvélaréttindi frá öðru aðildarríki EES getur þú fengið réttindi þín viðurkennd hjá Vinnueftirlitinu.

Þetta er í samræmi við lög um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Skilyrði

Til að fá vinnuvélaréttindi þarftu að:

  • hafa náð 17 ára aldri,

  • hafa gilt ökuskírteini á bifreið,

  • hafa lokið tilskyldu námi og þjálfun,

  • standast verklegt próf á vegum Vinnueftirlitsins.

Nám

Bóklegt nám

Minni vinnuvélar: flokkar J, I, D, L, M og P

Fyrir vinnuvélar í þessum flokkum er hægt að taka svokallað frumnámskeið hjá Vinnueftirlitinu. Frumnámskeiðið er netnám svo hægt er að sinna því hvar og hvenær sem nemanda hentar. Námskeiðinu lýkur með bóklegu prófi á starfsstöðvum Vinnueftirlitsins eða hjá samstarfsaðilum.

Nánar um frumnámskeið

Byggingakrananámskeið: flokkur A

Vinnueftirlitið heldur námskeið til réttinda á byggingakrana. Námskeiðinu líkur með bóklegu prófi á starfsstöðvum Vinnueftirlitsins eða hjá samstarfsaðilum.

Nánar um byggingakrananámskeið

Brúkrananámskeið: flokkur C

Ökuskólar og vinnustaðir sem hlotið hafa viðurkenningu Vinnueftirlitsins halda brúkrananámskeið.

Allar vinnuvélar: allir flokkar

Ökuskólar og aðrir sem hlotið hafa viðurkenningu Vinnueftirlitsins halda svokölluð grunnnámskeið sem veita réttindi í öllum vinnuvélaflokkum. Þeim lýkur með bóklegu prófi hjá viðkomandi ökuskóla sem veitir rétt til að hefja verklega þjálfun undir umsjón kennara.

Bókleg próf

Námskeiðum lýkur með bóklegu prófi. Sýna þarf gild persónuskilríki með mynd fyrir próftöku.

Fólk með námsörðugleika getur fengið aðstoð við lestur í prófinu.

Verkleg þjálfun

Verkleg þjálfun skal fara fram í þannig umhverfi að ekki hljótist slysahætta af þjálfuninni. Þjálfunin getur farið fram á vinnustað með leiðbeinanda með kennsluréttindi. Vinnuveitendur aðstoða gjarnan starfsfólk sitt við að finna leiðbeinendur.

Verklegt próf

Þú þarf að skrá þig í verklegt próf. Þér er úthlutað prófdómara sem hefur samband innan þriggja virkra daga til að ákveða tímasetningu prófsins. Sýna þarf gild persónuskilríki með mynd fyrir próftöku. Í skráningunni þarftu að taka fram:

Hver greiðir fyrir prófið og skírteinið

Einstaklingsskráning er valin ef þú ætlar að greiða fyrir prófið og skírteinið. Einstaklingar greiða í skráningarferlinu.
Fyrirtækjaskráning er valin ef fyrirtæki greiðir fyrir prófið og skírteinið. Fyrirtæki fá sendan reikning.

Hvar prófið fer fram

Skrá þarf staðsetningu prófs.

Hversu margir eru að taka próf

Hægt er að setja inn marga próftaka þegar óskað er eftir verklegum prófum fyrir hóp starfsfólks.

Hvaða réttindaflokka þú vilt taka

Velja þarf þá prófflokka sem þú vilt taka. Greitt er próftökugjald fyrir hvern flokk.

Leiðbeinanda

Þú þarft að skrá leiðbeinanda sem er með viðurkennd kennsluréttindi í þeim réttindaflokki sem viðkomandi hyggst taka próf í. Skrá þarf símanúmer eða tölvupóstfang leiðbeinanda, viðkomandi fær þá skilaboð um að skrá sig inn og staðfesta að verkleg þjálfun hafi farið fram.

Kranapróf

Nauðsynlegt er að vera með góða sjón, heyrn og hreyfigetu til að stjórna krana. Senda þarf læknisvottorð áður en verklegt kranapróf fer fram.

Vottorðið þarf að staðfesta eftirfarandi:

  • Sjón: ≥0,8 á betra auga og ≥0.1 á verra auga (með gleraugu)

  • Sjónsvið eðlilegt

  • Heyrn eðlileg

  • Limaburður eðlilegur og óhindraður

  • Umsækjandi sé hraustur að öðru leyti og hann hafi ekki sjúkdóm, eða taki lyf eða önnur efni sem trufla dómgreind eða geta valdið skyndilegum meðvitundarmissi. Vottorð þarf að vera yngra en sex mánaða.

Í stað læknisvottorðs má framvísa skírteini um aukin ökuréttindi sem er yngra en 6 mánaða.

Vinnuvélaskírteini

Skírteinið er gefið út og sent í pósti.

Einnig er hægt að sækja stafrænt skírteini.

Réttindi

Á skírteininu koma fram þeir réttindaflokkar sem þú hefur staðist verklegt próf í. Réttindum á stærri vinnuvélar fylgja oft réttindi á minni vélar.

Dæmi:

  • Réttindi í flokkum E og F gefa líka réttindi í I-flokki.

  • Réttindi í flokki B gefa líka réttindi í P og D-flokki.

  • Réttindi í flokki K gefa líka réttindi í J-flokki.

Ökuréttindi

Ef þú missir bílprófið máttu bara stjórna vinnuvél á afgirtum svæðum og lóð fyrirtækisins. Lögregla sker úr um hvar umferðarlög gilda ef vafi kemur upp.

Kostnaður

Kostnaður er þrískiptur:

  1. Verð fyrir námskeið:

    • Frumnámskeið kostar 53.900 krónur

    • Byggingakrananámskeið kostar 48.600 krónur

    • Verð grunnnámskeiða og brúkrananámskeiða má sjá hjá ökuskólum og öðrum viðurkenndum aðilum.

  2. Verklegt próf á vinnuvél kostar 10.590 krónur fyrir hvern réttindaflokk.

  3. Skírteinisgjald er 8.470 krónur. Gjaldið er innheimt samhliða gjaldi fyrir verklegt próf.

Gildistími og endurnýjun

Almenn vinnuvélaréttindi gilda til sjötugs. Eftir það þarf að sækja um endurnýjun réttinda.

Réttindi á krana þarf að endurnýja á tíu ára fresti.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið