Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Réttindi starfsmanns í fæðingarorlofi

Starfsmenn í fæðingarorlofi njóta verndar gegn uppsögnum og eiga að geta gengið að starfi sínu vísu að orlofi loknu. 

Uppsögn starfsmanns

Það er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum ef hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi, nema aðrar og gildar ástæður séu fyrir hendi og verður þá skriflegur rökstuðningur að fylgja uppsögninni. 

Réttur til starfs að loknu fæðingarorlofi

Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi og á starfsmaðurinn rétt á að hverfa aftur til starfs síns að orlofinu loknu. Sé þess ekki kostur þá á hann rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. 

Lífeyrissjóðsgreiðslur og starfstengd réttindi

Foreldri í fæðingarorlofi greiðir að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslum í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 8%. 
Foreldri er heimilt að greiða í séreignasjóð, þó Fæðingarorlofssjóður greiði ekki mótframlag. 

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á öllum starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og rétts til atvinnuleysisbóta. 

Foreldrar í fæðingarorlofi geta óskað eftir að greiða ekki félagsgjald til stéttarfélags, en með því falla réttindi þeirra innan félagsins (tímabundið) niður. 

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun