Próf í íslensku fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt
8. september 2025
Skráning hefst 17. september

Næstu próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt verða haldin 10. til 25. nóvember 2025.
Skráning stendur yfir frá 17. september til 19. október á vef Mímis.
Um íslenskupróf fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt
Eitt af skilyrðunum fyrir að fá veitt íslenskt ríkisfang er að taka og standast próf í íslensku fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt. Það er Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem semur prófin og yfirfer þau en Mímir framkvæmir prófin.
Tilgangur prófsins er að vera hlutlægur mælikvarði á hvort umsækjendur standist þær kröfur sem gerðar eru til íslenskukunnáttu í reglugerð dómsmálaráðherra um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt reglugerðinni er Útlendingastofnun heimilt að veita umsækjanda undanþágu frá skilyrðinu um að taka prófið, ef telja verður ósanngjarnt að gera þá kröfu til viðkomandi.
Undanþágutilvikin sem talin eru upp í reglugerðinni ná til einstaklinga sem eru eldri en 65 ára; barna sem stunda nám í íslenskum grunnskóla eða eru undir grunnskóla aldri; einstaklinga sem hafa fengið staðfest með vottorði læknis eða sérfræðings að þeim sé ekki unnt að gangast undir próf af alvarlegum líkamlegum eða andlegum ástæðum; og einstaklinga sem geta staðfest með viðhlítandi vottorði frá íslenskum skóla að þeir hafi færni sem samsvarar þeim kröfum sem taldar eru upp í reglugerðinni.
Einstaklingur sem telur sig falla undir undanþágu verður að leggja fram gögn því til stuðnings, til dæmis læknisvottorð, vottorð um skólagöngu eða prófskírteini. Yfirlýsingar vina, vandamanna, vinnuveitenda eða annarra duga ekki til að byggja undanþágu á. Umsækjendum um ríkisborgararétt sem hafa góð tök á íslensku kann að finnast ósanngjarnt að þurfa að taka próf til að sýna fram á kunnáttu sína í málinu. Án viðhlítandi vottorða er það þó ekki ósanngjörn krafa í skilningi reglugerðarinnar.