Fara beint í efnið

Sanngirnisbætur vegna illrar meðferðar á vistheimilum

Frá árinu 2011 hefur íslenska ríkið greitt sanngirnisbætur til einstaklinga sem voru þolendur ofbeldis og illrar meðferðar í barnæsku á meðan þeir dvöldu á heimilum og stofnunum sem voru rekin af hinu opinbera. 

Innkallanir á bótakröfum fór fram á árunum 2011-2017 og alls bárust ríflega 1.100 umsóknir, en heildarfjöldi þeirra sem dvöldu á heimilum og stofnunum sem falla undir lögin er á milli fimm og sex þúsund einstaklingar. Heildarfjárhæð greiddra bóta er um 3,3 milljarðar króna.

Frestur til að sækja um bætur vegna þessara stofnana er runninn út. Lesa lokaskýrslu.

Um stofnanirnar

Þessar stofnanir voru ýmist reknar beint af opinberum aðilum eða með stuðningi þeirra, en eiga allar sameiginlegt að hafa fallið undir eftirlitsskyldu ríkisins með einhverjum hætti. 

Flestar þessar stofnanir og heimili voru rekin sem úrræði í barnavernd, en það var þó ekki svo í öllum tilvikum og voru til dæmis tvær þessara stofnana úrræði vegna heilbrigðisvanda. 

Listi yfir stofnanir

 1. Vistheimilið í Breiðavík í Rauðasandshreppi sem starfaði frá 1952-1979
  Skýrsla um starfsemina kom út í febrúar 2008.

 2. Kópavogshælið sem starfaði frá 1952-1993
  Skýrsla um starfsemina kom út í desember 2016

 3. Heyrnleysingjaskólinn í Reykjavík. Var ákveðið að miða könnunina við árabilið 1947–1992.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 1, 31. ágúst 2009

 4. Vistheimilið Kumbaravogur við Stokkseyri sem starfaði frá 1965–1984.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 1, 31. ágúst 2009.

 5. Skólaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi sem starfaði á árunum 1965–1967.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 1, 31. ágúst 2009.

 6. Vistheimilið Reykjahlíð í Mosfellssveit sem starfaði á árunum 1956–1972.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 2, 31. ágúst 2010.

 7. Vistheimilið Silungapollur sem var starfrækt af Reykjavíkurborg á árunum 1950–1969.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 2, 31. ágúst 2010.

 8. Heimavistarskólinn að Jaðri sem starfaði á árunum 1946–1973.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 2, 31. ágúst 2010.

 9. Upptökuheimili ríkisins sem starfaði á árunum 1945–1978.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 3, 21. nóvember 2011.

 10. Unglingaheimili ríkisins sem starfaði á árunum 1978–1994.
  Skýrsla um starfsemina kom út í áfangaskýrslu 3, 21. nóvember 2011.

Nokkur vistheimili og stofnanir voru rekin undir starfsemi Unglingaheimilisins. Þau voru:

 • Meðferðarheimilið að Kópavogsbraut 17

 • Neyðarathvarfið að Kópavogsbraut 9

 • Meðferðaheimilið Sólheimum 7

 • Unglingasambýlið Sólheimum 17

 • Meðferðarheimilið að Torfastöðum í Biskupstungum

 • Meðferðarheimilið að Smáratúni í Fljótshlíð

 • Meðferðarheimilið Tindar

 • Móttökudeild í Efstasundi 86

Meðferð málsins

Könnun á starfsemi vistheimila

Á árunum frá 2007 og með hléum til ársins 2016 fór fram könnun á starfsemi þessara heimila og stofnana af hálfu nefndar sem var skipuð af forsætisráðherra og sett voru sérstök lög um starfsemi hennar.

Lagaheimild til greiðslu sanngirnisbóta

Sanngirnisbætur eru sérstakt form skaðabóta sem falla utan almenns bótaréttar, enda sönnun tjóns torveld í þessu tilviki og allar kröfur fyrndar.

Með setningu laga nr.  47/2010 var ríkissjóði heimilað að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem vistaðir voru eða dvöldu á ofangreindum heimilum og töldu sér hafa verið misboðið með illri meðferð og/eða ofbeldi.  

Þessu til viðbótar var ráðherra gert kleift með lagabreytingu árið 2012 að aðrar skýrslur en frá Vistheimilanefnd yrðu notaðar til grundvallar greiðslu sanngirnisbóta og var það einkum gert vegna nemenda í Landakotsskóla, einkum á árunum 1955-2000.

Aðstoð við bótakrefjendur

Sett var á fót starf tengiliðar með vistheimilum og starfaði tengiliður á árunum 2010-2018 á vegum dómsmálaráðuneytisins. Starf tengiliðar fólst í því að aðstoða bótakrefjendur við framsetningu krafna sinna, taka viðtöl og leiðbeina þeim, sem og aðstoða við að leita ýmissa úrræða sem þeim stóðu til boða á vegum ríkis og sveitarfélaga.  

Með lögunum var ráðherra heimilað að fela einu tilteknu sýslumannsembætti að annast meðferð málsins og var það falið sýslumannsembættinu á Siglufirði. Varð sú ráðstöfun einkum til vegna mikillar reynslu starfsmanns við embættið við ákvörðun bóta í sakamálum á vegum bótanefndar vegna þolenda afbrota. Sýslumaðurinn á Siglufirði sameinaðist öðrum embættum árið 2015 og er eftir það sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra.

Lok verkefnis

Þessum hluta verkefnisins lýkur að fullu á árinu 2021, enda hefur lögum um sanngirnisbætur nú verið breytt og er gildissvið þeirra annað.