Fara beint í efnið

Lögbirtingablaðið

Lögbirtingablaðið er vettvangur þar sem birtar eru þær auglýsingar sem samkvæmt lögum eiga að birtast í blaðinu og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi. Útgáfa Lögbirtingablaðsins er rafræn og fer fram á vefnum logbirtingablad.is

Sýslumaðurinn á Suðurlandi gefur út Lögbirtingablaðið í umboði Dómsmálaráðuneytisins. 

Sýslumaður er ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins.
vefsíða: www.logbirtingablad.is
netfang: logbirtingabladid@syslumenn.is
sími: 458-2800

Útgáfudagur auglýsingar telst sá dagur sem hún birtist rafrænt á vef blaðsins. 

Áskrifendur

Áskrifendur geta skoðað útgefnar auglýsingar eftir innskráningu á vef blaðsins. Sótt er um áskrift á vef blaðsins og innheimt er áskriftargjald í samræmi við gjaldskrá hverju sinni. Eftir að skráningu hefur verið lokið fær áskrifandi greiðslukröfu í netbanka og einnig sendan reikning á island.is. Áskriftin verður virk næsta virka dag eftir að greitt hefur verið. 

Auglýsendur

Sækja þarf um aðgang að auglýsendahluta vefsins. Aðgangurinn er gjaldfrjáls en greitt er fyrir birtingu auglýsinga eftir verðskrá hverju sinni. Auglýsendur útbúa sjálfir og senda auglýsingarnar inn rafrænt. Þeir fá uppfærða yfirsýn yfir allar auglýsingar sínar og geta séð stöðu auglýsinganna á aðgangi sínum á vefnum. 

Hvað er birt í Lögbirtingablaðinu

Í blaðinu eru til dæmis birtar dómsmálaauglýsingar eins og stefnur til dóms, innkallanir og aðrar auglýsingar er varða opinber skipti þrota- og dánarbúa, nauðungarsölur, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu svo dæmi séu tekin. Sjá nánar í lögum.

Hvað er ekki birt í Lögbirtingablaðinu

Almennt hafa einkaaðilar ekki heimild til að auglýsa í Lögbirtingablaðinu, enda hafa þeir fjölmarga aðra möguleika sem nýst geta í því skyni.  Efni Lögbirtingablaðsins er ætlað auglýsingum og tilkynningum frá hinu opinbera, enda fyrst og fremst vettvangur fyrir það sem stjórnvöld birta almenningi og hefur réttaráhrif.

Dæmi um auglýsingar sem ekki er heimilt að birta í Lögbirtingablaðinu eru auglýsingar landeiganda um að berjatínsla sé bönnuð á landareign þeirra, að veiði sé ekki heimil á landinu eða sambærilegar auglýsingar. Einnig má nefna að ekki er heimilt að birta almennar greiðsluáskoranir í blaðinu. 

Lög og reglugerðir

Lög nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið