Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Um réttindi í hjónabandi og skráðri sambúð

Við hjónaband myndast ákveðin réttindi sem eru ekki til staðar ef um óvígða sambúð er að ræða. Eftirfarandi réttindi eru meðal þeirra helstu sem hjón hafa umfram einstaklinga sem eru í óvígðri sambúð.

Erfðamál

Þau sem eiga skylduerfingja, það er maka, börn eða aðra niðja á lífi geta aðeins ráðstafað þriðjungi hluta eigna sinna með erfðaskrá. Tveir þriðju hlutar eigna skulu ganga til skylduerfingja. Eigi einstaklingur hvorki maka né niðja, getur hann ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá. 

Fólk í sambúð á ekki rétt á arfi eftir maka nema það sé tilgreint í erfðaskrá.

Nánar um erfðamál

Réttur til setu í óskiptu búi

Að sitja í óskiptu búi þýðir að eftirlifandi maki þarf ekki að skipta eignum og greiða út arf strax eftir andlát. Makinn getur þá að flestu leyti farið með búið sem sitt eigið. Ekki þarf að sækja um leyfi til setu í óskiptu búi nema um stjúpniðja sé að ræða. Í þeim tilfellum þarf að fá samþykki þeirra eða forsjáraðila þeirra. Hjónum er heimilt að gera erfðaskrá um að maki megi sitja í óskiptu búi með stjúpniðjum án þess að þurfa sérstakt samþykki þeirra. 

Reglur um óskipt bú gilda aðeins um fólk sem er í hjónabandi, ekki þeim sem eru í skráðri sambúð. 

Nánar um setu í óskiptu búi

Fjármál / Eignir hjóna

Grundvallarreglan er sú að hvort hjóna á þær eignir sem það kemur með inn í hjúskapinn og eignast meðan á honum stendur. Hvort hjóna ábyrgist líka þær skuldir sem það kemur með og stofnar til í hjúskap.  Allar eignir hjóna kallast annað hvort hjúskapareignir eða séreignir. Ef hjón eiga eign saman, þá er eignarhluti hvors um sig annaðhvort hjúskapareign eða séreign viðkomandi. Þetta fyrirkomulag breytir engu um ráðstöfunarrétt eignarinnar, en skiptir máli ef það kemur til skilnaðar eða annað hjóna fellur frá. 

Hjúskapareignir koma almennt til helmingaskipta milli hjóna við skilnað eða andlát, en það gera séreignir hvort aðilans um sig hins vegar ekki.

Engin lög eða reglur gilda hins vegar um fjármál sambúðarfólks og er það í aðalatriðum eins sett og tveir einstaklingar.

Kaupmáli

Kaupmáli er einungis gildur ef hann er formlega skráður og þinglýstur hjá sýslumanni. Tilgangur kaupmála er oftast sá að gera eign að séreign annars hjóna til að tryggja að eignin komi ekki til skiptana við skilnað eða andlát.  Kaupmáli getur líka verið gerður í þeim tilgangi annars hjóna að gefa makanum gjöf, til dæmis helming íbúðarhúsnæðis þeirra. Í kaupmálanum þarf þá að koma fram hvort gjöfin verði séreign eða hjúskapareign viðtakandans. 

Nánar um kaupmála

Framfærsluskylda

Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað sem þýðir að þau bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar, svo sem heimilishaldi, uppeldi og menntun barna sinna.  Gagnkvæm framfærsluskylda hjóna helst eftir skilnað að borði og sæng og er þá tekin ákvörðun um það hvort annað hjóna greiði lífeyri með hinu og hver fjárhæðin eigi að vera. 

Eftir að lögskilnaður er veittur þarf annað hjóna ekki að greiða lífeyri með hinu nema mjög sérstaklega standi á. 

Um sambúðarfólk eru engar lagareglur um samábyrgð á afkomu fjölskyldunnar eða gagnkvæma framfærsluskyldu.

Ráðstöfunarréttur

Þar sem hjón gegna framfærsluskyldu sín á milli, þá hafa þau takmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir ýmsum eigna sinna. Einstaklingi í hjónabandi er til dæmis ekki heimilt að selja eða veðsetja heimili fjölskyldunnar eða innbú heimilisins án samþykkis maka. 

Sýslumenn

Sýslu­menn