Fara beint í efnið

Ættleiðing, helstu upplýsingar fyrir umsækjendur

Ættleiðing barns er háð ýmsum skilyrðum og þarfnast góðs undirbúnings en grundvallarskilyrði er að hún sé barninu fyrir bestu. Þeir sem vilja ættleiða barn frá öðru landi snúa sér fyrst til Íslenskrar ættleiðingar.

Ættleiðingar erlendra barna

Þegar ættleiða á börn erlendis frá þarf að fá forsamþykki frá íslenskum yfirvöldum sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út.

Ættleiðingar barna frá öðrum löndum eru að jafnaði háðar milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Eitt slík félag er starfandi hér á landi, Íslensk ættleiðing – ÍÆ. Félagið veitir upplýsingar um meðferð mála, aðstoða umsækjendur og sér um samskipti við erlend stjórnvöld.
Lönd sem ÍÆ á samstarf við

Við alveg sérstakar aðstæður getur komið til álita að ættleiða barn frá öðrum löndum. Þá er oft um að ræða ættleiðingu barns sem er nákomið þeim er ættleiðir, svokallaða alþjóðlega fjölskylduættleiðingu. Um framgang mála í þessum tilvikum má fá upplýsingar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Íslensk ættleiðing: miðlun ættleiðinga, fræðslu- og félagsstarf
Sýslumannsembætti
Eyðublöð vegna ættleiðinga á vef sýslumanna

Umsókn og ferli

Umsækjendur snúa sér til Íslenskrar ættleiðingar sem sendir umsókn um forsamþykki og fylgigögn til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Sýslumaður leitar eftir umsögn barnaverndarnefndar og kannar hvort lagaskilyrðum sé fullnægt áður en forsamþykki er gefið út. Þetta ferli tekur nokkra mánuði og felur meðal annars í sér viðtöl við væntanlega kjörforeldra og könnun á aðstæðum þeirra.

Ættleiðingin sjálf á sér ýmist stað erlendis eða hér á landi eftir að heim er komið með barn.

Sé útgáfu forsamþykkis synjað má kæra þann úrskurð til dómsmálaráðuneytis.

Skilyrði

Útgáfa forsamþykkis er meðal annars háð aldri og hjúskaparstöðu umsækjenda, félagslegum aðstæðum og heilsufarslegum. Einhleypir geta samkvæmt íslenskum lögum fengið forsamþykki til ættleiðingar.

Gift fólk þarf að hafa verið í samfelldri sambúð í minnst þrjú ár en fólk í óvígðri sambúð í minnst fimm ár.

Athuga þarf að ríkin sem ættleitt er frá hafa sérstakar reglur um ættleiðingar. Upplýsingar um þær má finna á vef Íslenskrar ættleiðingar.

Réttindi

Kjörforeldrar erlendra barna eiga rétt á ættleiðingarstyrk séu skilyrði ættleiðingarlaga uppfyllt. Styrkurinn er afgreiddur hjá Vinnumálastofnun sem veitir nánari upplýsingar.
Umsókn um ættleiðingarstyrk hjá Vinnumálastofnun

Sé kjörbarn yngra en 8 ára við ættleiðingu öðlast kjörforeldrar rétt á fæðingar- og foreldraorlofi þegar barnið kemur inn á heimilið.

Ýmis stéttarfélög veita félagsmönnum sínum styrki vegna ættleiðinga.

Ættleiðingar íslenskra barna

  • Ættleiðingar íslenskra barna eru tvenns konar; stjúpættleiðingar annars vegar og frumættleiðingar hins vegar.

  • Með stjúpættleiðingu er átt við ættleiðingu annars maka á barni hins.

  • Ættleiðing getur átt sér stað þótt barnið sem í hlut á sé eldra en 18 ára.

Umsókn og ferli

Væntanlegir kjörforeldrar senda umsókn sína og fylgigögn til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem kannar hvort lagaskilyrðum sé fullnægt áður en ættleiðingarleyfi er gefið út.

Ef barnið sem ættleiða á er yngra en 18 ára er málið sent til umsagnar barnaverndarnefndar.

Synjun um útgáfu ættleiðingarleyfis má kæra til dómsmálaráðuneytisins.

Leiðbeiningar og nánari upplýsingar eru veittar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Skilyrði

Við stjúpættleiðingu verður sambúð stjúpforeldris og kynforeldris að hafa staðið í minnst fimm ár. Þetta á við hvort sem um er að ræða hjúskap eða sambúð.

Ef um frumættleiðingu er að ræða verður sambúð að hafa varað samfellt í þrjú ár ef umsækjendur eru giftir eða í staðfestri samvist en í fimm ár ef umsækjendur eru í sambúð.

Einhleypum er leyfilegt að ættleiða sé það ótvírætt talið barninu til hagsbóta og sérstakar aðstæður koma til.

Umsækjendur verða meðal annars að vera andlega og líkamlega heilsuhraustir, búa við traustan efnahag og fullnægjandi húsnæði.

Barn sem er eldra en 12 ára verður að samþykka ættleiðinguna fyrir sitt leyti.

Til minnis

Leita til ættleiðingarfélags um ráðgjöf og milligöngu vegna ættleiðingar erlendis frá.

Sækja um forsamþykki, sem er skilyrði fyrir öllum ættleiðingum, til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Kanna rétt sinn til ættleiðingarstyrks, fæðingar- og foreldraorlofs hjá Vinnumálastofnun.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir