Fara beint í efnið

Lífeyrir

Þeir sem starfa á íslenskum vinnumarkaði ávinna sér rétt til ævilangs lífeyris með því að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð. Einnig myndast réttur til örorkulífeyris, barnalífeyris og makalífeyris. Yfirleitt er þessi réttur í samtryggingarlífeyrissjóði, en í sumum tilvikum er um blandaðan sjóð að ræða sem er að hluta séreignarsjóður.

Lífeyrir frá lífeyrissjóði

Aðild að lífeyrissjóði og greiðsla iðgjalda er lögboðin, sbr. lög nr. 129/1997.

Í sumum tilvikum segja kjarasamningar til um í hvaða lífeyrissjóð launþegi skal greiða iðgjöld, að öðru leyti getur launþegi valið sér lífeyrissjóð.

Greiðslur frá lífeyrissjóðum geta haft áhrif á tekjutengdar bætur almannatrygginga.

Sækja þarf um greiðslu lífeyris úr lífeyrissjóðum. Umsóknareyðublöð er að fá hjá hverjum sjóði. Þau má einnig nálgast á vef hvers lífeyrissjóðs eða fá send heim.

Nóg er að sækja um lífeyri hjá einum sjóði þó að greitt hafi verið í fleiri. Sá lífeyrissjóður sendir umsóknina áfram á aðra sjóði sem greitt var til.

Allir lífeyrissjóðir geta veitt upplýsingar um þá sjóði sem einstaklingur hefur greitt í um ævina. Yfirlit um áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðum er hægt að sjá í Lífeyrisgáttinni á lifeyrismal.is, í flestum tilvikum einnig með innskráningu á sjóðfélagavef hvers sjóðs.

Lífeyrissjóðum er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris. Greiðslur hækka þá eða lækka hlutfallslega samkvæmt samþykktum hvers lífeyrissjóðs.

Ellilífeyrir er borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Upphæð lífeyris er í hlutfalli við greidd iðgjöld á starfsævinni, með örfáum undantekningum.

Sjóðfélagar eiga rétt á örorkulífeyri frá sínum lífeyrissjóði (sem þeir greiða iðgjöld í þegar örorka myndast) samkvæmt örorkumati trúnaðarlæknis sjóðsins. Fjárhæð örorkulífeyris ræðst af framreikningi þeirra réttinda sem sjóðfélaginn hefur þegar myndað við örorkuna og er þá miðað við að sambærileg réttindaávinnsla verði til 65 ára aldurs og fjárhæðin miðast við þau. Örorkulífeyrir er greiddur til 65 ára aldurs, eftir það er greiddur ellilífeyrir.

Makalífeyrir er greiddur eftirlifandi maka sjóðfélaga samkvæmt skilyrðum viðkomandi sjóðs. Hver sjóður setur sér nánari reglur um makalífeyri, svo sem um fjárhæð.

Barnalífeyrir er greiddur börnum látins sjóðfélaga samkvæmt nánari reglum hvers sjóðs. Barnalífeyrir er allajafnan föst fjárhæð á mánuði þar til barn hefur náð tilteknum aldri.

Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og launatekjur. Um leið og sótt er um lífeyri þarf að tilkynna um nýtingu persónuafsláttar og viðeigandi skattþrep.

Viðbótarlífeyrissparnaður

Séreign er frjáls sparnaður þar sem launafólk getur lagt hluta af launum sínum til hliðar á sérstakan reikning og fengið mótframlag frá vinnuveitanda.

Útborgun séreignar getur hafist við 60 ára aldur og hægt er að fá hana greidda út við örorku.

Staðgreiðsla skatta er greidd af útborguðum séreignarsparnaði.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Efnisyfirlit