Fara beint í efnið

Reglur um forsjá barna og umgengnisrétt

Sameiginleg forsjá er meginregla í lögum og við skilnað á að sjá til þess að börn fái notið umgengni og umhyggju beggja foreldra.

Forsjá barna

Foreldrar fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað og slit skráðrar sambúðar nema annað sé ákveðið.

Sameiginleg forsjá felst meðal annars í eftirfarandi:

  • Foreldrar eiga að hafa samráð um allar meiriháttar ákvarðanir sem varða hag barnsins, eins og búsetu og skóla.

  • Öðru foreldri er óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.

Gert er ráð fyrir að foreldrar sammælist um lögheimili þar sem barnið dvelur að staðaldri.

Ef foreldrar barns eru hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barnsins fer móðirin ein með forsjána og barnið á lögheimili hjá henni.

Ef foreldrar vilja breyta fyrirkomulagi forsjár þarf að leita til sýslumanns.

Forsjá á vef sýslumanna

Umgengni

Reglur um umgengnisrétt eiga að tryggja að barn fái reglubundið að vera samvistum við það foreldri sem það býr ekki hjá. Þetta á við hvort sem forsjá barns er sameiginleg eða í höndum annars foreldris.

Við skilnað eða slit sambúðar er foreldrum ætlað að komast að samkomulagi um umgengni. Fyrirkomulag umgengni er óháð því hvernig forsjá er háttað og ákvörðun tekin sérstaklega þar um.

Umgengnissamningar geta bæði verið munnlegir og skriflegir. Hægt er að fara fram á að sýslumaður staðfesti skriflegan samning um umgengni.

Engar formlegar reglur eru til um hvernig umgengni skal háttað.

Umgengni á vef sýslumanna

Deilur um forsjá eða umgengni

Ef ágreiningur rís á milli foreldra um forsjá eða umgengni eiga þau kost á sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf á vegum sýslumanns. Markmiðið er að aðstoða foreldra við að finna lausn á deilu sinni með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu.

Ef foreldrum tekst ekki að ná samkomulagi um forsjá má höfða forsjármál fyrir dómi.

Ef foreldrum tekst ekki að ná samkomulagi um umgengni ákveður sýslumaður hvernig umgengni á að vera og byggir úrskurð sinn á hagsmunum barnsins.

Úrskurð sýslumanns má kæra til dómsmálaráðherra.

Við vissar kringumstæður getur sýslumaður úrskurðað að umgengni fari fram undir eftirliti eða að höfð sé milliganga um að sækja og skila barni.

Ef forsjárforeldri kemur í veg fyrir umgengni sem hefur verið ákveðin með dómi, úrskurði eða staðfestum samningi er hægt að óska eftir að sýslumaður beiti þvingunarúrræðum.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir