Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Skýrslur og úttektir

Skönnun opinberra vefja

Um margra ára skeið hafa gæði opinberra vefja verið metin og borin saman með reglulegum hætti. Þau atriði sem skoðuð hafa verið hverju sinni hafa breyst í takt við framþróun tækni og venja við framsetningu efnis á vefsíðum. Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið að styðja opinbera aðila í viðhaldi og þróun vefja með því að gefa ábyrgðarmönnum þeirra óháð mat á stöðu vefs eða vefja. Bæði með tilliti til almennra viðmiða og krafna um framsetningu efnis á hverjum tíma og með samanburði við stöðu annarra opinberra vefja. Slíkt auðveldar stofnunum að þróa og viðhalda vönduðum vefsíðum.

Framkvæmd þessarar skoðunar er nú eitt af verkefnum Stafræns Íslands í samræmi við hlutverk þess að styðja opinbera aðila í að veita almenningi sem besta stafræna þjónustu. Enda gegna vefsíður opinberra aðila, nú sem fyrr, veigamiklu hlutverki í því og mikilvægt að vanda til verka.

Heildareinkunn

Hvert vefsvæði fær eina heildareinkunn sem segir til um styrk vefsvæðisins og er samsett
úr einkunnum fyrir:

  • Aðgengi / Accessibility

  • Gæði efnis / Quality Assurance

  • Leitarvélabestun / Search Engine Optimization – (SEO)

Aðgengi

Einkunn fyrir aðgengi segir til um hversu vel vefurinn fylgir alþjóðlegum viðmiðunarreglum um aðgengi að efni á vefnum. Þessi einkunn byggir á aðgengisvillum samkvæmt WCAG-staðlinum og er flokkuð eftir þrepum (A, AA, AAA) og hverju þeirra gefið vægi eftir því um hvers konar aðfinnslu er að ræða og hversu brýnt er að lagfæra.

Dæmi um aðgengisvillur:

  • Vantar fyrirsögn á síðu (WCAG: 1.3.1). Til að fá yfirsýn yfir innihald tiltekinnar síðu vafra
    blindir og/eða sjónskertir oft um vefinn með því að nota fyrirsagnir.

  • Ófullnægjandi litaskil (WCAG 1.4.3). Ófullnægjandi litaskil milli texta og bakgrunns geta valdið erfiðleikum fyrir notendur með skerta sjón eða litblindu. Hlutfall litaskila ætti því að vera minnst 4,5:1 fyrir texta í venjulegri leturstærð og 3:1 fyrir texta í stórri leturstærð.

  • Hlekkur fyrir mynd er ekki með alt-texta (WCAG 2.4.4). Myndahlekkur er ekki með alt-texta sem lýsir tilgangi hlekksins. Ef enginn hliðstæður texti fylgir myndinni geta notendur sem reiða sig á stoðtækni ekki vitað á hvað þeir smella. 

Gæði efnis

Hér er horft til atriða sem hafa áhrif á upplifun notenda, svo sem stafsetningu, brotna hlekki, langar setningar, löng orð, hversu læsilegt efnið er, stærð mynda og hvaða tegundir skjala eru á vefnum.

Leitarvélabestun (SEO)

Einkunn fyrir þennan lið byggir á fjölmörgum svokölluðum SEO-þáttum. En markmið þeirra er að gera vefinn þannig úr garði að hann komi sem best út í leitarvélum, s.s. Google. Þessi einkunn byggir á því hversu vel tæknileg uppbygging vefs styður þá þætti sem leitarvélar horfa til. Er t.d. samhengi á milli lýsingar á innihaldi síðu og raunverulegu efnislegu innihaldi hennar, hversu hraður er vefurinn í snjallsíma og hvernig er virkni vefsvæðisins í snjalltækjum?

Algengar spurningar um skönnun opinberra vefja