Fara beint í efnið

Langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu

Umsókn um langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu

Langtímavegabréfsáritun fyrir fólk í fjarvinnu veitir heimild til dvalar á Íslandi í 90 til 180 daga í þeim tilgangi að stunda héðan fjarvinnu.

Með fjarvinnu er átt við skipulag og framkvæmd vinnu með notkun upplýsingatækni, þar sem vinna sem einnig væri hægt að inna af hendi á starfsstöð erlendis er unnin utan þeirrar starfsstöðvar hér á landi. Þeim sem sinnir fjarvinnu er óheimilt að starfa í þágu innlendra aðila eða starfa á annan hátt á íslenskum vinnumarkaði. Slík störf krefjast útgáfu dvalar- og atvinnuleyfis.

Makar/sambúðarmakar og börn geta fengið útgefna langtímavegabréfsáritun sem aðstandendur einstaklings í fjarvinnu.

Handhafi langtímavegabréfsáritunar vegna fjarvinnu fær ekki útgefna íslenska kennitölu.

Kostnaður

Gjald fyrir umsókn um langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu er 12.200 kr, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds.

Skilyrði

Þú getur fengið útgefna langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu ef þú uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:

  • þú ert frá ríki utan EES/EFTA

  • þú ert undanþegin/-n áritunarskyldu

  • þú hefur ekki fengið útgefna langtímavegabréfsáritun á síðustu tólf mánuðum frá íslenskum stjórnvöldum

  • tilgangur dvalarinnar er að stunda fjarvinnu frá Íslandi, annaðhvort sem
    - launþegi í þágu erlends vinnuveitanda eða
    - sjálfstætt starfandi einstaklingur

  • það er ekki ætlun þín að setjast að á landinu

  • þú getur sýnt fram erlendar tekjur sem svara 1.000.000 kr. á mánuði eða 1.300.000 kr., ef einnig er sótt um fyrir maka eða sambúðarmaka.

Makar og sambúðarmakar geta fengið útgefna langtímavegabréfsáritun sem aðstandendur einstaklings í fjarvinnu, ef þeir eru undanþegnir áritunarskyldu.

Börn einstaklinga í fjarvinnu eða maka/sambúðarmaka þeirra geta fengið útgefna langtímavegabréfsáritun sem aðstandendur einstaklings í fjarvinnu, ef þau eru yngri en 18 ára og undanþegin áritunarskyldu.

Gildistími

Ef þú sækir um frá búsetulandi og kemur ekki til Íslands áður en ákvörðun um veitingu er tekin, getur þú fengið útgefna langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu í allt að 180 daga.

Ef þú sækir um eftir að þú kemur inn á Schengen-svæðið, getur þú fengið útgefna langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu í allt að 90 daga.

Gildissvæði

Langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu veitir heimild til dvalar í öðrum Schengen-ríkjum í allt að 90 daga á 180 daga tímabili.

Umsóknarferli

Umsóknir er aðeins hægt að leggja fram á pappírsformi.

Þeim má skila í þar til gerðan póstkassa í anddyri Útlendingastofnunar eða með því að senda umsókn í bréfpósti. Áður en það er gert er nauðsynlegt að greiða fyrir umsókn með millifærslu í banka og þarf greiðslukvittun að fylgja umsókn til staðfestingar, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds.

Útlendingastofnun (sjá á korti)
Dalvegi 18
201 Kópavogi
Ísland

Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.

Ef þú uppfyllir skilyrði fyrir veitingu langtímavegabréfsáritunar vegna fjarvinnu, færðu senda staðfestingu á því frá Útlendingastofnun.

Þú þarft að hafa samband við Útlendingastofnun eftir komuna til landsins til að fá áritun útgefna. Áritun gildir frá þeim degi sem hún er gefin út.

Fylgigögn með umsókn fyrir fólk í fjarvinnu

Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.

  1. Greiðslukvittun

  2. Passamynd (35mm x 45mm) ekki eldri en 6 mánaða.

  3. Ljósrit vegabréfs.

    • Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma áritunar.

    • Ljósrit þarf að vera af:
      - persónusíðu
      - síðu með undirskrift umsækjanda
      - áritunum
      - komu- og brottfararstimplum inn á og út af Schengen-svæðinu á síðastliðnu ári.

  4. Sjúkra- og slysatrygging. Sé umsækjandi ekki tryggður hjá íslensku tryggingafélagi þurfa að fylgja nákvæmar upplýsingar um tryggingu frá heimalandi. Á afriti af tryggingaskírteini þurfa að koma fram upplýsingar um hvar viðkomandi trygging gildir og hversu lengi.

  5. Gögn sem staðfesta tilgang dvalar hér á landi, annaðhvort

    • staðfesting frá vinnuveitanda um að þér sé heimilt að inna starf þitt af hendi hér á landi í fjarvinnu, eða

    • staðfesting á því að þú sért sannanlega sjálfstætt starfandi í því landi sem þú hefur fasta búsetu eða starfar alla jafna.

  6. Staðfesting á að tekjur vegna fjarvinnunnar muni samsvara kr. 1.000.000 á mánuði.

    • Launþegi getur til dæmis framvísað ráðningarsamningi með upplýsingum um mánaðarlaun. Sjálfstætt starfandi einstaklingur getur til dæmis framvísað samningum um þau verkefni sem hann hyggst vinna í fjarvinnu með upplýsingum um umsamdar greiðslur.

    • Athugið að ef einnig er sótt um fyrir maka eða sambúðarmaka þurfa tekjur fyrir fjarvinnuna að samsvara kr. 1.300.000 á mánuði.

  7. Ef ástæða þykir til, getur Útlendingastofnun farið fram á að umsækjandi skili inn sakavottorði.

Fylgigögn með umsókn fyrir maka/sambúðarmaka

  1. Greiðslukvittun

  2. Passamynd (35mm x 45mm) ekki eldri en 6 mánaða.

  3. Ljósrit vegabréfs.

    • Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma áritunar.

    • Ljósrit þarf að vera af:
      - persónusíðu
      - síðu með undirskrift umsækjanda
      - áritunum
      - komu- og brottfararstimplum inn á og út af Schengen-svæðinu á síðastliðnu ári.

  4. Sjúkra- og slysatrygging. Sé umsækjandi ekki tryggður hjá íslensku tryggingafélagi þurfa að fylgja nákvæmar upplýsingar um tryggingu frá heimalandi. Á afriti af tryggingaskírteini þurfa að koma fram upplýsingar um hvar viðkomandi trygging gildir og hversu lengi.

  5. Hjúskaparvottorð eða gögn sem staðfesta að sambúð hafi varað í að minnsta kosti eitt ár.

Skila þarf inn afriti af vottorðum. Útlendingastofnun getur þó óskað eftir frumritum og eða lögformlegri staðfestingu ef svo ber undir, sjá upplýsingar um kröfur til fylgigagna.

Fylgigögn með umsókn fyrir barn

  1. Greiðslukvittun

  2. Passamynd (35mm x 45mm) ekki eldri en 6 mánaða.

  3. Ljósrit vegabréfs.

    • Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma áritunar.

    • Ljósrit þarf að vera af:
      - persónusíðu
      - síðu með undirskrift umsækjanda
      - áritunum
      - komu- og brottfararstimplum inn á og út af Schengen-svæðinu á síðastliðnu ári.

  4. Sjúkra- og slysatrygging. Sé umsækjandi ekki tryggður hjá íslensku tryggingafélagi þurfa að fylgja nákvæmar upplýsingar um tryggingu frá heimalandi. Á afriti af tryggingaskírteini þurfa að koma fram upplýsingar um hvar viðkomandi trygging gildir og hversu lengi.

  5. Fæðingarvottorð.

  6. Forsjárgögn. Aðeins forsjárforeldrar geta sótt um langtímavegabréfsáritun fyrir barn sitt. Eftirfarandi gögn geta sýnt fram á hver fer með forsjá barns:

    • Forsjárgögn sem gefin eru út af þar til bæru stjórnvaldi, s.s. sýslumanni eða dómstólum. Skilyrði er að gögnin séu ekki eldri en 6 mánaða. Ef barnið kemur aðeins með öðru forsjárforeldri sínu til Íslands þarf einnig að leggja fram frumrit vottaðrar yfirlýsingar þess foreldris sem ekki kemur með til Íslands um að það sé samþykkt því að barnið fái langtímavegabréfsáritun á Íslandi.

    • Skilnaðargögn. Ef foreldrar barns eru skildir að lögum og fram kemur í skilnaðargögnum hver fer með forsjá barns teljast þau gögn nægileg til staðfestingar á forsjá.

    • Dánarvottorð. Ef annað forsjárforeldri barns er látið og eftirlifandi forsjárforeldri fer eitt með forsjá þess, telst staðfest afrit dánarvottorðs nægileg staðfesting á forsjá.

  7. Staðfesting varðandi nám barns. Með umsókn barns á aldrinum 6 til 16 ára þarf að fylgja skrifleg staðfesting á því að
    - barn fái fjarkennslu frá skóla í heimaríki
    - skóli á Íslandi hafi samþykkt að taka við barninu eða
    - barnið fái heimakennslu.

Skila þarf inn afriti af vottorðum. Útlendingastofnun getur þó óskað eftir frumritum og eða lögformlegri staðfestingu ef svo ber undir, sjá upplýsingar um kröfur til fylgigagna.

Lög og reglugerðir

Lög um útlendinga, nr. 80/2016
Reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017

Umsókn um langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun