Fara beint í efnið

Skilgreiningar:

  • Framfærsla: Foreldrum ber skylda til þess að framfæra barn sitt þar til það hefur náð 18 ára aldri. Í því felst m.a. að sjá fyrir daglegum þörfum þess, aðallega mat, húsnæði og fatnaði

  • Meðlag: Reglubundnar greiðslur umgengnisforeldris til lögheimilisforeldris vegna daglegrar og venjulegrar framfærslu barns


Einfalt meðlag:

Einfalt meðlag er oft kallað lágmarksmeðlag. Einfalt meðlag er jafnhátt barnalífeyri og er upphæð þess endurskoðuð árlega. Einfalt meðlag frá 1. janúar 2022 er kr. 38.540.

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið sinni framfærsluskyldu sinni með greiðslu meðlags.

Foreldrum er ekki skylt að óska staðfestingar sýslumanns á samningi þeirra um meðlag.
Staðfesting sýslumanns á samningi foreldra um meðlag hefur þau áhrif að:

  • Lögheimilisforeldri getur krafist aðfarar hjá umgengnisforeldri vegna ógreidds meðlags.

  • Lögheimilisforeldri getur óskað eftir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu einfalds meðlags samkvæmt samningi foreldra. Tryggingastofnun ríkisins innheimtir svo meðlagið hjá umgengnisforeldri

Foreldrar geta ekki samið um lægra meðlag á mánuði en einfalt meðlag. Samningur foreldra um meðlag má vera tímabundinn en samkomulag þarf að vera á milli foreldra um framfærslu barnsins að öðru leyti fram til 18 ára aldurs. Ekki má takmarka framfærsluskyldu foreldris við lægri aldur barns en 18 ár.

Aukið meðlag:

Aukið meðlag er það meðlag kallað sem er hærra en lágmarksmeðlag.

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið greiði aukið meðlag vegna framfærslu barns. Hægt er að óska staðfestingar sýslumanns á samningi foreldra um aukið meðlag.

Ekki er hægt að óska eftir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu aukins meðlags.

Upplýsingar um viðmiðunarfjárhæðir má nálgast hér.


Úrskurður sýslumanns um meðlag:

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna getur lögheimilisforeldri krafist úrskurðar sýslumanns um greiðslu meðlags frá umgengnisforeldri.

Meðlagið er ákvarðað með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra.

Foreldri sem greiðir aukið meðlag getur óskað eftir úrskurði sýslumanns um niðurfellingu á skyldu sinni til greiðslu aukins meðlags.

Lögheimilisforeldri getur krafist aðfarar hjá umgengnisforeldri vegna ógreidds meðlags samkvæmt úrskurði sýslumanns.

Lögheimilisforeldri getur óskað eftir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu einfalds
meðalags samkvæmt úrskurði sýslumanns. Tryggingastofnun ríkisins innheimtir svo meðlagið hjá umgengnisforeldri. Þjónustuaðili

Sýslu­menn