Fara beint í efnið

Launþegi, réttindi og lífeyrir

Lífeyrir

Þeir sem starfa á íslenskum vinnumarkaði ávinna sér rétt til ævilangs lífeyris með því að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð. Einnig myndast réttur til örorkulífeyris, barnalífeyris og makalífeyris. Yfirleitt er þessi réttur í samtryggingarlífeyrissjóði, en í sumum tilvikum er um blandaðan sjóð að ræða sem er að hluta séreignarsjóður.

Lífeyrir frá lífeyrissjóði

Aðild að lífeyrissjóði og greiðsla iðgjalda er lögboðin, samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í sumum tilvikum segja kjarasamningar til um í hvaða lífeyrissjóð launþegi skal greiða
iðgjöld, að öðru leyti getur launþegi valið sér lífeyrissjóð.

Greiðslur frá lífeyrissjóðum geta haft áhrif á tekjutengdar bætur almannatrygginga.

Sækja þarf um greiðslu lífeyris úr lífeyrissjóðum. Umsóknareyðublöð er að fá hjá hverjum sjóði, en þau má einnig nálgast á vefjum lífeyrissjóðanna auk þess sem hægt er að fá þau send heim.

Nóg er að sækja um lífeyri hjá einum sjóði þó að greitt hafi verið í fleiri. Sá lífeyrissjóður sendir umsóknina áfram á aðra sjóði sem greitt var til.

Allir lífeyrissjóðir geta veitt upplýsingar um þá sjóði sem einstaklingur hefur greitt í um ævina. Yfirlit um áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðum er hægt að sjá í Lífeyrisgáttinni á lifeyrismal.is, í flestum tilvikum einnig með innskráningu á sjóðfélagavef hvers sjóðs.

Lífeyrissjóðum er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris. Greiðslur hækka þá eða lækka hlutfallslega samkvæmt samþykktum hvers lífeyrissjóðs.

Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og launatekjur. Um leið og sótt er um lífeyri þarf að tilkynna um nýtingu persónuafsláttar og viðeigandi skattþrep.

Ellilífeyrir

Ellilífeyrir er borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Upphæð lífeyris er í hlutfalli við greidd iðgjöld á starfsævinni, með örfáum undantekningum.

Umsókn um ellilífeyri

Örorkulífeyrir

Sjóðfélagar eiga rétt á örorkulífeyri frá sínum lífeyrissjóði (sem þeir greiða iðgjöld í þegar örorka myndast) samkvæmt örorkumati trúnaðarlæknis sjóðsins. Fjárhæð örorkulífeyris ræðst af framreikningi þeirra réttinda sem sjóðfélaginn hefur þegar myndað við örorkuna og er þá miðað við að sambærileg réttindaávinnsla verði til 65 ára aldurs og fjárhæðin miðast við þau. Örorkulífeyrir er greiddur til 65 ára aldurs, eftir það er greiddur ellilífeyrir.

Makalífeyrir

Makalífeyrir er greiddur eftirlifandi maka sjóðfélaga samkvæmt skilyrðum viðkomandi sjóðs. Hver sjóður setur sér nánari reglur um makalífeyri, svo sem um fjárhæð.

Barnalífeyrir

Barnalífeyrir er greiddur börnum látins sjóðfélaga samkvæmt nánari reglum hvers sjóðs. Barnalífeyrir er allajafnan föst fjárhæð á mánuði þar til barn hefur náð tilteknum aldri.

Lífeyrismál á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis
Lífeyrissjóðir og lífeyrisréttindi á vef Landssamtaka lífeyrissjóða

Viðbótarlífeyrissparnaður

Launþegar hafa val um að greiða 2–4% í viðbótarlífeyrissparnað sem er viðbót við lögbundinn lífeyrissparnað. Atvinnurekandinn greiðir þá 2% iðgjald á móti sem er kjarasamningsbundið. 

Hægt er að fá sparnaðinn greiddan út við 60 ára aldur sem eina fjárhæð eða greitt út á nokkrum árum. Skattur er greiddur við útgreiðslu.

Viðbótarlífeyrissparnaður:

  • er greiddur út við örorku vegna veikinda eða slysa ef þess er óskað

  • rennur til maka og barna við andlát

  • er ekki aðfararhæfur (ekki hægt að ganga á við gjaldþrot)

  • ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af vaxtatekjum eins og öðrum sparnaði

Hægt er að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði skattfrjálst (undanþegið tekjuskatti) til að kaupa fyrstu íbúð og innborgun inn á húsnæðislán. 

Úttekt takmarkast við 500 þúsund kr. á ári hjá einstaklingum og 750 þúsund kr. á ári hjá hjónum. Heimildin gildir frá 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021.

Við fyrstu íbúðakaup er hægt að nýta sér skattfrjálsa úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði fyrir allt að 500 þúsund kr. á ári í samfleytt 10 ár eða samtals 5 milljónir kr. hjá einstaklingi og 10 milljónir kr. hjá hjónum. 

Vert að skoða

Lög og reglugerðir