Fara beint í efnið

Flutt til útlanda

Sá sem flyst til útlanda og hættir að eiga lögheimili hér á landi verður lögum samkvæmt að tilkynna það Þjóðskrá Íslands áður en hann fer.

Flutt milli landa

Þegar einstaklingur eða fjölskylda hefur ákveðið að flytjast búferlum til útlanda er að mörgu að hyggja.

Þegar flutt er til einhvers hinna Norðurlandanna er nauðsynlegt að tilkynna sig og sína hjá þar til bæru stjórnvaldi í sveitarfélagi sem flutt er til, vegna ýmissa réttinda sem flytjast milli landanna. Framvísa þarf persónuskilríki eða vegabréfi og gefa upp íslenska kennitölu.

Ef flutt er til landa utan Norðurlanda er nauðsynlegt að kynna sér vel hvaða reglur gilda um dvalar- og atvinnuleyfi í landinu og athuga hvort vegabréfsáritun er nauðsynleg. Æskilegt er afla sér upplýsinga um þær breytingar sem verða á réttindum og skyldum hvers og eins við flutning lögheimilis frá Íslandi.

Athuga hvort vegabréf eru gild og sækja um ný ef þarf. Tilkynna til Þjóðskrár Íslands að lögheimili verði flutt og gefa upp fullt aðsetur erlendis.

Athuga hvaða persónuskilríki og skírteini gilda í viðkomandi landi, sækja um ný ef þarf og afla tilskilinna leyfa og vottorða sem nauðsynlegt er að framvísa í viðkomandi landi, til dæmis vegna:

 • atvinnu

 • menntunar – eigin náms og náms barna

 • húsnæðis

 • heilsugæslu

 • almannatrygginga

 • skatta og annarra opinberra gjalda

 • ökuréttinda

Ef börn og unglingar flytja til útlanda með foreldrum sínum er nauðsynlegt að kynna sér vel hvernig menntakerfið í viðkomandi landi er upp byggt. Huga þarf sérstaklega að því hvernig tungumálakennslu fyrir innflytjendur á öllum aldri er háttað.

Svokallaðir íslenskuskólar, ætlaðir börnum og unglingum, eru starfandi í nokkrum löndum og fást upplýsingar um þá á vefjum íslenskra sendiráða og Íslendingafélaga í viðkomandi löndum.

Ísland og ýmis erlend ríki og ríkjasambönd hafa gert með sér milliríkjasamninga um gagnkvæm réttindi og skyldur borgara sem flytjast milli landa.

Ýmsar upplýsingar um flutning til útlanda má finna á vefjum íslenskra sendiráða í viðkomandi löndum og einnig hjá Íslendingafélögum sem starfrækt eru víða um heim.

Greiða þarf toll af búslóðum og bifreiðum sem flutt eru milli landa. Nánari upplýsingar má finna á vefjum erlendra tollayfirvalda.

Íslenskir ríkisborgarar halda rétti sínum til Alþingis- og forsetakosninga í 8 ár eftir að lögheimili hefur verið flutt til útlanda.

Kosningarréttur í sveitarstjórnarkosningum fellur niður við flutning lögheimilis úr landi.

Til minnis

 • Kynna sér hvaða reglur og lög gilda um dvalar- og atvinnuleyfi.

 • Athuga hvort vegabréf eru gild og sækja um ný ef þarf. Kanna hvort vegabréfsáritun er nauðsynleg.

 • Afla persónuskilríkja, skírteina, leyfa og vottorða vegna atvinnu, menntunar, heilsugæslu, trygginga, ökuréttinda og skatta.

 • Kynna sér hvaða borgaralegu réttindi og skyldur myndast eða falla niður og hvort milliríkjasamningar eru í gildi milli landanna.

 • Kynna sér tollgjöld og önnur flutningsgjöld og íhuga hvort tryggja eigi búslóð eða einstaka hluti sem fluttir verða milli landa.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir