Um samráðsgátt

Ábyrgð og umsjón

Umsagnir í samráðsgáttinni eru birtar á ábyrgð sendanda, sem skráður er fyrir efninu. Hvert ráðuneyti, sem og aðrir skipuleggjendur samráðs, ákveða tilhögun og sjá um ritstjórn á því efni sem þau birta til samráðs. Ritstjórn á almennum upplýsingum og fyrirkomulagi gáttarinnar er samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Hýsing og dagleg tæknileg umsjón samráðsgáttarinnar er hjá Ísland.is sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Ábendingar um það sem betur má fara sendist á samradsgatt@stjornarradid.is


Markmið

Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Hér er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu. Tekið skal fram að til viðbótar við opið samráð á netinu geta verið annars konar samráðsferlar, svo sem þátttaka helstu hagsmunaaðila í nefndarstarfi eða sérstakt boð til þeirra um umsögn.


Efni

Í Samráðsgáttinni er að finna áform um lagasetningu, drög að lagafrumvörpum og reglugerðum, skjöl um stefnumótun (t.d. drög að stefnum) og fleira. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingu og jafnframt er mögulegt að gerast áskrifandi að sjálfvirkri vöktun upplýsinga, hvort heldur er eftir málefnasviði, stofnun eða tilteknu máli. Málefnasvið miðast við skiptingu viðfangsefna og málaflokka ríkisins samkvæmt lögum um opinber fjármál. Að samráðstímabili loknu er gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda og niðurstöðu máls.  Fyrst um sinn munu einungis ráðuneyti setja inn mál til samráðs en líklegt er að ríkisstofnanir og e.t.v. fleiri aðilar muni bætast við síðar. Aðrir væntanlegir notendur gáttarinnar eru almenningur og hagsmunaaðilar, svo sem í atvinnulífi, félagasamtökum og fræðasamfélagi. Lögð er áhersla á skýra framsetningu og auðvelda notkun.


Ritun umsagna

Til að senda inn umsögn eða ábendingu þarf að skrá sig inn í Samráðsgáttina með Íslykli eða rafrænni auðkenningu, enda birtast umsagnir að meginreglu jafnóðum. Ef umsögn er veitt fyrir hönd lögaðila, t.d. samtaka, fyrirtækis eða stofnunar, þarf að vera fyrir hendi umboð, sjá nánar hér. Ef viðkomandi hefur ekki möguleika á innskráningu er hægt að taka þátt með því að senda tölvupóst á hlutaðeigandi stjórnvald. Umsögn skal vera skýr og skipulega upp sett til að auðvelda yfirferð og mat á efni hennar. Eftirfarandi atriði skal hafa að leiðarljósi:

  • Best er að fylgja efnisröðun skjalsins, þó þannig að fyrst komi almennt álit um málið sé þess talin þörf. Ef t.d. er um frumvarp að ræða skal einfaldlega fylgja uppsetningu þess þannig að athugasemdir og hugleiðingar um efni einstakra greina komi fram undir númeri greinar. Óþarfi er að fjalla um aðrar greinar frumvarpsins en þær sem umsagnaraðili gerir athugasemdir við.
  • Mikilvægt er að tillögur um breytt orðalag, viðbætur, brottfellingar og þess háttar komi skýrt fram.
  • Athugið að gera ekki aðeins athugasemd um að orðalag sé óljóst, tvírætt eða ónákvæmt, betra er að rökstyðja í kjölfarið hvað er óljóst við textann og hvernig umsagnaraðili leggur til að orðalagið verði.
  • Fylgiskjöl mega fylgja umsögn en mælst er til þess að umfang þeirra sé takmarkað eftir megni.

Birting umsagna

Umsagnir eru að meginreglu birtar jafnóðum og þær berast en í undantekningartilvikum koma þrjár aðrar útfærslur til greina:

  1. Birting í gáttinni fer ekki fram fyrr en að umsagnarfresti loknum, eftir að umsagnir hafa verið yfirfarnar.
  2. Þátttakendum er boðið upp á valkostinn „Óska eftir að efni umsagnar og nafn sendanda birtist ekki í gáttinni“. Þetta getur átt við hvort heldur samráðsferli miðar að öðru leyti við birtingu jafnóðum eða eftir á.
  3. Umsagnir verða ekki birtar í gáttinni.

Við skipulagningu samráðsferlis þarf umsjónaraðili máls að taka afstöðu til hvaða leið skuli farin í þessu efni. Frávik frá meginreglunni um birtingu jafnóðum eiga fyrst og fremst við þegar líkur eru á að í umsögnum komi fram upplýsingar sem falla undir undantekningarákvæði 6.-10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Undir þau falla t.d. upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga eða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Málefnalegar ástæður geta einnig leitt til þess að umsjónaraðili máls birtir ekki tiltekna umsögn eða tekur hana úr birtingu.

Ákvæði upplýsingalaga gilda um allar umsagnir og almenningur á rétt til aðgangs að þeim nema áðurnefnd undantekningarákvæði eigi við. Ágreiningi í því efni má skjóta til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og dómstóla. Upplýsingum um að umsögn hafi borist er í öllum tilvikum haldið til haga í gáttinni.


Reglur

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna frá 24. febrúar 2023 gilda eftirfarandi reglur um öll ráðuneyti:

  1. Áform ríkisstjórnar um lagasetningu og frummat á áhrifum hennar skulu kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opnu samráði og kostur gefinn á umsögnum og ábendingum. Þetta á þó ekki við ef sérstök rök mæla gegn slíkri birtingu, svo sem ef mál er sérlega brýnt.
    Hæfilegur frestur skal gefinn til athugasemda, að minnsta kosti tvær til fjórar vikur.
    Niðurstöður samráðs skulu birtar eins fljótt og unnt er, að jafnaði innan þriggja mánaða frá því að umsagnarfresti lauk.
    Ákvörðun um takmarkað eða ekkert samráð við almenning og hagsmunaaðila skal ráðherra rökstyðja í greinargerð með frumvarpi.
  2. Drög að lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum ríkisstjórnar skulu kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opnu samráði og kostur gefinn á umsögnum og ábendingum. Þetta á þó ekki við ef sérstök rök mæla gegn slíkri birtingu, svo sem ef mál er sérlega brýnt.
    Hæfilegur frestur skal gefinn til athugasemda, að minnsta kosti tvær til fjórar vikur.
    Niðurstöður samráðs skulu birtar eins fljótt og unnt er, að jafnaði innan þriggja mánaða frá því að umsagnarfresti lauk.
    Í greinargerð með lagafrumvarpi skal rakið hverja frumvarp snertir fyrst og fremst, hvernig samráði hafi verið háttað, hvaða meginsjónarmið komu fram og hvort eða hvernig brugðist hafi verið við þeim. Hið sama á við um þingsályktunartillögur eftir því sem við á.
    Ákvörðun um takmarkað eða ekkert samráð við almenning og hagsmunaaðila um drög að frumvarpi eða þingsályktunartillögu skal ráðherra rökstyðja í greinargerð með frumvarpi eða þingsályktunartillögu.

Tekið skal fram að auk þess getur verið kveðið á um samráð í lögum, en slík ákvæði ná einungis til þeirra tilvika sem þar eru afmörkuð.


Eftirfylgni

Undir flipanum „Tölfræði“ er hægt að kynna sér yfirlit yfir nýtingu á gáttinni, allt frá opnun.

Skrifstofa löggjafarmála í dómsmálaráðuneyti birtir einnig árlega umfjöllun um framkvæmd opins samráðs á netinu af hálfu ráðuneyta.

Sjá nánar: Vönduð lagasetning


Forsaga

Samráðsgáttin var opnuð 5. febrúar 2018 og undirbúin í samstarfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.

Sjá nánar: Vinnuhópur um samráðsferla á netinu skilar stöðumati og tillögum

Efnisyfirlit