Fara beint í efnið

Stuðningslán, viðspyrna vegna COVID-19

Lokað hefur verið fyrir umsóknir um stuðningslán.

Stuðningslánum er ætlað að styðja við smærri fyrirtæki sem glíma við erfiðleika. Lánin nýtast litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir miklum samdrætti. Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum fyrirtækja á rekstrarárinu 2019.

Hámarksupphæð og vaxtakjör

  • 40 milljónir króna að hámarki á hvert fyrirtæki

  • 1% breytilegir vextir, m.v. meginvexti Seðlabankans, fyrir lán að 10 milljónum króna.

Umsóknarfrestur

Heimilt er að veita stuðningslán til 31. maí 2021. Nokkurn tíma getur tekið að afgreiða umsóknir en ekki verða veitt stuðningslán eftir 31. maí 2021 þótt umsókn hafi borist fyrr. Rekstraraðilum, sem hyggjast sækja um stuðningslán, er því ráðlagt að sækja um tímanlega fyrir þann dag.“

Afgreiðsla láns

Ef fyrirtæki skráir öll viðeigandi gögn í umsóknarferlinu á Ísland.is og uppfyllir skilyrði fyrir veitingu láns, fær lánastofnun umsóknina rafrænt til afgreiðslu og ætti hún að geta veitt lánið innan nokkurra daga eftir að umsókn berst.

Kostnaður

Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun, sem skal dregin frá útborgun láns, til að standa undir kostnaði við umsýslu lána. Þóknunin skal að hámarki nema 2% af höfuðstól láns.

Endurgreiðsla láns

Stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu skal veitt til 30 mánaða og endurgreitt með 12 jöfnum greiðslum síðustu 12 mánuði lánstímans. Lánastofnun getur þó framlengt lánstíma og
frestað endurgreiðslum um allt að 12 mánuði.

Lánastofnun getur veitt stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs til lengri tíma en 30 mánaða, eða framlengt lánstíma umfram 30 mánuði, og krafist lengri endurgreiðslutíma en 12 mánaða. Lánstími má þó ekki verða lengri en fimm ár og endurgreiðslur, sem skulu vera í formi jafnra greiðslna, skulu hefjast eigi síðar en þremur árum frá því að lán er veitt.

Hver getur sótt um

Til þess að sækja um stuðningslán þarf umsækjandi að vera prókúruhafi rekstraraðila. Hægt er að skoða tengsl við fyrirtæki inn á skattur.is.