7. janúar 2022
7. janúar 2022
Samþykkisferli fyrir bólusetningar 5-11 ára barna er virkt 7.1.2022
Ferli vegna samþykkis hefur tekið breytingum frá því sem kynnt var á upplýsingafundi 5. janúar vegna tæknilegra vandamála, Ekki verður hægt að senda einkvæman hlekk á forsjáraðila óháð rafrænum skilríkjum eins og fyrirhugað var.
Bólusetningin er alltaf val forsjáraðila fyrir hönd barna sinna og í samráði við þau að því marki sem þroski gefur tilefni til.
Upplýsingar um bólusetninguna má finna hér: https://www.covid.is/barn á mörgum tungumálum og viðbótarefni á færri málum á vef embættis landlæknis.
Efni til að skoða með 5-11 ára börnum er hér og ítarefni fyrir 5-11 ára börn á formi spurninga og svara hér.
Ósk um bólusetningu:
Forsjáraðilar sem deila lögheimili með barni og nota rafræn skilríki þurfa að taka afstöðu til bólusetningar barns hér: https://skraning.covid.is. Hægt er að
skrá barn sitt í bólusetningu
skrá aðra aðila sem heimilt er að fylgja barninu í bólusetningu
hafna/bíða með bólusetningu
Þegar forsjáraðili hefur skráð barn sitt í bólusetningu fær hann sent strikamerki með SMS skilaboðum í númerið sem rafræn skilríki tengjast. Það er á ábyrgð forsjáraðila að senda strikamerkið áfram ef hann vill að einhver annar fylgi barninu í bólusetningu. Ef einhver mætir með barn án strikamerkis á bólusetningarstað er kennitölu barns flett upp. Þá sést hvort óskað hefur verið eftir bólusetningu og hverjir eru skráðir með leyfi til að mæta með barnið. Í þeim tilfellum er spurt um skilríki.
Forsjáraðilar barna á þessum aldri sem ekki nota rafræn skilríki geta mætt sjálfir með barnið á bólusetningarstað og þurfa að hafa skilríki meðferðis.
Aðilar án kennitölu geta skráð barn sitt í bólusetningu á bolusetning.covid.is (enska: vaccine.covid.is) til að flýta fyrir ferli á bólusetningarstað og mæta svo sjálfir með barni sínu þangað á auglýstum tíma.
Bólusetning bíður eða er hafnað:
Ef forsjáraðili hefur afþakkað bólusetningu með rafrænum skilríkjum getur annar forsjáraðili ekki breytt því.
Afþökkun eftir samþykki óvirkjar útgefið strikamerki. Virkt strikamerki á bólusetningastað er þannig staðfesting á að samþykki fyrir bólusetningu liggi fyrir.
Til að afþakka bólusetningu án rafrænna skilríkja þarf að senda tölvupóst á skólahjúkrunarfræðing í skóla barnsins. Höfnun sem berst þessa leið innan sólarhrings fyrir áætlaða bólusetningu næst ekki með vissu að skrá áður en bólusetning fer fram. Einungis forsjáraðilar með lögheimili með barni geta afþakkað bólusetninguna.
Allir aðilar sem hafa skráð sig inn í kerfið fá tilkynningu um breytingar á skráningu barna í þeirra forsjá.
Útkljá þarf ósætti milli forsjáraðila á öðrum vettvangi, bólusetning verður áfram í boði ef forsjáraðilar sammælast um að hún verði gerð.
Staðsetning og tímasetning bólusetningar
Skólahjúkrunarfræðingar senda bréf til skráðra aðstandenda barna hvers grunnskóla í tölvupósti þar sem fram kemur hvenær foreldrar barnsins geta komið með barnið í bólusetningu.
Bólusetning leikskólabarna (árgangur 2016) verður auglýst sérstaklega á hverju svæði en getur farið fram samhliða bólusetningum grunnskólabarna ef þess er óskað. Börn fædd 2017 geta fengið bólusetningu á auglýstum bólusetningatímum eða í samráði við heilsugæslu á hverjum stað, eftir að þau hafa náð 5 ára aldri.
Algengar spurningar
Hvað með börn sem hafa fengið COVID-19? Þau eiga að bíða með bólusetningu í 3 mánuði eftir sýkingu.
Hvað með börn sem eru lasin á bólusetningardegi?
Þau ættu að bíða með bólusetningu þar til þau hafa jafnað sig af veikindunum. Ef þau reynast vera með COVID-19 er rétt að bíða með bólusetningu í a.m.k. 3 mánuði eftir smitið.
Hvað með börn sem hafa fengið bráðaofnæmi fyrir öðrum bóluefnum eða stungulyfjum?
Þau ættu ekki að fá bólusetningu gegn COVID-19 nema í samráði við sérfræðing í ofnæmislækningum.
Ef foreldri á fleiri en eitt barn á þessum aldri má koma með bæði/öll á sama tíma? Já.
Ef barn kemst ekki í bólusetningu á boðuðum tíma verður hægt að fá bólusetningu síðar?Já, heilsugæslan á hverjum stað auglýsir fyrirkomulag.
Hver veit hvort barn er bólusett?Valdir starfsmenn í heilsugæslu hafa aðgang að bólusetningakerfinu. Þeir eru allir bundnir af þagnarskyldu. Starfsfólk skóla fær ekki upplýsingar frá heilsugæslunni um hvort barn er bólusett eða ekki.
Sóttvarnalæknir