Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Tillaga að nýrri aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi afhent ráðherra

22. janúar 2025

Undanfarna mánuði hefur starfshópur sem skipaður var af fyrrum heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, unnið tillögur að nýrri aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi, fyrir árin 2025 – 2030. Í gær skilaði starfshópurinn tillögu að nýrri aðgerðaáætlun til Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra.

Alma er fráfarandi landlæknir og þekkir þennan málaflokk vel því embætti landlæknis ber ábyrgð á sjálfsvígsforvörnum á Íslandi og er faglegur ráðgjafi stjórnvalda á því sviði. Á fundi sem haldinn var af þessu tilefni ræddu heilbrigðisráðherra, fulltrúar ráðuneytisins og starfshópurinn um innleiðingu aðgerðaáætlunarinnar, samráð, kynningu og fjármögnun. Enn sem komið er fylgir ekki fjármagn áætluninni. Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna mun fylgja eftir vinnu við aðgerðaáætlunina í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Aðgerðir verða unnar í breiðu samstarfi við ráðuneyti, stofnanir og félagasamtök.

Tillögurnar í aðgerðaáætluninni 2025 – 2030, styðja við aðrar núgildandi stefnur og áætlanir á sviði geðheilbrigðis, lýðheilsu og áfengis- og vímuvörnum. Stuðst er við gagnreynda þekkingu á sjálfsvígforvörnum, bæði innan – og utanlands. Horft er til leiðbeininga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, klínískra leiðbeininga og árangursríkra áhersluatriða í sjálfsvígsforvörnum á alþjóðavísu. Þeir sjö efnisflokkar sem aðgerðaáætlunin byggir á eru:

  1. Samhæfing og skipulag

  2. Stuðningur og meðferð

  3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum

  4. Vitundarvakning og fræðsla

  5. Forvarnir og heilsueflingarstarf

  6. Gæðaeftirlit og sérfræðiþekking

  7. Stuðningur við eftirlifendur

Í áætluninni eru 26 aðgerðir sem snúa að öllum stigum sjálfsvígsforvarna; forvörnum, íhlutunum og stuðningi eftir sjálfsvíg.

Hér á landi hafa dáið í sjálfsvígi að meðaltali um 41 einstaklingur á ári síðastliðin ár (2019 - 2023). Tíðni sjálfsvíga var 11,8 á hverja 100.000 íbúa að meðaltali árin 2013 – 2023.

Sjálfsvíg eru alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Árangursrík aðgerðaáætlun er því mikilvæg til að stuðla að bættri heilsu landsmanna.

Starfshópinn skipuðu:

  • Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, formaður hópsins.

  • Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, prestur í Langholtskirkju.

  • Guðríður Haraldsdóttir, sálfræðingur hjá Geðheilsumiðstöð barna.

  • Grétar Björnsson, félagsfræðingur fyrir hönd Hugarafls og Geðráðs.

  • Ingibjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

  • Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni og fagstjóri hjá Sorgarmiðstöð.

  • Liv Anna Gunnell, fagstjóri sálfræðiþjónustu hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

  • Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, fyrir hönd Landssamtakanna Geðhjálpar.

  • Sigurður Páll Pálsson, læknir á geðsviði Landspítala.

  • Tómas Kristjánsson, sálfræðingur fyrir hönd Píeta samtakanna.

Frekari upplýsingar
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri Lífsbrúar – miðstöðvar sjálfsvígsforvarna
gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is