Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Andlát ber að, upplýsingar fyrir aðstandendur

Við andlát ættingja og vina verða þáttaskil sem marka spor í líf fólks. Sorg og önnur viðbrögð við andláti eru mismunandi og einstaklingsbundin og taka oft mið af aðdraganda andláts, sem getur verið langur eða alls enginn.

Andlát

Við andlát á heilbrigðisstofnun, eða utan hennar þegar aðstandendur eru ekki viðstaddir, er haft samband við þá eins fljótt og hægt er. Þegar um slys er að ræða annast prestur eða til þess kvaddur lögreglumaður tilkynningu til aðstandenda.

Þegar tilkynna þarf fjarstöddum ættingjum andlát er yfirleitt haft samband við viðkomandi sóknarprest og hann beðinn um að annast tilkynninguna.

Þegar um banaslys er að ræða skulu fréttamenn og fulltrúar fjölmiðla leita samvinnu við presta eða lögreglu um það hvenær nafn hins látna er birt á opinberum vettvangi. Meginreglan er sú að nafn hins látna er ekki birt fyrr en náðst hefur í flesta eða alla nánustu ættingja.

Eftir andlátið hafa aðstandendur samband við prest, forstöðumann trúfélags/lífsskoðunarfélags eða útfararstjóra sem leiðbeina varðandi næstu skref.

Athuga þarf hvort hinn látni hafi skilið eftir sig sérstakar óskir varðandi meðferð við lífslok. Óskir látins manns um útför ber að virða umfram óskir aðstandenda hans. Sérstaklega skal virða óskir sem byggja á trúarskilningi hins látna.

Samrýmist þær ekki trúarhugmyndum aðstandenda fer útförin oftast fram í samræmi við trúarhugmyndir hins látna en halda má minningarathöfn á grundvelli trúarskilnings aðstandenda.

Sérstaklega þarf að taka tillit til óska um bálför. Verði prestur eða annar sem vitjar um sjúka og deyjandi þess áskynja að viðkomandi hafi skipt um skoðun varðandi útfararfyrirkomulag skal hann sjá til þess að gengið verði frá staðfestingu á vilja hins deyjandi, annað hvort með skriflegri yfirlýsingu eða með staðfestingu tilkvaddra votta.

Sorgarmiðstöð
Sorg og sorgarviðbrögð, bæklingur Sorgarmiðstöðvar

Andlát utan stofnana

Við andlát utan stofnana, eða þegar hinn látni hefur ekki notið umönnunar heilbrigðisstarfsfólks, er lögregla kvödd til auk sjúkraflutningamanna og læknis sem staðfestir andlátið.

Lögregla rannsakar vettvang og ákveður í samráði við lækni hvort unnt sé að kveða upp úr um dánarorsök. Ef það er ekki hægt skal réttarkrufning fara fram samkvæmt lögum.

Þegar andlát hefur verið staðfest, og rannsókn lögreglu og læknis er lokið, getur lögregla heimilað að búið sé um hinn látna heima, ef andlátið varð á heimili.

Lögregla er ábyrg fyrir að hinn látni sé fluttur í líkhús. Oft er flutningurinn falinn útfararþjónustu eða þar til bærum aðilum.

Gjarnan er leitað eftir því við aðstandendur hvort kalla megi til prest og nákominn ættingja eða vin þeim til stuðnings.

Stundum gefst færi á því að hafa kveðjustund áður en hinn látni er fluttur í líkhús og geta slíkar stundir verið dýrmætar.

Andlát erlendis, Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins

Brýnt er að sýna aðstandendum skilning og gæta að þörfum þeirra. Frumkvæði syrgjenda getur oft verið lítið eða verulega skert og ber að taka tillit til þess.

Líkskoðun og krufning

Með líkskoðun er átt við skoðun læknis til þess að athuga hvernig andlát bar að.

Með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun er átt við sameiginlega skoðun lögreglu og læknis til þess að athuga hvernig andlát bar að.

Krufningar eru tvenns konar, krufning í læknisfræðilegum tilgangi og réttarkrufning.

Eftir líkskoðun má kryfja lík í læknisfræðilegum tilgangi hafi hinn látni veitt til þess heimild fyrir andlátið.

Nánasti vandamaður getur einnig samþykkt krufningu, þyki sannað að hún sé ekki í andstöðu við vilja hins látna.

Réttarkrufning fer fram að frumkvæði lögreglu ef vettvangsrannsókn hennar sýnir að dauðsfallið megi rekja til refsiverðrar háttsemi eða þegar ekki er hægt að ákvarða dánarorsök.

Samþykki nánasta aðstandanda eða dómsúrskurð þarf fyrir réttarkrufningu.

Óheimilt er að fjarlægja líffæri ef kryfja á hinn látna réttarkrufningu og ef talið er að brottnámið geti haft áhrif á niðurstöður krufningar.

Líffæragjöf

Í líffæragjöf felst að líffæri eða önnur lífræn efni eru fjarlægð úr látinni manneskju og grædd í sjúkling sem þarfnast þeirra.

Dánarvottorð

Dánarvottorð er annars vegar tilkynning til Þjóðskrár um banamein og andlát viðkomandi og hins vegar tilkynning til sýslumanns um andlátið.

Læknir eða yfirlæknir á viðkomandi heilbrigðisstofnun, læknir hins látna eða héraðslæknir og stundum lögregla, allt eftir því hvernig andlát bar að, skoða lík og læknir ritar dánarvottorð.

 1. Aðstandandi hins látna fær afhent dánarvottorð á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni sem skoðaði hinn látna.

 2. Aðstandandi afhendir dánarvottorðið sýslumanni í því umdæmi sem hinn látni átti lögheimili á dánardægri eða þar sem dánarbúi verður skipt.

 3. Sýslumaður afhendir aðstandanda staðfestingu á móttöku dánarvottorðs.

 4. Aðstandandi afhendir presti, forstöðumanni trúfélags eða útfararstjóra staðfestinguna. Án hennar getur útför ekki farið fram.

 5. Sýslumaður sendir dánarvottorð til þjóðskrár.

Ef hinn látni lést í útlöndum er dánarvottorð eða samskonar erlent vottorð afhent sýslumanni í því umdæmi þar sem útför verður gerð eða þar sem dánarbúinu verður skipt.

Ef framvísun dánarvottorðs er ekki möguleg getur sýslumaður tekið við andlátstilkynningu ef henni fylgja einhver eftirtalinna sönnunargagna:

 • Embættisvottorð undirritað af einstaklingi sem er vegna opinberra starfa sinna bær um að votta andlát.

 • Lögregluskýrsla sem hefur verið gerð hér á landi og staðfestir andlát eða dómur uppkveðinn hér á landi um lát horfins manns.

 • Dómsúrskurður uppkveðinn hér á landi um að skipta megi arfi eftir horfinn mann sem hann væri látinn. Samsvarandi erlent sönnunargagn.

Ef barn fæðist andvana þarf ekki að rita dánarvottorð, heilbrigðisstofnun tilkynnir það á sérstöku eyðublaði til Þjóðskrár.

Tilkynning andláts

Flutningur látinna milli landshluta/landa

Ef flytja á hinn látna milli landshluta eða landa gilda sömu reglur um dánarvottorð og í samnefndum kafla. Útfararþjónustur geta séð um flutning milli landshluta fyrir aðstandendur.

Ef flytja á lík úr landi skal aðstandandi afhenda sýslumanni í því umdæmi þar sem maðurinn lést, dánarvottorðið. Sýslumaður afhendir þeim sem flytur líkið staðfest afrit dánarvottorðs og fylgir það líkinu.

Útfararþjónustur bjóða upp á að sjá um flutning milli landa og annað sem viðkemur flutningnum fyrir aðstandendur.

Tilkynningar í fjölmiðla

Æskilegt er að aðstandendur tilkynni öðrum skyldmennum og vinum hins látna um andlátið áður en dánartilkynning birtist opinberlega.

Andlát og útför er unnt að tilkynna opinberlega á fjórum stöðum, í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Minningar.is. Aðstandendur ættu að hafa í huga að nauðsynlegt er að hafa samband við prentmiðla og útvarp með góðum fyrirvara.

Andlátstilkynning birtist yfirleitt nokkrum dögum eftir andlát, en útfarartilkynning nokkru fyrir útför. Sumir kjósa að birta andlátstilkynningu og tilkynningu um útför saman.

Ef hinn látni hefur óskað eftir að útför sín fari fram í kyrrþey, er tilkynning ekki birt fyrr en að athöfn lokinni.

Morgunblaðið Ríkisútvarpið Minningar.is

Til minnis

 • Tilkynna andlát til nánustu ættingja og vina.

 • Kanna hvort hinn látni hafi látið eftir óskir varðandi útför og hafa samband við prest, forstöðumann trúfélags/lífsskoðunarfélags eða útfararstjóra sem veita upplýsingar og ráðgjöf.

 • Sækja dánarvottorð á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni, afhenda sýslumanni og taka við skriflegri staðfestingu. Afhenda þeim sem sér um útförina staðfestinguna.

 • Kanna hvort réttur sé fyrir hendi á útfararstyrk og kynna sér annan kostnað vegna útfarar.

 • Hafa samband við fjölmiðla með góðum fyrirvara sé ætlun vandamanna að tilkynna andlátið opinberlega.

 • Erfingjar skulu hlutast til um skiptingu dánarbús innan fjögurra mánaða frá andláti.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir