Fara beint í efnið

Þjónusta Ísland.is

Pósthólf

Umsókn skjalaveitu

Skilmálar vegna aðgengis að stafrænu pósthólfi

Almennt

Hér á eftir fara skilmálar þeir sem gilda um samkomulag fjármála- og efnahagsráðuneytisins (hér eftir einnig „rekstraraðili“) og þeirra opinberu stofnana og lögaðila sem nota eða ætla að nota vefþjónustu rekstraraðila (hér eftir einnig „stafræna pósthólfið“) til að birta gögn (hér eftir einnig „birtingaraðili“) til þeirra einstaklinga, lögaðila og opinberu stofnana sem eiga sitt eigið stafræna pósthólf og hafa þar aðgang að gögnum (hér eftir „viðtakandi“).

Skilmálar þessir eru gefnir út þann 9. febrúar 2021 og gilda frá þeim degi.  

Skilmálar þessir taka gildi gagnvart birtingaraðila þegar viðkomandi hakar við að hann samþykki skilmálana og að hann hafi kynnt sér þá eða þegar hann notar kerfið í fyrsta sinn, sá atburður sem fyrr kemur.

Skilgreiningar

Í skilmálum þessum, þar sem samhengi texta leyfir, skulu eftirfarandi hugtök skilgreind með þeim hætti sem hér segir:

Íslykill: Íslykill er lykilorð sem er tengt kennitölu einstaklings eða lögaðila.
Rafræn skilríki: Rafræn persónuskilríki sem notuð eru í rafrænum heimi.
Rekstraraðili: Stafrænt Ísland fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Birtingaraðili: Opinberir aðilar sem nota eða ætla að nota stafrænt pósthólf til að birta skjöl í stafrænu pósthólfi viðtakanda.
Viðtakandi: Einstaklingar, lögaðilar og opinberar stofnanir sem hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi.
Vefþjónustan: Vefaðgangur að gagnasendingakerfi í gegnum stafrænt pósthólf.
Stafrænt pósthólf: Miðlæg vefþjónusta rekstraraðila þar sem einstaklingar, lögaðilar og opinberar stofnanir eiga sitt stafræna pósthólf þar sem þeir hafa aðgang að gögnum frá opinberum stofnunum og sveitarfélögum.

Tæknilýsing stafræns pósthólfs.

Öryggiskröfur sem gerðar eru til skjalaveitna sem vilja tengjast stafrænu pósthólfs.

Aðgangur og gagnasendingar

Birtingaraðili öðlast rétt til aðgangs að og gagnasendinga í gegnum stafrænt pósthólf þegar hann hefur undirgengist skilmála þessa. Rétturinn felur n.t.t. í sér beina tengingu við „kerfið“ en með tengingunni getur birtingaraðili tengt eigið skjala-/gagnakerfi við stafræna pósthólfið, í samræmi við tæknilýsingu stafræna pósthólfsins, og þannig birt gögn í stafrænu pósthólfi viðtakenda.

Um lýsingu stafræna pósthólfsins vísast til tæknilýsingar stafræna pósthólfsins.

Tæknilýsing rafræna pósthólfsins

Nauðsynlegt er að öll samskipti í gegnum stafræna pósthólfið uppfylli kröfur sem finna má í tæknilýsingu stafræna pósthólfsins.

Aðgangsstýringar

Birtingaraðili skráir sig inn í vefþjónustuna með rafrænum skilríkjum eða Íslykli til
auðkenningar. Auðkenning birtingaraðila skal fara fram á vefsvæði innskráningarþjónustu Ísland.is og að auðkenningu lokinni er birtingaraðila skilað inn á stafrænt pósthólf sitt.

Á birtingaraðila hvílir sú skylda að annast og tryggja aðgangsstýringar að stafræna pósthólfinu vegna einstakra notenda sinna og ber hann fulla ábyrgð á aðgangi og allri notkun þeirra starfsmanna sem nýta vefþjónustuna í umboði birtingaraðila

Aðgerðir eru ávallt framkvæmdar í nafni birtingaraðila.

Ábyrgð á áreiðanleika upplýsinga

Birtingaraðili ber ábyrgð á áreiðanleika þeirra upplýsinga sem hann færir í stafræna
pósthólfið.

Gagnkvæm upplýsingaskylda

Verði birtingaraðili var við misnotkun á vefþjónustunni, eða gögnum henni tengdri, ber honum tafarlaust að tilkynna rekstraraðila vefþjónustu um slíkt. Verði hann fyrir tölvuárás eða var við að upplýsingar komist í hendur óviðkomandi aðila eða ef grunur vaknar um að slík atvik hafi orðið eða séu yfirvofandi ber honum jafnframt að tilkynna rekstraraðila vefþjónustu um slíkt án tafar. Komi til þess að birtingaraðili verði var við villur eða önnur vandamál í vefþjónustunni ber honum að upplýsa rekstraraðila vefþjónustu um það svo fljótt sem kostur er með tölvupósti á netfangið: island@island.is. Þá ber birtingaraðila jafnframt að upplýsa rekstraraðila vefþjónustu um atvik sem haft geta áhrif á tengingu við vefþjónustuna svo sem ef notast er við nýjan þjónustuaðila/hýsingaraðila, ný tölvukerfi o.s.frv.

Rekstraraðili stafræna pósthólfsins mun tilkynna birtingaraðila ef bilanir eða nauðsynlegar
uppfærslur sem varða vefþjónustuna koma upp. Komi til þess að vefþjónustan liggi niðri af óviðráðanlegum ástæðum mun rekstraraðili vefþjónustu jafnframt tilkynna birtingaraðila um slíkt. Þjónusta rekstraraðila vefþjónustu fer almennt fram á skrifstofutíma en verði rof á tengingu við vefþjónustuna skal rekstraraðili vefþjónustu bregðast við tilkynningu þess efnis eins fljótt og auðið er.

Gagnaöryggi og ábyrgð birtingaraðila

Birtingaraðili sem nýtir vefþjónustu stafræns pósthólfs ber ábyrgð á öryggi upplýsinga, sem frá vefþjónustunni eru fengnar, í eigin vefkerfum og þar með talið réttleika þeirra, leynd og rekjanleika.

Birtingaraðili ábyrgist að hann sjálfur, fyrirsvarsmaður eða starfsmaður sem hefur aðgangsheimild að vefþjónustunni hafi kynnt sér efni þessara skilmála og skuldbindi sig til að tryggja öryggi upplýsinganna. Birtingaraðili ber ábyrgð á að upplýsingarnar komist ekki í hendur óviðkomandi aðila og ber sjálfur ábyrgð á að aðgangsstýra aðgengi að þjónustunni í sínum kerfum ásamt eftirliti með notkun með vísan til kafla um aðgangsstýringar.

Ábyrgð rekstraraðila

Rekstraraðili ber ekki ábyrgð á tjóni vegna óleyfilegrar notkunar, t.d. ef óviðkomandi aðili hefur komist yfir aðgang birtingaraðila eða viðtakanda að vefþjónustunni, eða ef birtingaraðila eða viðtakanda hefur ekki tekist að tilkynna rekstraraðila um misnotkun á vefþjónustunni, eða grun um slíkt.

Rekstraraðili ber ekki ábyrgð á tjóni vegna notkunar á vefþjónustunni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun birtingaraðila eða viðtakanda. Þá ber rekstraraðili vefþjónustunnar ekki ábyrgð á tjóni sem stafar af því að búnaður birtingaraðila eða viðtakanda virkar ekki sem skyldi.

Rekstraraðili ber hvorki beint né óbeint ábyrgð á tjóni sem orsakast af fyrirvaralausri lokun stafræns pósthólfs, t.d. vegna bilana sem rekja má til sambandsleysi, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri vefþjónustunnar og eru ófyrirsjáanlegar eða óhjákvæmilegar vegna óviðráðanlegra aðstæðna (force majeure). Verði einhver mistök, truflanir eða tafir á vefþjónustunni, sem rekja má til framangreindra aðstæðna, skal ábyrgð rekstraraðila vefþjónustunnar takmarkast við að lagfæra slík mistök, truflanir eða tafir, svo fljótt sem auðið er.

Rekstraraðili ber eingöngu ábyrgð á tjóni birtingaraðila ef það má rekja til stórkostlegs
gáleysis eða ásetnings starfsmanna rekstraraðila. Ábyrgð rekstraraðila nær í slíku tilviki eingöngu til beins tjóns en aldrei til afleidds tjóns sem verða kann af þessum sökum, s.s. rekstrarstöðvunar, tapaðra viðskipta eða álitshnekkis.

Persónuvernd

Birtingaraðili hefur kynnt sér viðeigandi reglur um notkun upplýsinga, meðal annars ákvæði
laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þ.m.t. um
meðferð, vinnslu og miðlun upplýsinga og gagna.

Aðilar teljast ábyrgðaraðilar vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við stafrænt pósthólf.
Birtingaraðili ber ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við notkun hans á hinu stafræna pósthólfi, þar á meðal sendingu, vistun og birtingu persónuupplýsinga í pósthólfinu. Rekstraraðili ber ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga vegna rekstrar pósthólfsins sjálfs, svo sem á upplýsingum um notendur hólfsins og atburðarskrár. Vinnsla persónuupplýsinga vegna stafræns pósthólfs er nánar tilgreind í persónuverndarstefnu Ísland.is sem er aðgengileg á vef stofnunarinnar.

Vinnsla persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Aðilar bera ábyrgð á að vinnsla þeirra á persónuupplýsingum sé lögmæt og eigi sér stoð í 9. gr. og eftir atvikum 11. gr. laganna og að vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við meginreglur laganna, sbr. 8. gr. laganna.

Aðilar skulu í sameiningu tryggja að meginreglan um innbyggða og sjálfgefna persónuvernd sé viðhöfð, sé þess þörf gera þeir í sameiningu mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslunnar og hafa fyrirframsamráð við Persónuvernd í samræmi við 30 gr. laga nr. 90/2018. Aðilar skulu gera áhættumat á vinnslunni, eins og þurfa þykir, og grípa til viðeigandi ráðstafana til að draga úr áhættu sem greinist.

Aðilar bera hvor um sig ábyrgð á að þeir geti sýnt fram á hlítni við lög nr. 90/2018. Aðilar skulu aðstoða hvorn annan við að sýna fram á hlítni við lög, svo sem með því að útvega öll nauðsynleg skjöl til að þeir geti sýnt fram á reglufylgni og til að ábyrgðaraðili eða úttektaraðili geti framkvæmt úttektir, þ.m.t. skoðanir, og veita aðstoð við slíkar úttektir.

Aðilar bera sameiginlega ábyrgð á að veita einstaklingum fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga þeirra vegna notkunar aðila á stafræna pósthólfinu í samræmi við 17. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 12.–15. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679. Fræðslan skal birt í persónuverndarstefnu Ísland.is og gerð viðtakendum aðgengileg.

Að öðru leyti fer um vinnslu persónuupplýsinga, svo sem um tilkynningu öryggisbresta og réttindi einstaklinga, samkvæmt vinnsluskilmálum Stafræns Íslands eða vinnslusamnings.
Ákvæði þessara notendaskilmála ganga framar ákvæðum annarra skilmála eða samninga.

Ákvæði þessara skilmála er varða vinnslu persónuupplýsinga og skiptingu ábyrgðar milli aðila skulu gerð einstaklingum sem vinnslan varðar aðgengileg samkvæmt beiðni.

Greiðslur vegna notkunar á vefþjónustu

Ekki er innheimt gjald fyrir notkun á vefþjónustunni.

Framsal

Birtingaraðila er óheimilt að framselja rétt eða flytja að hluta eða fullu réttindi sín eða
skyldur samkvæmt skilmálum þessum, nema að fengnu skriflegu samþykki
rekstraraðila vefþjónustunnar. 

Breytingar á skilmálum

Rekstraraðili vefþjónustu áskilur sér einhliða rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum
og skulu þær tilkynntar birtingaraðila í rafrænni tilkynningu með að minnsta kosti 30 daga fyrirvara sem send skal til birtingaraðila með sannanlegum hætti áður en ný eða breytt ákvæði taka gildi. Auk þess eru nýir eða uppfærðir skilmálar birtir á heimasíðu rekstraraðila vefþjónustu.

Rekstraraðila vefþjónustu er þó heimilt að gera breytingar á skilmálum með skemmri fyrirvara ef slíkar breytingar á skilmálum eru nauðsynlegar samkvæmt lögum. Í slíkum tilvikum þar sem fyrirvarinn kann að vera skemmri skal rekstraraðili vefþjónustu leitast við að tilkynna slíkar breytingar eins fljótt og mögulegt er.

Brot gegn skilmálum

Verði birtingaraðili uppvís að því að brjóta gegn skilmálum þessum eða misnota vefþjónustuna á annan hátt, eða ljóst þykir að hann getur hvorki né ætlar að uppfylla ákvæði þessara skilmála er rekstraraðila vefþjónustunnar hvenær sem er, og án fyrirvara, heimilt að loka á aðgang viðkomandi birtingaraðila. Í slíku tilviki skal rekstraraðili vefþjónustunnar senda viðkomandi birtingaraðila tilkynningu þess efnis með sannanlegum hætti.

Umsókn skjalaveitu

Þjónustuaðili

Staf­rænt Ísland