Til umsagnar
24.2.–10.3.2025
Í vinnslu
11.3.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-47/2025
Birt: 24.2.2025
Fjöldi umsagna: 14
Drög að frumvarpi til laga
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Örorka og málefni fatlaðs fólks
Breytingar á lögum um almannatryggingar um aldursviðbót, tengingu fjárhæða við launavísitölu og um öflun, vistun og miðlun upplýsinga í tölfræðilegum tilgangi.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins frá 21. desember 2024 segir að bundið verði í lög að aldursviðbót á lífeyri öryrkja haldist ævilangt og að ríkisstjórnin muni hækka örorku- og ellilífeyri á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu, en þó aldrei minna en verðlag. Jafnframt segir í stefnuyfirlýsingunni að gripið verði til aðgerða til að uppræta fátækt og lyfta greiðslum almannatrygginga til tekjulægri lífeyrisþega. Frumvarpið sem hér er lagt fram er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Markmið frumvarpsins er að bæta stöðu þeirra sem voru ung metin með örorku og eiga engin eða mjög takmörkuð atvinnutengd réttindi til ellilífeyris. Með því að festa í lög að aldursviðbót falli ekki niður þegar einstaklingur nær ellilífeyrisaldri er leitast við að stuðla að jöfnuði og vernda þá sem annars myndu búa við lækkun á þeirri fjárhæð sem þeir hafa til framfærslu sinnar.
Jafnframt er með fyrirhuguðum breytingum stefnt að því að styrkja stöðu elli- og örorkulífeyrisþega með því að tryggja að lífeyrisgreiðslur fylgi þróun launavísitölu í stað þess að taka mið af almennri launaþróun, sem í einhverjum tilvikum kann að hafa leitt til lakari kjara fyrir þessa hópa.
Þá er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði skýrt á um að söfnun tölfræðiupplýsinga um endurhæfingarþjónustu í víðum skilningi verði verkefni Tryggingastofnunar í því nýja kerfi sem tekur gildi þann 1. september 2025.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa félags- og lífeyrismála
ingibjorg.eliasdottir@frn.is