Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Fæðingarstyrkur fyrir foreldra í námi, án atvinnu eða í undir 25% starfi

Umsókn um fæðingarstyrk

Foreldri í námi á rétt á mánaðarlegum styrk að upphæð 184.119 kr. 
Foreldri án atvinnu eða í minna en 25% starfi á rétt á mánaðarlegum styrk að upphæð 80.341 kr.

Tímabil fæðingarstyrks

Foreldrar barns sem er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 og síðar eiga rétt á fæðingarstyrk í: 

 • 4 mánuði (sjálfstæður réttur hvors foreldris)

 • 2 mánuði (sameiginlegur réttur sem þau geta ráðstafað sín á milli)

Árið 2019 var rétturinn:

 • 3 mánaða sjálfstæður réttur hvors foreldris

 • 3 mánaða sameiginlegur réttur

Til að eiga rétt á fæðingarstyrk þarf foreldri að eiga lögheimili á Íslandi við fæðingu barns eða komu þess á heimilið og síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Hafi foreldri haft lögheimili hér á landi í einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða komu þess á heimilið, skal taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru EES ríki þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði á 12 mánaða tímabilinu. Ekki má hafa liðið meira en mánuður frá því að tryggingartímabili í öðru EES ríki lauk. 

Námsmenn - mat á réttindum

Foreldri sem var í fullu námi í að minnsta kosti 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur og stóðst kröfur um námsframvindu á tímabilinu á rétt á fæðingarstyrk. 

Skilyrði um fullt nám

 • Fullt nám telst vera 75-100% samfellt nám sem stendur yfir í að minnsta kosti 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu eða komu barns á heimilið.

 • Leggja þarf fram staðfestingu frá skóla um skráningu og að viðkomandi hafi staðist kröfur um námsframvindu.

 • Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Undanþágur frá fullu námi

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám sé ekki uppfyllt

 • hafi foreldrið verið samfellt í að minnsta kosti 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fram að því að námið hófst.

 •  þegar foreldri hefur lokið að minnsta kosti einnar annar námi og hefur síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er þó að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti 6 mánuði.

 • þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi sínu til að ljúka tiltekinni prófgráðu. 

Upphaf og skipting orlofstímans

Óheimilt er að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil. Undanþága frá þessu er þegar foreldri hefur öðlast rétt til fæðingarorlofs sem foreldri á innlendum vinnumarkaði, en á rétt á fæðingarstyrk en ekki greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. 

Greiðsla fæðingarstyrks getur í fyrsta lagi hafist fyrsta virkan dag þess mánaðar sem fer á eftir fæðingarmánuði barns.

Foreldri getur ákveðið að greiðslur hefjist síðar, en réttur til fæðingarstyrks fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri. 

Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur gildir:

 • Greiðsla fæðingarstyrks getur í fyrsta lagi hafist fyrsta virkan dag þess mánaðar sem fer á eftir þeim mánuði sem barnið kemur inn á heimilið.

 • Réttur til fæðingarstyrks fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kemur inn á heimilið. Nauðsynlegt er að barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir staðfesti ráðstöfunina.

 • Þegar sækja þarf barn til annarra landa getur greiðsla fæðingarstyrks hafist við upphaf ferðar að því gefnu að viðkomandi yfirvöld eða stofnun hafi staðfest að barn fáist ættleitt.

Fæðingarstyrkur til einhleypra foreldra

Einhleyp móðir sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun, eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið það í varanlegt fóstur á rétt á fæðingarstyrk í 10 mánuði.

Lengdur réttur vegna fjölburafæðingar

Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til greiðslna fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir:

 • hvert barn umfram eitt sem fæðist á lífi eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu

 • hvert barn umfram eitt sem er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur á sama tíma

Lengdur réttur vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar barns

Foreldrar sem eignast alvarlega veik eða fötluð börn eiga sameiginlegan rétt á viðbótar fæðingarstyrk í allt að 7 mánuði.

Alvarlegur sjúkdómur eða fötlun miðast við að:

 • umönnun sé meiri en eðlilegt er við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barnið liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi

Þrálát veikindi vegna hlaupabólu, eyrnabólgu eða annarra álíka veikinda teljast ekki til alvarlegs sjúkdóms.

Gögn sem þurfa að berast:
Vottorð vegna alvarlegs sjúkleika og/eða fötlunar barns (DOC)
Medical certificate for maternity leave due to disease in a child (English version - DOC)

Í vottorðinu er mikilvægt að læknir leggi áherslu á að rökstyðja þá sérstöku umönnun sem alvarlegi sjúkleikinn eða alvarlega fötlunin krefst og þá í hversu langan tíma. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Réttindi foreldra sem láta börn frá sér til ættleiðingar, uppeldis eða fósturs

Réttindi falla niður frá þeim degi sem barn er látið í fóstur eða til ættleiðingar. Kynforeldrar eiga þó sameiginlegan rétt á tveggja mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu barns.

Upphæðir og greiðslur

 • Foreldri í námi á rétt á mánaðarlegum styrk að upphæð 184.119 kr.

 • Foreldri án atvinnu eða í minna en 25% starfi á rétt á mánaðarlegum styrk að upphæð 80.341 kr.

Fæðingarstyrkur er greiddur eftirá: fyrsta virka dag hvers mánaðar, fyrir mánuðinn á undan. 

Greiðslan er staðgreiðsluskyld. 

Áhrif annarra bótagreiðslna á fæðingarstyrk

Eftirfarandi reglur gilda um réttindi verðandi foreldra:

 • Foreldri sem nýtur greiðslna úr

   

  Atvinnuleysistryggingasjóði

   

  samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða foreldraorlofs samkvæmt lögunum.

 • Foreldri sem nýtur

   

  slysadagpeninga

   

  samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eða endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögunum.

 • Foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til

   

  foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

   

  getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögunum.

 • Foreldri sem nýtur

   

  orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka

   

  getur ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögunum á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.

 • Greiðslur frá öðrum ríkjum

   

  vegna sömu fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Með umsókn skulu fylgja gögn sem staðfesta réttindin, greiðslutímabil og upphæðir (5. mgr. 33gr. ffl. og 21.gr. rgl.).

Umsókn um fæðingarstyrk

Umsókn um fæðingarstyrk

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun