Fara beint í efnið

Launþegi, réttindi og lífeyrir

Sjúkra- og slysatryggingar

Þeir sem eru búsettir hér á landi eru tryggðir að uppfylltum vissum skilyrðum og samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og Sjúkratrygginga Íslands. Tryggingavernd fellur niður þegar flutt er úr landi.

Sjúkratryggingar

Þeir sem búsettir eru hér á landi og hafa átt lögheimili hér síðastliðna sex mánuði eru sjúkratryggðir.

Þeir sem eru ótryggðir og búsettir hér á landi geta fengið undanþágu frá skilyrði í nokkrum tilvikum.

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hjá lækni og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa samning við stofnunina.

Sjúkratryggingar greiða hluta kostnaðar vegna almennra tannlækninga fyrir börn og unglinga 17 ára og yngri, aldraða og öryrkja.

Slysatryggingar

Allir launþegar, án tillits til aldurs, sem starfa hér á landi eru slysatryggðir við vinnu sína. Sama gildir um þá sem stunda iðnnám og verklegt nám, taka þátt í íþróttum á vegum viðurkennds íþróttafélags eða eru við björgunarstörf.

Bætur slysatrygginga eru sjúkrahjálp, slysadagpeningar, örorkulífeyrir og dánarbætur. Greiðsluþátttaka TR vegna sjúkrahjálpar nær meðal annars til læknishjálpar, lyfja og umbúða, dvalar á sjúkrastofnun, sjúkraþjálfunar og sjúkraflutnings.

Sjúklingatryggingar

Verði sjúklingur fyrir líkamlegu eða geðrænu heilsutjóni vegna sjúkdómsmeðferðar eða rannsóknar veitir sjúklingatrygging rétt til bóta í ákveðnum tilvikum.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir