Fara beint í efnið

Heimaþjónusta og heimahjúkrun fyrir þá sem dvelja heima

Öldruðum skal gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með því að bjóða þeim ýmis konar stuðning og þjónustu. Annars vegar er um að ræða félagslega heimaþjónustu og hins vegar heimahjúkrun.

Félagsleg heimaþjónusta

Markmiðið með félagslegri heimaþjónustu er að aðstoða þá sem geta ekki hjálparlaust annast dagleg heimilisstörf. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum.

Óski einstaklingur eftir heimaþjónustu á hann að snúa sér til velferðar-/félagsþjónustu síns sveitarfélags. Umsóknareyðublöð eru á vefjum margra sveitarfélaga.

Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvers konar heimaþjónusta er veitt en hún getur verið:

 • almenn heimilishjálp,

 • félagsráðgjöf,

 • heimsending matar,

 • heimsókn og samvera svo sem gönguferðir, lestur dagblaða og fleira,

 • yfirseta í veikindum,

 • garðvinna og snjómokstur,

 • persónuleg umhirða sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar og

 • akstur.

Gjald fyrir heimaþjónustu fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.

Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginga fá heimaþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Upplýsingar um fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu sveitarfélaga á vef stjórnarráðsins

Heimahjúkrun

Heimahjúkrun er veitt þeim sem þurfa hjúkrun til að geta dvalið heima, annaðhvort vegna sjúkdóma eða í kjölfar veikinda og slysa.

Heimahjúkrun er í umsjá heimaþjónustu, heilsugæslustöðva, sveitarfélaga eða einkafyrirtækja. Aðstandendur, hjúkrunarfræðingar og læknar geta óskað eftir heimahjúkrun fyrir hönd skjólstæðinga sinna.

Heimahjúkrun felst meðal annars í:

 • almennri aðhlynningu og eftirliti með andlegu og líkamlegu heilsufari,

 • lyfjagjöf og sáraumbúðaskiptum,

 • aðstoð við böðun.

Ef þörf er á aðhlynningu að næturlagi þar sem skipulögð næturþjónusta er ekki, skal hafa samband við næstu heilsugæslustöð eða aðra vaktþjónustu lækna.

Heimahjúkrun er án endurgjalds.

Vert að skoða