Fara beint í efnið

Andlát tilkynnt til Þjóðskrár og sýslumanns

Dánarvottorð er annars vegar tilkynning til Þjóðskrár um banamein og andlát viðkomandi og hins vegar tilkynning til sýslumanns um andlátið.

Læknir eða yfirlæknir á viðkomandi heilbrigðisstofnun, læknir hins látna eða héraðslæknir og stundum lögregla, allt eftir því hvernig andlát bar að, skoða lík og læknir ritar dánarvottorð.

  1. Aðstandandi hins látna fær afhent dánarvottorð á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni sem skoðaði hinn látna.

  2. Aðstandandi afhendir dánarvottorðið sýslumanni í því umdæmi sem hinn látni átti lögheimili á dánardægri eða þar sem dánarbúi verður skipt.

  3. Sýslumaður afhendir aðstandanda staðfestingu á móttöku dánarvottorðs.

  4. Aðstandandi afhendir presti, forstöðumanni trú- eða lífsskoðunarfélags eða útfararstjóra staðfestinguna. Án hennar getur útför ekki farið fram.

  5. Sýslumaður sendir dánarvottorð til þjóðskrár.

Andlát í útlöndum

Ef hinn látni lést í útlöndum er dánarvottorð eða samskonar erlent vottorð afhent sýslumanni í því umdæmi þar sem útför verður gerð eða þar sem dánarbúinu verður skipt.

Andlátstilkynning án dánarvottorðs

Ef framvísun dánarvottorðs er ekki möguleg getur sýslumaður tekið við andlátstilkynningu ef henni fylgja einhver eftirtalinna sönnunargagna:

  • Embættisvottorð undirritað af einstaklingi sem er vegna opinberra starfa sinna bær um að votta andlát.

  • Lögregluskýrsla sem hefur verið gerð hér á landi og staðfestir andlát eða dómur uppkveðinn hér á landi um lát horfins manns.

  • Dómsúrskurður uppkveðinn hér á landi um að skipta megi arfi eftir horfinn mann sem hann væri látinn. Samsvarandi erlent sönnunargagn.

Andvana fæðing

Ef barn fæðist andvana þarf ekki að rita dánarvottorð, heilbrigðisstofnun tilkynnir það á sérstöku eyðublaði til Þjóðskrár.