Fara beint í efnið

Straumurinn gagnaflutningslag (X-Road)

Straumurinn (X-Road) er gagnaflutningslag sem er ætlað að auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á öruggan hátt.

Um hvað snýst verkefnið?

Innleiðing á Straumnum (X-Road) Íslandi hófst formlega í nóvember 2018 þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði samstarfssamning við Finna og Eista.

Straumurinn er gagnaflutningslag fyrir upplýsingakerfi og er vistkerfi sem er í senn tæknilegt umhverfi og skipulag og tryggir örugg gagnasamskipti á milli upplýsingakerfa. Straumnum er ætlað að auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á landsvísu með öruggum hætti.

Stofnanir og fyrirtæki geta tengst Straumnum. Með því að nýta Strauminn verða samskiptaleiðir milli upplýsingakerfa staðlaðar sem eykur hagræðingu í uppsetningu og rekstri.

Straumurinn gerir stofnunum kleift að eiga í samskiptum við borgara með mismunandi kerfum eða vefgáttum (skjalastjórnunarkerfi og upplýsingakerfi stofnana) á mun sveigjanlegri hátt en áður hefur þekkst. Sem dæmi geta upplýsingar um einstaklinga, sem skráðar eru í einu kerfi, flætt yfir í annað. Það minnkar tvíverknað og ekki þarf að óska eftir upplýsingum frá borgurunum, sem ríkið býr þegar yfir.

Straumurinn er með fjölþætt öryggiskerfi: Sannvottun og auðkenningu notenda, dulkóðun á gögnum og tímastimplaðar aðgerðir sem tryggir rekjanleika.

Straumurinn er þróaður af Eistum og Finnum fyrir opinbera þjónustu og hefur verið í notkun frá 2002. 

Af hverju innleiðum við Strauminn?

Með innleiðingu verða samskiptaleiðir milli upplýsingakerfa staðlaðar sem eykur hagræðingu í uppsetningu og rekstri. Þetta kemur í veg fyrir tvíverknað í samskiptum við hið opinbera. Sem dæmi geta upplýsingar um einstaklinga, sem skráðar eru í einu kerfi, flætt yfir í annað og ekki þarf að óska eftir upplýsingum frá borgurunum, sem ríkið býr þegar yfir.

Gögn fara á milli stofnana, ekki fólk.

Fyrir hverja er verkefnið unnið?

Straumurinn er undirstaða miðlægrar þjónustugáttar fyrir borgara landsins. Lögð er áhersla á að sinna öllum borgurum jafn vel. Straumurinn er undirstaða þess að borgarar landsins geti sótt alla þjónustu hins opinbera á einum stað í miðlægri þjónustugátt.

Allar opinberar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í landinu geta nýtt sér Strauminn til að flytja gögn sín á milli með það að markmiði að bæta þjónustu við almenning í landinu.

Við hvað styður verkefnið?

Straumurinn tryggir og stuðlar að samvirkni upplýsingakerfa hjá mismunandi stofnunum. Straumurinn mun einnig tryggja öruggan, staðlaðan og dulkóðaðan gagnaflutning á milli hins opinbera og fyrirtækja í landinu. Þannig geta fyrirtæki og einstaklingar sótt upplýsingar um sig með einföldum og öruggum hætti á einum stað.

Hvernig nýti ég Strauminn?

Þegar Straumurinn hefur verið settur upp og er tilbúinn til notkunar munu stofnanir geta miðlað upplýsingum sín á milli. Hægt verður að sjá á vefsíðunni Straumurinn.island.is hvaða þjónusta er í boði og sækja um aðgang til að miðla gögnum til almennings og annarra stofnana.

Hvenær verður Straumurinn tilbúinn?

Straumurinn er þegar kominn í uppsetningu hjá nokkrum stofnunum hins opinbera (sjá mynd) og virkjast formlega þegar vefþjónustur hafa verið tengdar.

Stofnanir tengdar Straumnum

Staðan 4. desember 2020.

Nánar um Strauminn

Nánari upplýsingar og fyrirspurnir sendist á stafraentisland@fjr.is

Þjónustuaðili

Staf­rænt Ísland