Fara beint í efnið

Atvinnurekstur og sjálfstætt starfandi

Stuðningslán, viðspyrna vegna COVID-19

Skilyrði

Hver getur sótt um stuðningslán

Einstaklingar og lögaðilar, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og eru skattskyldir á Íslandi, geta átt rétt á stuðningsláni, að uppfylltum skilyrðum laganna. Þeir verða þó að hafa hafið starfsemi fyrir 1.febrúar 2020 og vera skráðir á launagreiðendaskrá hjá Skattinum og virðisaukaskattsskrá þegar það á við.

Hægt er að skoða skráningu á vef skattsins.

Hver getur ekki sátt um stuðningslán

Stuðningslán eru ekki fyrir stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Skilyrði þess að geta fengið stuðningslán eru:

  • hafa á 60 daga samfelldu tímabili frá 1.mars - 30.september haft að minnsta kosti 40% lægri tekjur en á sama tímabili 2019. Hafi starfsemi hafist síðar á árinu 2019 en samanburðartímabil 2020 skal horft til meðaltekna á 60 dögum frá því starfsemi hófst til loka febrúar 2020.

  • tekjur ársins 2019 voru á milli 9 milljónir króna og 1.200 milljónir króna. Hafi starfsemi hafist eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur yfir starfstímann til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.

  • launakostnaður hafi að minnsta kosti verið 10% af rekstrarkostnaði árið 2019. Hafi fyrirtæki hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.

  • ekki hafi verið greiddur út arður, óumsamdir kaupaukar, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða lán eða aðrar greiðslur veittar eigendum eða nákomnum aðilum sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstrarhæfi frá 1. mars 2020 og út þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.

  • fyrirtæki sé ekki í vanskilum sem hafa staðið lengur en 90 daga við lánastofnanir.

  • fyrirtæki sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal fyrirtæki hafa staðið skil á ársreikningum, upplýst um raunverulega eigendur og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi ef um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum á við.

  • bú fyrirtækis hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og fyrirtæki hefur ekki verið tekið til slita.

  • ætla megi að fyrirtæki verði rekstrarhæft þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verja útbreiðslu hennar eru að mestu liðin hjá.

Hvernig má nýta lánið

Lánið má aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega og má ekki nýta til að borga af eða endurfjármagna önnur lán.

Þó má nýta stuðningslán til að borga af eða endurfjármagna lán sem rekstraraðili hefur fengið eftir lok febrúar 2020 til að standa straum af rekstrarkostnaði.