Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Utanlandsferðir barna undir 18 ára

Þegar barn undir 18 ára ferðast milli landa án fylgdar beggja forsjáraðila geta landamærayfirvöld krafist sönnunar þess að barnið hafi leyfi þeirra til að ferðast.
Annars getur barnið átt hættu á að tefjast eða vera synjað um komu eða brottför.
Auk vegabréfs eða annarra ferðaskilríkja er því mælt með að barnið eða fylgdaraðilar þess hafi meðferðis gögn sem sanna samþykki forsjáraðila fyrir ferðalaginu.

Börn sem ferðast með öðru forsjárforeldri sínu

Fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Ef ágreiningur er um utanlandsferð barns má leita úrskurðar sýslumanns.  

Foreldri sem fer eitt með forsjá barns gæti þurft að sýna forsjárvottorð því til sönnunar.

Börn sem ferðast ein eða í fylgd ættingja, íþrótta- eða skólahópa

Foreldrar með sameiginlega forsjá þurfa báðir að samþykkja ferðalagið. Ef ágreiningur er um utanlandsferð barns má leita úrskurðar sýslumanns.  

Foreldri sem fer eitt með forsjá barns þarf að samþykkja ferðalagið og jafnframt sýna fram á fullt forræði. 

Gagnlegt er að kynna sér fylgdarþjónustu flugfélaga fyrir börn sem ferðast ein.

Samþykkisyfirlýsing

Með samþykkisyfirlýsingunni veita forsjáraðilar heimild fyrir því að barnið ferðist 

  • einsamalt eða í fylgd tilgreinds aðila 

  • til tiltekins lands eða tiltekinna landa 

  • á tilgreindu tímabili 

Ef um er að ræða fleiri en eitt barn, er gerð sérstök yfirlýsing fyrir hvert þeirra.

Mikilvægt er að það sem er skráð í samþykkisyfirlýsingunni sé rétt. Það varðar sektum eða fangelsi að gefa út rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim tilgangi að fá útgefið vegabréf.

Vottun samþykkisyfirlýsingar

Hægt er að láta tvo aðila votta undirskrift forsjáraðila. Í þeim tilvikum getur verið gagnlegt að forsjárvottorð fylgi yfirlýsingunni til sönnunar þess að tilgreindir aðilar fari með forsjá barnsins. 

Mælt er með því að yfirlýsingin sé vottuð hjá sýslumanni og síðan staðfest af utanríkisráðuneytinu til að tryggja að skjal verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi.

Sýslumenn

Sýslu­menn