Heilsugæsla
Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga, hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðilegs endurhæfingarstarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga.
Heilsugæsla er yfirleitt fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðisþjónustunni.
Heilsugæslustöðvar
Heilsugæslustöðvar þjóna fyrst og fremst íbúum viðkomandi sveitarfélags eða hverfis.
Æskilegt er því að skrá sig og sína á næstu heilsugæslustöð eða heilbrigðisstofnun og sækja um heimilislækni.
Þegar skráning hefur verið staðfest þarf viðkomandi að gefa heilsugæslustöð leyfi til að kalla eftir sjúkraskrárgögnum.
Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir
Heilbrigðisstarfsmenn hafa einir rétt til þess að senda fólk á sjúkrahús til meðferðar og lækninga.
Víða hafa sjúkrahús og heilsugæslustöðvar verið sameinaðar undir heitinu heilbrigðisstofnun.
Aðrar heilbrigðisstofnanir eru meðal annars endurhæfingarstofnanir, meðferðarheimili, sjúkrasambýli og vinnu- og dvalarheimili.
Öldrunarstofnanir eru samheiti yfir dagvist, stoðbýli, sambýli aldraðra, þjónustuíbúðir aldraðra, hjúkrunar- og dvalarheimili, dvalarrými og hjúkrunardeildir á sjúkrastofnunum.
Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu
Heilbrigðisþjónustan samanstendur af fjölmörgum heilbrigðisstéttum með lögverndað starfsheiti og sumar hverjar lögverndað starfssvið, einnig fólki með sérþekkingu á öðrum sviðum og fólki sem sinnir almennum störfum.
Margir sérgreinalæknar og sérfræðingar starfa bæði á heilbrigðisstofnunum og eigin stofum. Flestir hafa gert samning við Tryggingastofnun.
Óhefðbundin meðferð
Græðarar leggja stund á heilsutengda þjónustu utan almenna heilbrigðiskerfisins, svokallaða óhefðbundna meðferð.
Óhefðbundin meðferð byggir fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum og er markmiðið að efla heilsu fólks, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun.