Fara beint í efnið

Þjónusta Ísland.is

Umsóknarkerfi Ísland.is

Umsóknarkerfið er verkfæri sem stofnanir geta nýtt til þess að taka við innsendingum umsókna eða erinda frá almenningi og færa yfir á stafrænt, notendavænt viðmót.

Fyrir hvern?
Allar þær stofnanir sem veita þjónustu til almennings og vilja nýta tæknilausnir til þess að bæta þjónustuna og ferlið við að taka við innsendingum umsókna og erinda.

Af hverju að nota umsóknarkerfi?
Umsóknarkerfið gerir stofnunum kleift að nýta stafræna tækni til að draga úr kostnaði og um leið stórbæta þjónustu við notendur. Með því að taka eyðublöð og rafræn form í gegnum stafrænt hönnunarferli með áherslu á upplifun notenda, er leitast við að setja upp notendavænt flæði, nýta gögn til sjálfvirkrar ákvarðanatöku og auka um leið gagnsæi á ferlum. Auðkenning með rafrænum skilríkjum færir notandann jafnframt nær eigin upplýsingum og þjónustunni sem hann vill sækja.

Hver gerir hvað?
Eignarhald á ferli, flæði og gögnum er á höndum stofnunar.
Stafrænt Ísland kemur með og rekur framendann sem snýr að almenningi á Ísland.is og rekstur gagnaflutnings í gegnum Strauminn (X-Road).

Innleiðing umsóknarkerfis

Hvað þarf að gera til að koma umsókn þar inn?

Stafrænt Ísland leggur áherslu á heildstæða nálgun á alla greiningarvinnu.

Umsóknir eru oftar en ekki birtingarmynd til notanda á einhverri þjónustu sem á sér stoð í hlutverki eða reglum stofnunar. Til að færa umsókn inn í umsóknarkerfið er þjónustan skoðuð, tilgangur ferlisins, aðgengi að gögnum og hvort einfalda megi og útskýra flæðið fyrir notandanum.

Ferlið

  1. Stofnun framkvæmir frumgreiningu á hvaða umsóknarferli hafa mest vægi fyrir stofnunina og notendur.

  2. Stofnun undirbýr verkefnatillögu (vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi getur verið þar innan handar) og sendir inn í gegnum samstarfsumsókn.

  3. Stafrænt Ísland tekur verkefnið til umfjöllunar.

  4. Ef verkefnið er samþykkt er myndaður verkefnahópur með fulltrúa og teymi frá Stafrænu Íslandi ásamt eiganda ferlis og sérfræðinga hjá stofnuninni.

  5. Ferlið er þá tekið inn í hönnunarsprett þar sem ferlið er krufið, gagnavinnslan kortlögð og frumgerð (e. prototype) kynnt fyrir hópnum.

  6. Umsóknin er síðan sett upp í umsóknarkerfinu og gefin út á Ísland.is.

  7. Kynningar- og markaðsefni undirbúið og opnað fyrir umsóknir.

Þjónustuaðili

Staf­rænt Ísland