Fara beint í efnið

Samfélag og réttindi

Seyðisfjörður, upplýsingar vegna hamfaranna í desember 2020

Um miðjan desember sl. riðu fordæmalausar hamfarir yfir Seyðisfjörð í kjölfar úrhellingsrigningar á svæðinu í hartnær eina viku. Aurskriður féllu á hús með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á þeim og eru einhver þeirra gjörónýt. Þó nokkuð tjón varð á fjölda húsa þegar vatn flæddi inn í kjallara þeirra og ljóst er að mikið munatjón hefur orðið í hamförunum. Fyrstu viðbrögð við hamförunum fólust í að tryggja öryggi á svæðinu á grundvelli almannavarna.

Umfangsmikið starf er fram undan við að tryggja öryggi á Seyðisfirði til frambúðar. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að hraða eins og kostur er uppbyggingu samfélags, innviða og menningarminja á Seyðisfirði.

Um hamfarirnar

Aurskriðurnar sem féllu á Seyðisfirði eru þær mestu sem fallið hafa á þéttbýli á Íslandi.

Veðurstofa Íslands fylgist grannt með aðstæðum til að meta hættuna á frekari skriðuföllum. Eftir að skriður falla getur hrunið áfram úr skriðusárinu í langan tíma en í flestum tilfellum eru þær skriður miklu minni. Hlíðin kann því að verða óstöðug eitthvað áfram og hrunið gæti úr skriðusárum í rigningartíð. Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu var settur upp á Seyðisfirði í upphafi ársins.

Nánari umfjöllun um hamfarirnar á vef Veðurstofunnar. Annars vegar Stóra skriðan á Seyðisfirði sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi og Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu settur upp á Seyðisfirði.

Þessi síða er á vegum starfshóps ráðuneyta sem skipaður var í kjölfar hamfaranna á Seyðisfirði í desember. Markmiðið er að taka saman upplýsingar fyrir íbúa á svæðinu um verkefni í framkvæmd og fyrirhuguð verkefni ríkisaðila á Seyðisfirði vegna hamfaranna. Svör við spurningum á þessum vef munu því uppfærast í samræmi við nýjustu upplýsingar hverju sinni en jafnframt munu fleiri spurningar og svör bætast við eftir því sem þurfa þykir.

Hægt er að hafa beint samband við starfshópinn í gegnum tölvupóst.

Gagnlegir hlekkir

Algengar spurningar vegna hamfaranna á Seyðisfirði desember 2020