Verklegt próf og réttindi á vinnuvél
Allir sem ætla sér að stjórna vinnuvél á Íslandi verða að hafa tilskilinn réttindi á viðkomandi vinnuvél. Réttindin er hægt að öðlast með eftirfarandi hætti:
Vinnueftirlitið heldur frumnámskeið sem lýkur með bóklegu prófi og veitir rétt til að hefja verklega þjálfun undir umsjón kennara.
Sá sem annast verklega þjálfun á vinnustað verður að hafa kennsluréttindi á vinnuvél. Til að auðvelda verklega þjálfun hefur Vinnueftirlitið gefið út gátlista fyrir verklega þjálfun á vinnuvél.
Að lokinni verklegri þjálfun á vinnustað fer fram verklegt próf. Hafa þarf samband við Vinnueftirlitið og panta prófdómara.
Að loknu verklegu prófi er sótt um vinnuvélaskírteini sem veitir rétt til að stjórna tilgreindri vinnuvél. Með umsókn um vinnuvélaskírteini þarf að fylgja afrit af ökuskírteini.
Þegar sótt er um kranaréttindi, fyrir flokka A, B, D og P, þarf viðkomandi að framvísa læknisvottorði.
Erlendir starfsmenn
Ef erlendur starfsmaður hefur vinnuvélaréttindi frá öðru aðildarríki EES og honum er ætlað að stjórna vinnuvél á Íslandi verður hann að fá réttindi sín viðurkennd á Íslandi. Vinnuvélaréttindi fást viðurkennd með því að leggja inn umsókn þess efnis til Vinnueftirlitsins.
Flokkun vinnuvélaréttinda
Vinnuvélaréttindi eru flokkuð á eftirfarandi hátt:
Fyrri bókstafur í númeri vinnuvélaflokks kallast yfirflokkur og er einnig tenging við réttindaskírteini vinnuvélastjóra. Þannig getur handhafi skírteinis séð á skráningarnúmeri vinnuvélar hvort hann hafi réttindi á viðkomandi vinnuvél.
A – Staðbundnir kranar og byggingarkranar
B – Farandkranar stærri en 18 tonnmetrar
C – Brúkranar
D – Kranar 18 tonnmetrar eða minni
E – Gröfur stærri en 4 tonn
F – Hjólaskóflur
G – Jarðýtur
H – Vegheflar
I – Dráttarvélar og minni jarðvinnuvélar
J – Lyftarar með 10 tonna lyftigetu eða minna
K – Lyftarar með meira en 10 tonna lyftigetu
L – Valtarar
M – Malbikunarvélar
P – Hleðslukranar með 18 tonnmetra lyftigetu eða minna
Þjónustuaðili
Vinnueftirlit ríkisins